Ronaldinho og David Beckham skiptast á treyjum eftir leikinn.
Ronaldinho og David Beckham skiptast á treyjum eftir leikinn. — Reuters
BARCELONA færðist skrefi nær Spánarmeistaratitlinum annað árið í röð en Barcelona og Real Madrid gerðu stórmeistarajafntefli, 1:1, á Nývangi þar sem Brasilíumennirnir í liðunum komu mikið við sögu.

BARCELONA færðist skrefi nær Spánarmeistaratitlinum annað árið í röð en Barcelona og Real Madrid gerðu stórmeistarajafntefli, 1:1, á Nývangi þar sem Brasilíumennirnir í liðunum komu mikið við sögu.

Brasilíski snillingurinn Ronaldinho kom Börsungum yfir með marki úr vítaspyrnu á 22. mínútu. Vítið fengu Börsungar á silfurfati en Hollendingurinn Mark van Bommel lét sig falla eftir viðskipti við Roberto Carlos sem fékk að líta gula spjaldið. Þremur mínútum síðar var Carlos vikið af velli fyrir að mótmæla dómi. Enn einn Brassinn, Ronaldo, jafnaði svo metin fyrir Madridarliðið á 37. mínútu þegar hann vippaði laglega yfir Valdes markvörð Barcelona og þar við sat.

,,Áður en Carlos var sendur af velli var leikurinn mjög opinn en eðlilega þurfti Real Madrid að draga sitt lið aftar á völlinn við brottreksturinn. Okkur tókst illa að skapa færi þó svo að við værum fleiri. Við vorum ekki ánægðir með jafnteflið en engu að síður teljast úrslitin góð fyrir okkur," sagði Frank Rikjaard, þjálfari Barcelona eftir leikinn en hans menn hafa 11 stiga forskot á Real Madrid þegar sjö umferðir eru eftir.