READING tryggði sér meistaratitilinn í ensku 1. deildinni með glæsibrag þegar liðið burstaði Derby, 5:0, á laugardaginn.

READING tryggði sér meistaratitilinn í ensku 1. deildinni með glæsibrag þegar liðið burstaði Derby, 5:0, á laugardaginn. Gríðarlegur fögnuður braust út á Madejski Stadium, heimavelli Reading, í leikslok en um síðustu helgi innsiglaði Reading sæti í efstu deild - í fyrsta sinn í 135 ára sögu félagsins.

Ívar Ingimarsson lék að vanda á sínum stað í vörn Reading en Brynjar Björn sem hefur átt við meiðsli að stríða sat á bekknum allan tímann.

Þegar fimm umferðum er ólokið í 1. deildinni er Reading 16 stigum á undan næsta liði, Sheffield United, og gæti hæglega náð bæði 100 stigum og skorað 100 mörk í deildinni en stigin eru orðin 95 og mörkin 87.