Bangkok. AFP, AP. | Þingkosningar fóru fram í Taílandi í gær og fyrstu kjörtölur bentu til þess að kjósendurnir væru klofnir í afstöðunni til Thaksins Shinawatra forsætisráðherra sem hefur átt mjög undir högg að sækja.

Bangkok. AFP, AP. | Þingkosningar fóru fram í Taílandi í gær og fyrstu kjörtölur bentu til þess að kjósendurnir væru klofnir í afstöðunni til Thaksins Shinawatra forsætisráðherra sem hefur átt mjög undir högg að sækja.

Kjörtölurnar bentu til þess að flokkur Thaksins hefði sótt í sig veðrið í norðurhéruðunum þar sem stuðningurinn við hann hefur verið mestur.

Í suðurhéruðunum og Bangkok, þar sem óánægjan með Thaksin er mest, voru hins vegar þeir sem skiluðu auðu í kosningunum fleiri en kjósendur stjórnarflokksins í mörgum kjördæmum. Í nokkrum þeirra var munurinn mikill.

Sniðgengu kosningarnar

Þrír helstu stjórnarandstöðuflokkar landsins sniðgengu kosningarnar og hvöttu kjósendur til að skila auðu eða merkja við sérstakan reit á kjörseðlinum til að sýna að þeir sætu hjá.

Thaksin hafði lofað að segja af sér fengi flokkur hans minna en helming greiddra atkvæða. Talið var mjög ólíklegt að flokkurinn fengi svo lítið fylgi, vegna mikils stuðnings við hann í norðurhéruðunum.

Stjórnarandstaðan vonar hins vegar að sú ákvörðun hennar að sniðganga kosningarnar verði til þess að ekki verði hægt að úthluta öllum þingsætunum. Það gæti síðan orðið til þess að ekki yrði hægt að kalla nýtt þing saman og mynda nýja stjórn.

Flokkur Thaksins býður fram án mótframboðs í 278 af 400 kjördæmum. Samkvæmt kosningalögunum þurfa frambjóðendur flokksins að fá minnst 20% atkvæðanna til að ná kjöri og mjög ólíklegt þykir að flokkurinn fái svo mikið fylgi þar sem stuðningurinn við hann er minnstur. Líklegt er því að efna þurfi til tímafrekra aukakosninga áður en þingið velur forsætisráðherra.