Með mjúkri röddu og gítar í hendi heillaði Katie Melua áhorfendur Laugardalshallar sl. föstudagskvöld.
Með mjúkri röddu og gítar í hendi heillaði Katie Melua áhorfendur Laugardalshallar sl. föstudagskvöld. — Morgunblaðið/ÞÖK
Föstudagskvöldið 31. mars 2005. Ragnheiður Gröndal hitaði upp.

Þeir voru gjörólíkir áhorfendahóparnir sem fylgdust annars vegar með úrslitum Músíktilrauna í Tónabæ og hins vegar tónleikum ungstirnisins Katie Melua í Laugardalshöll á föstudagskvöldið. Því á meðan æska landsins fylgist spennt með tónlistargerjun íslensku grasrótarinnar, var jeppastóði landsins þéttraðað í kringum höllina og inni fyrir sat prúðbúið fólk á þrítugsaldri og yfir og hlýddi á Kötu - flestir búnir að tryggja sér miðana með góðum fyrirvara, a.m.k. ef horft er til þess hve snemma var orðið uppselt.

Og Katie Melua náði vel til áhorfenda Laugardalshallar þetta kvöld. Hún spjallaði við salinn á látlausan og einlægan hátt, kynnti lagaval sitt með sögum af sér og tónlistinni, náði áhorfendum með sér í samsöng og renndi fumlaust í gegnum lagalistann með þéttri hljómsveit sem var augljóslega vel æfð og með á nótunum.

Hið djassaða Shy Boy gaf tóninn fyrir látlausa tónleika sem fylgt var eftir við góðar undirtektir með smellinum 9 Million Bicycles. Í kjölfarið kom blúslag þeirra Arlene og Mercer, Blues in the Night og svo hvert lagið á fætur öðru - blús, djass, rokk og ballöður ofnar saman í úthugsaðan lagalista, sem gaf skýrt til kynna að Melua vill ekki láta njörva sig niður tónlistarlega, þó aðdáendur hennar væru e.t.v. margir hverjir vel sáttir yrðu hugljúfar ballöður það eina sem stúlkan sendi frá sér. Ballöður henta líka mjúkri og allt að því flauelskenndri rödd Melua einkar vel, hún naut sín t.d. vel í hinu gullfallega Piece by Piece, sem og djassskotnum lögum á borð við Halfway up the Hindu Kush, verulega skemmtilegri útgáfu tíunda áratugar smells Babylon Zoo - Spaceman - sem og John Mayall blúslaginu Crawling up a Hill og rokkuðu tilbrigði við þá klassísku vögguvísu Mockingbird.

Bítlalagið Lucy in the Sky with Diamonds var líka skemmtilegt áheyrnar, þó viðlagið virkaði ekki alveg og Stones slagarinn 19th Nervous Breakdown var kolrangt lag fyrir Melua, sem upp til hópa tókst annars - svo Idol frasinn sé notaður - vel upp með að gera "cover"-lögin að sínum.

Að byggja lagalista hins vegar næstum til helminga á þekktum lögum annarra listamanna er hins vegar nokkuð sem ég set stórt spurningarmerki við. Jafnvel þó þau lög séu valin úr fjölbreytilegri tónlistarflóru og sýni vel hversu breitt tónlistarsvið söngkonan vill ná yfir.

Slíkt lagaval má e.t.v. skrifast á ungan aldur Melua, hún er jú ekki nema 21 árs gömul, eða "formúluútreikninga" markaðsaflanna. Því lítill vafi leikur á að Melua er hæfileikarík söngkona sem vill láta meta sig á veigameiri forsendum en sem snoppufrítt andlit með laglega rödd. Það sýnir sviðsframkoma hennar og textagerð - þó hún sé á köflum barnaleg - sem og val "cover"-laga. Og sé það háa hlutfall sem "cover" lögin áttu á lagalistanum afskrifað sem barnabrek má teljast nokkuð öruggt að setu Katie Melua á vestrænum vinsældalistum er langt í frá lokið.

Anna Sigríður Einarsdóttir