Rokkstjarnan J.D. Fortune hefur staðið sig vel með INXS.
Rokkstjarnan J.D. Fortune hefur staðið sig vel með INXS. — Reuters
LJÓSVAKI var einn fjölmargra sem skemmtu sér á hverjum sunnudegi á meðan ástralska hljómsveitin INXS hafnaði hverjum söngvaranum á fætur öðrum, þar til niðurstaðan var hrokafullur Kanadamaður að nafni J.D. Fortune.

LJÓSVAKI var einn fjölmargra sem skemmtu sér á hverjum sunnudegi á meðan ástralska hljómsveitin INXS hafnaði hverjum söngvaranum á fætur öðrum, þar til niðurstaðan var hrokafullur Kanadamaður að nafni J.D. Fortune. Þátturinn var að sjálfsögðu Rock Star: INXS og vart þarf að taka fram að sunnudagskvöld hafa ekki verið söm eftir að hann rann sitt skeið á enda - vonarglætan aðeins bið eftir næstu hljómsveit til að sitja í sófanum með Dave Navarro. Óhætt er því að segja að Ljósvaki hafi tekið gleði sína á ný, og vel það, þegar Skjár Einn tilkynnti ekki aðeins að það væri ofursveitin Supernova sem fær að velja sér söngvara heldur einnig að Íslendingar gætu verið í hópi þeirra sem fá að spreyta sig fyrir framan næsta útbrunna rokkara með dollaramerki á vísum stað.

Á miðvikudaginn nk. gefst íslenskum vonar(rokk)stjörnum tækifæri til að láta ljós sitt skína frammi fyrir fulltrúum Mark Burnett, sem er sá sami og fært hefur okkur tólf góðar seríur af Survivor, á Gauki á stöng og hver veit nema það sé flugmiði til að launum fyrir þann sem heillar dómnefndina. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega, aðeins vera 21 árs og mæta klukkan níu um morguninn, sem er auðvitað alltof snemmt fyrir alvöru íslenska rokkara, með þrjú lög í farteskinu - allavega eitt tökulag.

Hvet ég íslenska söngvara eindregið til að mæta og spreyta sig, því hver veit nema það bjóðist að syngja fyrir, og fara á tónleikaferðalag með, Tommy Lee, Jason Newstead og Gilby Clarke, og um leið að halda mér límdum við sjónvarpstækið á sunnudagskvöldum.

Andri Karl