Verslunarhús Örum & Wulff á Vopnafirði eru frá því um miðja 19. öld og hafa verið í eigu Kaupfélagsins í tæpa öld.
Verslunarhús Örum & Wulff á Vopnafirði eru frá því um miðja 19. öld og hafa verið í eigu Kaupfélagsins í tæpa öld. — Morgunblaðið/Kristinn Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristin Benediktsson Eyvindur vopni nam Vopnafjörð sem liggur frá norðaustri til suðvesturs milli Digraness og Kollumúla, sunnan Bakkaflóa og norðan Héraðsflóa. Fjörðurinn er næst nyrsti fjörður á Austurlandi.
Eftir Kristin Benediktsson

Eyvindur vopni nam Vopnafjörð sem liggur frá norðaustri til suðvesturs milli Digraness og Kollumúla, sunnan Bakkaflóa og norðan Héraðsflóa. Fjörðurinn er næst nyrsti fjörður á Austurlandi. Héraðið er samnefnt firðinum og liggur byggðin inn frá fjarðarbotninum og út með firðinum beggja vegna. Kolbeinstangi heitir tangi mikill sem gengur fram í fjörðinn miðsvæðis í byggðarlaginu og byrjaði Vopnfjarðarkauptún að myndast þar á 19. öld, en Vopnafjörður er einn af elstu verslunarstöðum á landinu. Þangað sigldu erlendir kaupmenn fyrr á öldum, mest þýskir, þar til 1602, þegar Danakonungur veitti þegnum sínum einkaleyfi til allrar verslunar á Íslandi. Þaðan í frá versluðu ýmsir danskir kaupmenn á Vopnafirði við misjafnan orðstír og vinsældir allt til ársins 1814, þegar danska verslunarfélagið Örum & Wulff náði hér fótfestu. Það rak síðan verslun á Vopnafirði í samfellt rúma öld.

Árið 1918 var svo stofnað Kaupfélag Vopnfirðinga, og hefur það síðan verið aðalverslunin á Vopnafirði. Kaupfélagið keypti verslunarhúsin af Örum & Wulff. Tvö þeirra standa enn, og eru þau hús frá því um miðja 19. öld. Þess má geta, að í öðru þeirra lést Kristján Jónsson, Fjallaskáld, og er hann grafinn í Hofskirkjugarði. Kristján mun þá hafa verið heimiliskennari hjá kaupmanni nokkrum á Vopnafirði.

Vopnafjörður skiptist í þrjá grösuga dali sem umgirtir eru fjöllum og háum heiðum. Þeirra svipfegurst er Burstarfellið. Það er sérstætt að gerð með reglulegum, standbröttum klettabeltum frá brún og nokkuð niður eftir, en skriðum neðst.

Bærinn Burstarfell stendur undir fjallinu og er gamli bærinn talinn að stofni til frá 1770 en sama ættin hefur búið á jörðinni frá miðri 16. öld. Búið var í bænum til 1966 og er hann nú í vörslu Þjóðminjasafnsins með húsgögnum og öðrum gripum úr bænum sjálfum eða úr nágrenninu. Hann er opinn gestum til skoðunar á sumrin.

Á Burstafelli sátu oft sýslumenn sem þóttu ærið héraðsríkir. Um einn þeirra kvað Páll Vídalín lögmaður eftir deilur á Alþingi:

Kúgaðu fé af kotungi

svo kveini undan þér almúgi.

Þú hefnir þess í héraði

sem hallaðist á alþingi.

Sýslumannskona ein gekk í draumi í álfastein nálægt bænum og hjálpaði huldukonu í barnsnauð en þá að launum fagran dúk sem síðar var notaður fyrir altarisklæði. Ingólfur Gíslason læknir orti um fjallið:

Burstafellið ber við ský,

bratt og hátt að framan.

Tröll og álfar eiga í því

ótal bröstur saman.

Kirkjujörðin Hof stendur skammt frá utar í dalnum, Hofsárdal, en fyrsti bóndi þar hét Steinbjörn körtur Refsson hins rauða. Hann kom út síð landnámstíðar og fékk gefins land milli Hofsár og Veturdalsár. Gefandinn var föðurbróðir hans Eyvindur vopni. Steinbjörn var eyðsluseggur og komst í skuldir við Þorstein hvíta, og þá fór Þorsteinn að eins og bankar áttu til síðar, tók jörðina upp í skuld og komst þannig að Hofslöndum. Frá Hofverjum og Krossvíkingum segir í Vopnafjarðarsögum, og þeim ferli vináttu, vensla og víga, sem lá á milli bæja, en lauk svo, að sæst var, og goðorðin tvö, Hofs og Krossvíkur, sameinuð.

Kirkja hefur verið á Hofi allt frá kristnitöku. Einnig var kirkja á Refstað um aldir. Árið 1903 var kirkja byggð í Vopnafjarðarkauptúni, og var þá héraðinu skipt í tvær sóknir; Hofsókn, sem náði yfir innri hluta sveitarinnar, og Vopnafjarðarsókn, sem náði yfir kauptúnið og ytri hluta sveitarinnar.

Brattar heiðar eru á flestar hliðar nema yfir til Bakkafjarðar. Smjörvatnsheiði var nokkuð fjölfarin leið milli Vopnafjarðar og Fljótdalshéraðs. Venjulega var farið upp frá Hnappsstöðum og komið í Fossvelli eða í Hofteig, ef leiðin lá upp á Jökuldal. Hún er hár og erfiður fjallvegur, ákaflega grýttur og um 35 km á milli bæja. Á miðheiði er varða, sem Beinakerling nefnist. Í henni var oft að finna ritaðar heimildir frá ferðamönnum, svo sem stökur o.fl. Eitt sinn fannst þar eftirfarandi vísa, sem kennd var Árna Jónssyni frá Múla en hann var verslunarstjóri Framtíðarinnar 1917-1924, verslunar í Tangaþorpi, eins og það var stundum kallað fyrr á árum:

En sá heiðarandskoti,

ekki strá né kvikindi,

en hundrað milljón helvíti

af hnullungum og stórgrýti.