Knútur Kristján Gunnarsson fæddist í Neskaupstað 11. nóvember 1930. Hann lést í Lundi í Svíþjóð 17. júní 2005. Foreldrar hans voru hjónin Gunnar Sæmundsson klæðskeri, f. 5. júlí 1901, d. 10. okt. 1971, og Rósa Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 23. mars 1904, d. 13. febrúar 1983. Þau áttu lengst af heima í Reykjavík en Rósa bjó síðustu æviár sín á Akranesi.

Systkini Knúts eru Ragnar búsettur á Akranesi og Erna búsett í Kópavogi.

Knútur kvæntist 31. desember 1952 Kristínu Marinósdóttur, f. 7. maí 1934. Knútur og Kristín eignuðust níu börn. Þau eru: 1) Elsa, f. 1953, d. 1954, 2) Ragnar Már, f. 1955, 3) Gunnar Örn, f. 1956, 4) Elsa Björk, f. 1958, 5) Rósa, f. 1959, 6) Sigríður, f. 1960, 7) Kristín Ólöf, f. 1963, 8) Knútur Kristján, f. 1963, og 9) Marinó, f. 1966.

Útför Knúts verður gerð frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Fyrsta minning mín um Knút var í Neskaupstað þar sem foreldrar okkar höfðu heimili og ráku saumastofu í húsi Jóns Sveinssonar útgerðarmanns sem hét í Bár.

Það var haust og var ég dúðaður og látinn út, ég vappaði í kringum húsið og baka til voru hænur sem ég hafði afskaplega gaman af að horfa á og svo kom hann í barnavagni og var látinn sofa sunnan við húsið og ég átti að fylgjast með honum og gera viðvart þegar hann vaknaði, þá komu þær hlaupandi út mamma eða Rúna frænka. 1932 yfirgáfum við þennan indæla stað Neskaupstað í Norðfirði, til Reykjavíkur var ferðinni heitið og bjuggum við á Laugavegi 83 og þar man ég eftir uppistandi þegar Knútur, tveggja ára, hvarf út í buskann, seinna um daginn fannst hann niðri á Lækjartorgi þar sem sendisveinn hjá Silla og Valda þekkti drenginn og lét vita. 1933 seinnipart sumars flytjum við í Stykkishólm þar sem faðir okkar rak saumastofu Kaupfélagsins í Stykkishólmi. Í Stykkishólmi áttum við margar góðar stundir í stórum hóp skyldmenna og vina. Í afmælunum hjá Braga vini okkar var mikið sungið og séra Sigurður Ó. Lárusson kenndi okkur að syngja raddað og frú Ingigerður, hún hafði svo gaman af því að fá Knút til að syngja einan, hann hafði mjög skæra sópranrödd sem hún hafði mikið dálæti á og ég og Bragi urðum mjög afbrýðisamir því Ingigerður sagði orðrétt "hann er svo lítill og sætur og verið þið góðir við hann". En þegar við Bragi hermdum eftir Ingigerði þá varð Knútur svo fjúkandi vondur að við Bragi urðum að taka til fótanna og forða okkur.

Í Valgrímshúsi þar sem við áttum heima var lítið hesthús og sunnan við hesthúsið voru tveir hænsnakofar með stuttu millibili, í kofanum sem var nær var nýr hænsnastofn, svokallaðir hvítir ítalir, og var það okkar hlutverk að gæta þeirra, haninn okkar var rígmontinn, háfættur og reigði sig allan til og frá en í kofanum sem var fjær voru Möngubæjar-hænsnin og voru þær af öðru kyni og haninn þar var afar skrautlegur og þéttvaxinn og með allt öðruvísi kamb. Fyrsta embættisverk okkar Knúts var að fylgjast með hönunum og þegar þeir lentu í slagsmálum þá reyndum við að skvetta á þá vatni til að stöðva slagsmálin, annað embættisverk sem fylgdi þessum hænsnum var að fara vor og haust út í Landey að sækja skeljasand, við lærðum snemma á sjávarföllin því Landeyjarsundið var okkar aðal-leikvöllur, þar voru fjörupollar af öllum stærðum og á hverri fjöru fullir af sjávarlífi, seiðum, marflóm og allskonar kvikindum en í skeljasandsferðum var Sigvaldi Pétursson frá Ökrum alltaf með okkur. Í Landeyjarsundi byrjaði karl faðir okkar að veiða grásleppu og rauðmaga og vorum við stundum notaðir sem ræðarar í þessum sjóferðum og lögðum við netin úti við Skiphólma, þar lærðum við að skera okkur kræklingsklasa. Á hverju sumri var farið á Hraunflatir við Selvallavatn og veiddur silungur og þá fékk Knútur veiðibakteríuna sem fylgdi honum alla ævi. Þessum sælustundum lauk snögglega og fluttum við suður til Reykjavíkur. Vorið 1942 var búist við því að þýski herinn myndi ráðast á Reykjavík og voru því börn og allir sem ekki áttu brýnt erindi fluttir frá Reykjavík og fórum við því til Vopnafjarðar þar sem við dvöldum í góðu yfirlæti skyldmenna móður okkar. Um haustið þegar við komum að austan fluttum við í sumarbústað við Elliðaár og áttum við þar góðar stundir og veiddum við Knútur þar silung. Haustið eftir fluttum við að Sunnuhvoli við Háteigsveg og þaðan að Háteigsvegi 28 þar sem skyldmenni okkar að vestan voru nýbúin að byggja. Þegar Knútur hafði aldur til fór hann í iðnnám og lærði húsgagnabólstrun hjá Ásgrími P. Lúðvíkssyni sem reyndist honum bæði vinur og félagi, vann hann hjá Ásgrími þangað hann flutti á Akranes þar sem hann tók við rekstri Bólstrunar Guðrúnar. Á Akranesi fékk hann útrás fyrir dugnað sinn og áræði, stofnaði eigið fyrirtæki og rak húsgagnaverslun og bólstrun, byggði 2 hús, jafnframt því sem börnunum fjölgaði jafnt og stöðugt þar til þau urðu alls átta talsins. Kristín Marinósdóttir eiginkona hans stóð eins og bjarg við hlið hans í blíðu og stríðu. Á þessum árum byggði Knútur veiðihús við Vesturhópsvatn og þar dvöldu þau hjónin öll sumur við veiðiskap og þangað var gaman að koma.

Við Knútur vorum samrýndir frá fyrsta degi og til lokadægurs, þar bar aldrei neinn skugga á. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt slíkan bróður og vin og verið samvistum við í 75 ár. Það var mikil gæfa og fyrir það ber að þakka.

Ragnar Gunnarsson.