Ný rannsókn bendir til þess að langvarandi notkun á maríjúana leiði til heilaskemmda, þ.e. neytendurnir eigi erfiðara með að læra eitthvað nýtt og muna nýjar upplýsingar. Þetta kemur fram á vefnum forskning.no.

Ný rannsókn bendir til þess að langvarandi notkun á maríjúana leiði til heilaskemmda, þ.e. neytendurnir eigi erfiðara með að læra eitthvað nýtt og muna nýjar upplýsingar. Þetta kemur fram á vefnum forskning.no.

Rannsóknin var gerð við háskólasjúkrahúsið í Patras í Grikklandi og voru bornir saman hópar stórreykingamanna maríjúana og fólks sem ekki hafði reykt maríjúana reglulega heldur af og til. Í ljós kom að því lengur sem fólk hafði notað efnið, því meiri voru neikvæð áhrif á hugsanagetu. Þátttakendur í rannsókninni voru á aldrinum 17-49 ára. Í fyrsta hópnum voru tuttugu manns sem höfðu reykt a.m.k. fjórar jónur á viku í tíu ár eða meira. Í öðrum hópnum voru tuttugu manns sem höfðu reykt jafnmikið á viku en ekki lengur en tíu ár. Í þriðja hópnum voru 24 sem höfðu prófað maríjúana en ekki reykt meira en 20 jónur alls. Enginn þátttakenda hafði notað önnur fíkniefni síðastliðin tvö ár eða í meira en þrjá mánuði nokkurn tíma á lífsleiðinni. Enginn hafði heldur reykt maríjúana 24 klukkustundir áður en rannsóknin fór fram.

Þátttakendurnir gengust undir ýmis próf til að athuga minni og hugsun. Í ljós kom að geta fyrrnefndu hópanna tveggja var minni en þeirra sem reyktu ekki maríjúana reglulega. Verst stóðu langtímanotendurnir sig. Í einu prófi áttu þeir að leggja lista með 15 orðum á minnið og gátu að meðaltali munað sjö orð. Þeir sem ekki reyktu mundu hins vegar að meðaltali tólf orð.