[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lagnafréttir
eftir Sigurð Grétar Guðmundsson
pípulagningameistara/
siggi@isnet.is

Það var stór dagur hjá fyrirtækinu, klippt á borða, ræður haldnar og skálað í freyðivíni. Til þess var ærin ástæða; það var verið að flytja í nýtt og glæsilegt húsnæði sem var byggt sérstaklega fyrir hin sérhæfðu verkefni fyrirtækisins. Starfsmenn, með ára og áratuga starfsreynslu að baki, voru spurðir ráða. Fengu sérhæfð blöð til að rissa á og skrifa, öllum hugmyndum tekið opnum örmum að sjálfsögðu.

Svo var flutt inn í nýju húsakynnin. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja, birtan flæddi og allt svo vistlegt. Að vísu dró það nokkuð úr gleðinni að allar góðu hugmyndirnar frá ára- og áratugareynslu starfsfólksins höfðu einhvers staðar glatast, að minnsta kosti skilaði sér ekkert í þær vinnslulínur sem við blöstu.

En það þýðir ekki að sýta það, það var hlýtt og bjart og allir samtaka um að gleðjast yfir nýjum vinnustað þrátt fyrir það sem úrskeiðis hafði farið. Þannig er það víst æði oft þegar nýr vinnustaður er hannaður, það er arkitekt úti í bæ sem hannar allt í samvinnu við toppana, hvorugur hefur hina minnstu hugmynd um öll smáatriðin sem skipta máli, en á teikniborðinu lítur þetta glæsilega út.

Og svo hófst vinnan á nýjum stað, allir samtaka um að láta nú ekki "smámuni" eyðileggja vinnumóralinn, gera gott úr öllu, um að gera.

Hins vegar var ekki hægt að loka augunum fyrir öllu. Skortur á niðurföllum í gólfi var vissulega bagalegur en því varð að bjarga á einhvern hátt. Einhver hafði á orði að það væru undarlegt að í jafn blautlegu vinnuferli skyldu gólfniðurföll gleymast en auðvitað var það alrangt eins og átti eftir að koma í ljós, þau höfðu alls ekki gleymst.

Þegar árisulasti starfsmaðurinn kom til vinnu einn morguninn var megn óþefur í vinnusalnum. Hann hnusaði og hnusaði "það hefur einhver gleymt að skola niður úr klósettinu í gær, ég þekki lyktina". En svo var alls ekki, öll klósett hrein og fín svo allir voru þar með sýknaðir af þeim gerningi. En skólplykt var það og hana fundu allir, hún ágerðist frekar en hitt. Hófst þá allsherjarleit og viti menn; fundust þá ekki gólfniðurföllin sem svo sárt var saknað í vinnusalnum. Þau höfðu sko aldeilis ekki gleymst, eitt fannst undir skrifborði í skrifstofu lagerstjórans, annað fannst á lagernum.

En hvers vegna þá þessi óhræsis skólpfýla? Vegna vatnsskorts hafði vatnið í gólflásunum þornað upp á þessum fyrstu dögum og þá átti skólpfýlan greiða leið upp úr þeim og fyllti allt það rými sem hún náði til. Hinsvegar hafa verið á markaði í þó nokkur ár gólflásar sem loka sér ef vatnið í þeim þornar upp, afar einfaldur búnaður. Þetta virðist samt ekki hafa náð til allra og því var þessi ótætis skólplykt í hverjum krók og kima þennan morgun þegar glaðbeittir starfsmenn komu til vinnu. Hinsvegar benti einn háðskur starfsmaður á að ef ekki hefðu verið notaðir þessir úreltu gólflásar þá hefðu hönnuðir og iðnaðarmenn legið undir því ámæli áfram að hafa gleymt gólflásum með öllu sem alls ekki var rétt, þeir voru bara ekki á réttum stöðum. Ef notaðir hefðu verið nútíma sjálflokandi gólflásar hefði þeir kannski ekki fundist fyrr en eftir ár eða áratugi eða aldrei.

En það var sól í heiði fyrstu dagana á nýja vinnustaðnum, bæði á himni og í sinni.

En svo fór að rigna og þá versnaði í því.

Ekki að þessi nýju glæsilegu húsnæði lækju, af og frá, hvergi sást dropi detta. En þeir heyrðust svo sannarlega detta og það var ekkert smávegis skvamp. Menn sperrtu eyrun til að finna hvaðan þetta mjög svo hvimleiða óreglulega rennslishljóð kæmi og öllum til undrunar kom það frá einni af hinum veglegu stálsúlum sem héldu þakinu uppi. Nú héldu flestir að eitthvað mikið væri að, eitthvað hefði farið úrskeiðis eða hvernig hafði vatn komist inn í burðarvirki hússins, mundi húsið standa áfram gæti það hrunið. Það greip um sig móðursýki og til voru kallaðir sérfræðingar.

Þeir hinir sérfróðu fóru yfir teikningarnar og þá kom orsökin berlega í ljós. Rör hafa aldrei þótt stofuprýði hérlendis og til að hlífa hinu ágæta starfsfólki við að þurfa að horfa á þakniðurfallið var það þrætt í eina af hinum stóru köntuðu stálsúlum sem héldu þakinu uppi.

En einhvern veginn hafði engum dottið í huga að nota þar svokallað þungt lagnaefni og einangra það síðan, þakniðurfallið hafði verið lagt úr þunnum plaströrum. Frá þeim heyrðist skvampið í regnvatninu vítt um sali og magnaðist upp í hinni stæðilegu stálsúlu.

Nú kann einhver að segja sem svo að það sé óþarfi að fara að færa þessa pistla í skáldsöguform, svona handvömm geti ekki átt sér stað í nútímanum. En því miður, þetta er engin skáldsaga; þetta eru blákaldar staðreyndir í nýju og glæsilegu húsi, ótrúlegt en satt.

Fletta í greinum frá þessum degi