Rannveig H. Gunnlaugsdóttir
Rannveig H. Gunnlaugsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Álfheiður Bjarnadóttir og Rannveig H. Gunnlaugsdóttir fjalla um vanda öldrunarheimilanna og kröfur starfsfólksins um mannsæmandi laun: "Við erum ekki hætt. Aðgerðir okkar munu halda áfram þar til ráðamenn fá skilning á því að þeir bera ábyrgðina."

STARFSMENN á hjúkrunar- og dvalarheimilum eru nú orðnir langþreyttir á bið eftir því að fá leiðréttingu launa sinna miðað við aðrar stéttir sem sinna umönnunarstörfum á almennum markaði og hjá borginni. Í síðustu viku sáum við okkur tilneydd til að grípa til aðgerða inni á vinnustöðum okkar til að knýja á um launabreytingar. Þetta var neyðarúrræði okkar eftir að við höfum beðið þolinmóð í hálft ár eftir sanngjörnum leiðréttingum launa. Krafa okkar er einföld. Við krefjumst sömu launa fyrir sömu vinnu. Eins og staðan er í dag munar á milli 20.000 og 30.000 krónum í launum á okkur og viðmiðunarhópi hjá borginni. Það er sérkennilegt að sjá ráðamenn okkar, þar á meðal ráðherra, taka þátt í athöfnum þar sem skóflustungur eru teknar að nýjum heimilum og húsnæði fyrir aldraða en á sama tíma segja þeir að ekki sé til fé til að borga fólkinu sem vinnur á hjúkrunarheimilunum mannsæmandi laun. Hvernig er hægt að leggja grunn að nýjum húsum meðan ekki fæst fólk til að vinna á þeim heimilum sem eru núna í fullri starfsemi?

Hjá okkur á Hrafnistu er mikið vinnuálag og allt of oft eru of fáir á vakt. Launakjörum er þannig háttað að þótt við séum fjórar á vakt að vinna verk sem sex starfsmenn unnu áður, þá njótum við þess í engu í launum en atvinnurekandinn sparar fé við reksturinn sem síðan bitnar á heilsu okkar og líðan. Það sjá það allir að svona getur þetta ekki gengið til lengdar. Það verður að laga kaupið svo hægt sé að manna vinnustaðina sómasamlega.

Það er dapurlegt að hlusta á ráðamenn þjóðarinnar sem nú vísa hver á annan þegar þeir ættu fyrst og fremst að takast á við ábyrgð sína með því að skoða málin af sanngirni og taka nýjar ákvarðarnir um fjárframlög inn á þetta svið. Mér finnst þessir menn stundum gleyma því að þeir hafa vald sitt frá fólkinu. Það erum við sem kjósum þá til áhrifa og það erum við sem erum vinnuveitendur þeirra.

Ég verð að taka það fram að það er mjög erfitt að þurfa að grípa til aðgerða sem bitna að einhverju leyti á öldruðu fólki sem þarfnast oft mikillar umönnunar. Það er líka gleðilegt að það hefur komið fram hjá íbúum hjúkrunarheimilanna að þeir hafa fullan skilning á því að fólkið sem er að hugsa um þá þurfi að vera á góðum launum því annars fæst ekki gott fólk í störfin.

Við höfum á undanförnum mánuðum horft upp á allt of margt duglegt og samviskusamt fólk sem horfið hefur til annarra starfa svo sem á pítsustöðum og sjoppum þegar það hefur fengið fyrsta launaseðilinn. Gott dæmi um þetta eru sumarafleysingarnar í fyrra. Unga fólkið sem fékk fyrsta launaseðilinn labbaði sumt út af vinnustaðnum og sást ekki meir. Það má enginn góður vinnustaður sem reiðir sig á ábyrgt og gott starfsfólk við þessu. Gamla fólkið vill ákveðna festu, sjá sömu andlitin og sömu handbrögðin. Það vill sjá sama fólkið vinna sömu verkin í dag og vann þau í gær. Stöðugt rót á starfsmönnum kallar á óöryggi og vanlíðan.

Ég trúi því ekki að það vefjist fyrir ráðamönnum, sem geta byggt heilt hátæknisjúkrahús fyrir milljarða og eru með á döfinni að reisa nýja tónlistarhöll og nýjar byggingar fyrir aldraða, að jafna launamun, sem getur ekki skipt ríkiskassann nokkru máli. Í staðinn fær þjóðfélagið öryggi fyrir aldraða sem þeir eiga skilið.

Eitt er ljóst. Við erum ekki hætt. Aðgerðir okkar munu halda áfram þar til ráðamenn fá skilning á því að þeir bera ábyrgðina.

Höfundar er starfsmenn við umönnun á Hrafnistu í Reykjavík.