Samkvæmt könnun í flugi í Bandaríkjunum og Kanada árin 1998 og 1999 var ein óvænt lending á dag vegna þess að reykur eða eldur kom upp í flugvélum. Reykur eða eldur í flugvél er eitt erfiðasta vandamál sem flugáhöfn getur þurft að kljást við, sagði H.G.

Samkvæmt könnun í flugi í Bandaríkjunum og Kanada árin 1998 og 1999 var ein óvænt lending á dag vegna þess að reykur eða eldur kom upp í flugvélum. Reykur eða eldur í flugvél er eitt erfiðasta vandamál sem flugáhöfn getur þurft að kljást við, sagði H.G. Bombardi, flugstjóri hjá Alþjóðasamtökum atvinnuflugmanna, í erindi á ráðstefnu um flugöryggi sem haldin var fyrir nokkru í Moskvu en hann hefur m.a. leitt starfshóp sem kannar möguleg viðbrögð við slíkum vanda í flugi.

Bombardi segir flugmenn þjálfaða til að takast á við margs konar vanda og uppákomur í flugi. Þegar eitthvað fer úrskeiðis eiga hin ýmsu kerfi flugvéla að geta gefið til kynna hvað sé að gerast. Snör viðbrögð flugmanna við að greina vandann og bregðast við honum, geta ráðið úrslitum um það hvort flugvél kemst ósködduð leiðar sinnar. Flugmálayfirvöld í Kanada töldu alls 15 tilvik þar sem eldur kom upp í flugvélum á árabilinu 1967 til 1998 og liðu að meðaltali 17 mínútur frá því elds varð vart og þar til tekist hafði að lenda vél heilu og höldnu, hún nauðlent eða farist.

Erfitt að greina upptök

Bombardi segir að reykur eða eldur sem kemur upp í flugvél af ókunnum orsökum sé erfitt viðureignar. Mikið og ört loftstreymi um flugvélaskrokk þýði að erfitt geti verið að grafast fyrir um upptökin og alls ekki sé hægt að komast í öll rými og hólf vélarinnar frá farþegarýminu eða stjórnklefanum. Þess vegna sé þýðingarmikið að hvers konar nemar og skynjarar geti veitt upplýsingar um hvað þar geti hugsanlega verið að gerast. Þá segir hann að ákvörðun um að snúa til næsta flugvallar og lenda tefjist iðulega meðan flugmenn leiti orsaka reyks og þá tapist dýrmætar mínútur.

Þá lýsti Bombardi nokkuð starfi vinnuhópsins og meðal niðurstaðna hans er að eina örugga leiðin til að bregðast við reyk sem ekki er vitað hvaðan er sé að reikna með hinu versta og lenda vélinni. Vinnuhópurinn vill að flugmenn ákveði mjög fljótt eftir að reykur uppgötvast hvar unnt sé að lenda sé ekki unnt að leysa vandann um borð strax. Þetta gæti þýtt að flugmenn verði að ákveða að lenda á hentugum flugvelli, á næsta flugvelli eða nánast hvar sem er - eða nauðlenda vélinni.