Frank Fickenstein er hér með yfirlitskortið góða þar sem hann hefur safnað saman upplýsingum um rannsóknarverkefni fjölmargra aðila í flugi.
Frank Fickenstein er hér með yfirlitskortið góða þar sem hann hefur safnað saman upplýsingum um rannsóknarverkefni fjölmargra aðila í flugi. — Morgunblaðið/jt
Að minnsta kosti 20 aðilar og stofnanir víðs vegar um heiminn hafa ýmis verkefni og rannsóknir á sviði flugöryggismála á sinni könnu.

Að minnsta kosti 20 aðilar og stofnanir víðs vegar um heiminn hafa ýmis verkefni og rannsóknir á sviði flugöryggismála á sinni könnu. Má þar nefna yfirvöld flugmála í allmörgum löndum, flugvélaverksmiðjur, flugfélög, Geimferðastofnun Bandaríkjamanna, Alþjóða flugmálastofnunina, stéttarfélög í flugi og ýmis flugöryggissamtök, bæði alþjóðleg og önnur sem ná yfir tiltekna heimshluta. Frank Fickenstein, ráðgjafi hjá FSF til margra ára, hefur tekið saman yfirlit um þessa aðila og verkefni þeirra.

Verkefnin ná til allra þátta í flugi og raunar til starfsemi á jörðu niðri líka. Þau snerta til dæmis aðferðir og skipulag við þjálfun flugáhafna og tæknimanna en á því sviði eru ein fimm verkefni í gangi, hvernig aflað er upplýsinga um veður og fylgst með því meðan á flugi stendur og er unnið að sex verkefnum á því sviði, nokkur verkefni snúast um ísingu og fjölmörg verkefni snerta viðhald á flugvélum og reglur um slíka vinnu.

Frank Fickenstein sagði í samtali við Morgunblaðið að þar sem flugöryggismál kæmu öllum við væri ekki óeðlilegt þó að unnið væri að sömu eða svipuðum verkefnum á nokkrum stöðum. Þau gætu skarast að einhverju leyti en einnig mætti búast við að þau bættu hvert annað upp. Þess vegna hóf hann árið 2002 að safna saman upplýsingum um helstu verkefni sem hafa víðtæka skírskotun í flugi, þ.e. sem margir aðilar gætu haft gagn af að vita um og vildu jafnvel leggja eitthvað til málanna. Með þessu mætti kannski líka búast við að aðilar gætu sameinast um ákveðin verkefni eða rannsóknir Á korti sem hann sýndi á ráðstefnu um flugöryggismál hafði hann dregið upp skema þar sem fram kemur hvaða aðilar sinna þessum málum og að hvaða verkefnum er unnið. Á yfirlitinu tengir hann síðan saman einstaka aðila sem vinna að svipuðum verkefnum og þannig má sjá strax hversu margir og hvaða aðilar eru t.d. að rannsaka ísingu í flugi, hverjir sinna þjálfunarmálum og líka er í sjónhendingu unnt að fá yfirlit um að hvaða verkefnum hin og þessi stofnun starfar að um þessar mundir.

Sífelld endurskoðun

Kortið er mjög umfangsmikið, nærri fjögurra metra langt og um það bil einn metri á hæð og er því skipt í 20 dálka, einn fyrir hvern aðila sem sinnir verkefnum. Ríflega 200 vinnustundir fóru í að taka saman upplýsingarnar og síðan tók það einn mann hálfa aðra vinnuviku og stilla upp framsetningunni á töflunni. Frank Fickenstein sagði í samtali við blaðamann að kort sem þetta hefði verið mun umfangsminna ef hann hefði tekið það saman fyrir 10- til 15 árum eða svo. Mjög mikið hefði gerst í hvers kyns rannsóknum og samvinnu ýmissa aðila á sviði flugöryggismála og því yrði kort sem þetta í raun að vera í sífelldri endurskoðun. Benti hann einnig á að með því að lesa það í gegn mætti líka sjá hvort ekki væri eitthvert svið sem væri ennþá ekki komið á dagskrá.