Örlygur Hálfdanarson bendir út í Hjallasker, en grandinn út í það fer á kaf í flóði.
Örlygur Hálfdanarson bendir út í Hjallasker, en grandinn út í það fer á kaf í flóði. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þúsundir Reykvíkinga fylgdust skelfingu lostnir með því, þegar skipverjar á Ingvari slitnuðu úr reiðanum og fórust einn af öðrum meðan skipið liðaðist í sundur á skerinu við Viðey. Þennan dag, 7.

Þúsundir Reykvíkinga fylgdust skelfingu lostnir með því, þegar skipverjar á Ingvari slitnuðu úr reiðanum og fórust einn af öðrum meðan skipið liðaðist í sundur á skerinu við Viðey. Þennan dag, 7. apríl 1906, gerði hamslaus veðurföll og fórust 68 menn á þremur þilskipum úr Reykjavík og tvo menn tók út af tveimur öðrum á Flóanum. Freysteinn Jóhannsson rifjar upp þennan svarta apríldag fyrir 100 árum.

Allan marzmánuð reru Reykvíkingar í einmuna stillum, en þegar apríl gekk í garð skipti um og gekk á með mögnuðu veðri. Aðfaranótt 7. apríl ríkti stórviðri úti fyrir og áttu mörg skip í erfiðleikum með að ná til hafnar nóttina og daginn eftir, en þá keyrði dimmur veðurofsinn um þverbak. Þrjú reykvísk þilskip náðu ekki höfn og hefur verið til þess tekið, að þau báru einkennisstafina RE 25, RE 50 og RE 100. Tvö þessara skipa fórust við Mýrar; brak úr Emilie fannst við Akra og úr Sophiu Wheatly hjá Knarrarnesi. Allir, 48, sem voru um borð, fórust.

Engir sjónarvottar voru að þessum slysum. Öðru máli gegndi um afdrif áhafnar þriðja skipsins, Ingvars, sem var í eigu Duusverzlunar. Það strandaði við Viðey. Veður bannaði alla aðstoð úr landi og fórust þarna 20 menn og skip fyrir augum Reykvíkinga. Árni Óla segir 40 árum eftir slysið, að enginn atburður hafi fengið meir á hugi sjónarvotta. "Enginn atburður hefur komið alveg eins við hjartað í Reykvíkingum. Þeir voru sem lamaðir eftir þetta og í mörg ár varð mönnum tíðrætt um "Ingvarsslysið". Jafnvel enn í dag stendur það sjónarvottum fyrir hugskotssjónum sem ægilegasti viðburður í lífi þeirra."

Hitt er aftur að þessi atburður öðru fremur hreyfði menn til hugsunar um aðgerðir til slysavarna, þar sem þeir fundu svo sárt til þess að hvorki björgunartæki né þjálfaður mannskapur voru til staðar. "Sá atburður sem vakti þjóðina umfram annað til umhugsunar um þessi mál ( sjóbjörgunarmál - innsk. ) var 7. apríl 1906 þegar þrjú skip fórust á Faxaflóa með samtals 68 mönnum. Þar á meðal var þilskipið Ingvar sem fórst á skeri við Viðey og fjöldi manns varð vitni að vonlausri baráttu 20 skipverja fyrir lífi sínu," segir Jón Gunnarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í grein í Morgunblaðinu fyrir rösklega tveimur árum. Í sjötta bindi bókaflokksins Þrautgóðir á raunastund segir Loftur Guðmundsson að slysin 7. apríl 1906 hafi átt stóran þátt í því að Jón E. Bergsveinsson, fyrsti erindreki Slysavarnafélags Íslands, beitti sér í björgunarmálum. Og í ræðu, sem Henry Hálfdanarson hélt við móttöku björgunarskipsins Gísla J. Johnsen 1956, sagði hann að í rétta hálfa öld hefði það verið eitt aðalkappsmál sjómanna og aðstandenda þeirra síðan hið hörmulega slys skeði við Viðey að eignast hentugan og góðan björgunarbát fyrir Reykjavík.

Höfnin var eitt rjúkandi löður yfir að líta

Árni Óla segir í Lesbókargrein sinni um Ingvarsslysið, að sézt hafi til skipsins suður í Garðasjó og "mundi hafa fengið áfall mikið, brotnað stórsiglugreypiráin og stórseglið farið fyrir borð". Árni leiðir getum að því, að einhverja skipverja hafi við þetta tekið út af skipinu, þar sem ekki sást til þeirra allra, þegar skipið hafði strandað við Viðey.

Steinar Lúðvíksson rekur síðustu siglingu Ingvars í bók sinni Þrautgóðir á raunastund og segir að laust fyrir hádegi hafi menn í Reykjavík séð skip á siglingu fyrir utan eyjar og átti það greinilega í erfiðleikum. Menn sáu skemmdir á seglabúnaðinum og var ljóst, að skipið náði ekki venjulegri siglingaleið inn á höfnina, heldur sigldi fyrir norðan Engey og áleiðis inn á Viðeyjarsund. Töldu menn skipstjórann ætla að ná lægi milli Viðeyjar og lands eða inni við Klepp, en á móts við Eiðið við Viðey hafi hann hætt við af ótta við að skipið myndi stranda og var þá eina úrræðið að draga niður segl og varpa akkeri. Svo var að sjá sem akkerið fengi festu, en veðurofsinn magnaðist enn og segir Steinar að brim hafi orðið meira en elztu menn mundu að hefði gert við Reykjavík. "Var höfnin eitt rjúkandi löður yfir að líta. Hvarf Ingvar oft í særokið, en þess á milli grilltu menn í skipið, og öllum til mikillar skelfingar sást að það hafði snúið sér og flatrak nú undan veðri í átt að skerjunum við Viðey."

Í Laugarnesi og Viðey sá fólk gjörla, þegar Ingvar strandaði laust fyrir klukkan hálfeitt. Hermann Jónasson, spítalaráðsmaður í Laugarnesi, hringdi í bæinn og sagði skipið strandað og menn komna í reiðann.

Hannes Hafstein ráðherra og Páll Einarsson bæjarfógeti voru meðal þeirra, sem komnir voru niður að höfn og skoruðu þeir á menn að freista þess að ná út í eitthvert gufuskipanna sex, sem lágu á Reykjavíkurhöfn, og biðja menn að fara á vettvang og reyna að bjarga áhöfn Ingvars.

Þoldi ekki að horfa á bjargþrota mennina

Þegar Ingvar siglir vestan Engeyjar er Geir Sigurðsson skipstjóri við annan mann vestur í slipp og gengur niður eftir til að vita, hvernig skipinu reiddi af. Geir segir, að þegar hann kom niður að sölubúð Geirs Zoëga, neðst á Vesturgötunni, sá hann að Ingvar lá beint upp í vindinn við Hjallasker, út af Viðeyjargranda. Geir segist strax hafa viljað hafa upp á róðraskipi og reyna að ná mönnunum, því í næsta vetfangi sá hann að skipið var komið upp á skerið, lá flatt fyrir vindi og sjó og braut yfir það. "Mennirnir voru farnir að tínast upp í reiðann. Þetta var átakanleg sjón."

Síðan rekur Geir, að þegar Hannes Hafstein hafði ávarpað mannfjöldann og skorað á menn að gefa sig fram til björgunarstarfa, sagði Thomsen kaupmaður sexmannafar sitt frjálst hverjum þeim, sem reyna vildi, og sjóföt eins og hver vildi í geymsluhúsi verzlunarinnar. "Ég rétti upp hendina og sagði: "Ég er tilbúinn, ef einhver vill koma með mér."" Enginn gaf sig fram. Geir tók þá við bréfi úr hendi ráðherra, þar sem hann tók ábyrgð á greiðslu úr Landssjóði fyrir það tjón sem kynni að verða á skipi og mönnum við tilraun til björgunar á áhöfn Ingvars. Fór Geir síðan niður í Thomsens-pakkhús, þar sem hann vissi af félögum og gömlum leikbræðrum, sem reyndust allir fúsir til fararinnar.

Fyrst gufuskipa varð Flóabáturinn Reykjavík fyrir þeim félögum. Skipstjórinn sagðist ekkert geta hjálpað og kvaðst góður ef keðjurnar héldu hans eigin skipi. Skipstjóri Seagull kvaðst ekki geta hreyft sig vegna vélarbilunar. Í Súlunni og enskum togara fóru félagarnir líka bónleiðir til búðar. Síðast fóru þeir að norsku fisktökuskipi; Gambetta, og þegar skipstjórinn hafði lesið bréf Hannesar Hafstein, lýsti hann sig reiðubúinn til að reyna björgun. Fór Geir um borð við annan mann. Þegar til átti að taka lét skipið ekki að stjórn og þegar skipstjóri taldi fullreynt, mælti hann.

"Þið sjáið nú Íslendingar að ég get ekki meira. Skipið lætur ekki að stjórn í þessum ofsa með fullri ferð og ég hefi ekki leyfi til að setja skip og menn í bersýnilega hættu, þótt ég feginn vildi hjálpa sjómönnum í neyð."

"Þá fór ég undir þiljur, - ég þoldi ekki að horfa á mennina, sem stóðu bjargþrota í reiðanum á "Ingvari". Ég sá 10 eða 11 menn í reiðanum, og var þetta átakanlegra en orð fá lýst. Svo tíndist hver af öðrum úr reiðanum, en skipið liðaðist í sundur á skerinu." Þetta stríð stóð í þrjár klukkustundir.

Í Viðey fylgdist fólk með siglingu Ingvars og strax eftir strandið fór það á strandstaðinn. Ingvar sat fastur á skeri um 150 faðma frá landi og mun akkerisfesti skipsins hafa tjóðrað það við skerið svo því skolaði ekki yfir það. Árni Óla segir, að menn hafi leitt getum að því, að losnaði skipið af skerinu og hrektist upp í Viðey hefði ekki verið vonlaust um að einhverjir skipverja hefðu bjargazt. Árni Óla átti tal við Eggert Briem Viðeyjarbónda og segir hann, að menn hafi dregið bát eftir ströndinni langa leið að strandstað, en svo var brimrótið rosalegt að ekki varð bátnum beitt til björgunarstarfa. Fóru menn þá niður í fjöru með kaðla, brekán og heitt kaffi og annað sem þeir töldu geta komið að notum, ef einhverjum skipverjum skolaði lifandi á land. "Þeir sáu glögt þegar mennirnir slitnuðu úr reiðanum. Brimið bar þá upp að eynni. Þeir Viðeyjarmenn óðu út í á móti þeim, og björguðu þeim á land. En engum skilaði hin ólgandi hrönn lifandi. Ellefu líkum björguðu undan sjó þá um daginn. Voru þau fyrstu borin inn í helli, sem þar er. Þar voru þau þvegin og veittar nábjargir, og síðan borin heim í kirkju."

Viðeyjarbóndinn varð hamslaus í vanmættinum

Það hefur verið stór angist að horfa upp á mennina farast og mega sig hvergi hræra til liðs við þá. Árni Óla hefur eftir Jónasi Magnússyni, síðar bónda í Stardal, sem var vinnumaður í Viðey, þegar Ingvar fórst 1906: "Húsbóndinn, Eggert Briem, tók sér þetta slys ákaflega nærri og var ekki samur maður lengi á eftir. Sagði hann oft, að hann hefði heldur viljað missa Viðey, en þetta hefði komið fyrir. Meðan skipið stóð á skerinu var hann nærri hamslaus út af því að geta ekkert gert. Skipaði hann okkur t.d. að setja fram fjögra manna farið og fara út að skipinu og ætlaði auðvitað sjálfur með. En Magnús Einarsson, sem var orðlagður sjómaður og góður stjórnari, sýndi honum fram á, að slíkt væri óðs manns æði þar sem holskeflubrim væri alla leið frá skipinu heim að túni. Bátur var í svonefndri Brekkuvör ( Áttæringsvör) sem er sunnan við Virkið. Þangað fór Eggert einn og hratt bátnum fram og ætlaði að leggja út. En þessu var veitt eftirtekt í tæka tíð og var báturinn tekinn af honum."

Lík Ingvarsmanna voru flutt til Reykjavíkur, þar sem tíu voru jarðsett 20. apríl, en eitt var flutt til Akraness.

Steinar Lúðvíksson segir um útförina: "Gífurlegt fjölmenni var við útförina í Reykjavík. Öllum verslunum og atvinnufyrirtækjum var lokað meðan á athöfninni stóð og fólk safnaðist saman til þess að sýna hinum látnu virðingu sína. Báðir Reykjavíkurprestarnir, Ólafur Ólafsson og Jóhann Þorkelsson, önnuðust athöfnina, svo og séra Friðrik Friðriksson. Blöðin birtu eftirmæli eftir skipverjana og Guðmundur Guðmundsson skáld orti fagurt ljóð til minningar um hina látnu, þar sem speglast harmur þjóðarinnar vegna hins ægilega slyss."

Þetta kvæði, Kveðja við gröfina, var annað tveggja, sem sungin voru við jarðarförina. Það byrjar svo:

Sofið í friði; vorið blikfeld breiði

bjartan á yður, landsins góðu synir...

Síðar árs rak fjögur lík frá Ingvari skammt frá Reykjavík.

Opnaði augu manna fyrir tækjaskortinum

Margt var ritað og rætt eftir Ingvarsslysið. Árni Óla rekur tvö meginstef umræðunnar og segir annað hafa verið hneykslan á því að "þetta sama kvöld, eftir að menn höfðu mikinn hluta dags horft á heljarstríð skipverja, sýndi Leikfjelagið gamanleik, og var hann talsvert sóttur." Árni tekur orðrétt upp úr

Alþýðublaðinu: "Fyrir nokkrum vikum var mikill sorgarblær yfir bænum. Flögg voru dregin í hálfa stöng hvar sem því varð við komið. Leikhúsinu var lokað um tíma og öllum skólum. Sorgarguðsþjónustur voru haldnar í kirkjunum og víðar og klukkum hringt kvölds og morgna. Þetta var gert í tilefni af því, að mikilsmetinn "yfirmaður" suður í Danmörku andaðist úr elli. (Kristján IX). - En 7. þ.m. þegar tveir tugir íslenskra sjómanna féllu sem fórn fyrir óblíðu náttúrunnar og hirðuleysi manna, dóu hræðilegum slysfaradauða fyrir augunum á öllum bæjarbúum, þá sást hvergi flagg á stöng nje heyrðist klukknahljómur, en gamanleikur var sýndur í leikhúsinu um kvöldið. Þá var ekki ástæða til að hryggjast."

Hitt atriðið greindi menn meira á um, en það var hirðuleysið, sem nefnt var í Alþýðublaðinu. En hvaða skoðun sem menn höfðu á því hvort nóg hefði verið gert til þess að reyna að bjarga áhöfninni á Ingvari eða ekki, þá opnaði slysið augu manna fyrir því skeytingarleysi að enginn björgunarbúnaður skyldi vera tiltækur. Féll umræðan þá í þann farveg, hvaða björgunartæki væru hentugust.

Björgunarbátur var mönnum ofarlega í huga, en í Lögrjettu 17. apríl 1906 er haft eftir Eggerti í Viðey, að hefðu menn haft flugeldaskotfæri við höndina hefði mátt skjóta streng út til strandmanna á Ingvari og bjarga þeim á þann hátt.

Útkoman varð sú, að efnt var til fjársöfnunar fyrir ekkjur og börn þeirra sem fórust og til þess að kaupa björgunarbát. Vel safnaðist í samskotasjóðinn en minna í björgunarsjóðinn og var sá síðarnefndi á endanum látinn renna inn í hinn. Varð því hvorki að því sinni af kaupum á björgunarbát eða fluglínutækjum.

Árni Óla getur þess í lok greinar sinnar að um líkt leyti og samskotin vegna Ingvarsslysins fóru af stað var lagt upp með aðra fjársöfnun, til þess að koma upp myndastyttu af Kristjáni konungi IX. Þótti söfnunin mjög vanhugsuð og fór svo að henni var hætt. "Þó fór nú svo, að líkneski Kristjáns IX. var komið hingað og sett á fótstalla fyrir framan Stjórnarráðið, áður en björgunarbáturinn kæmi, áður en Slysavarnafjelag Íslands væri stofnað." Réttri hálfri öld síðar eignuðust Reykvíkingar björgunarbátinn Gísla J. Johnsen og til stofnunar SVFÍ liðu 22 ár.

Heimildir:

Árni Óla: Í dag eru 40 ár síðan Ingvar fórst við Viðey. Lesbók Morgunblaðsins, 7. apríl 1946 - endurbirt aukið í bókinni Fortíð Reykjavíkur 1950 - "Ingvars"-slysið.

Geir Sigurðsson: Ingvarsslysið. Til fiskiveiða fóru ... Ítarlegri frásögn í handriti.

Jón Gunnarsson: Stefnt að fjölgun björgunarskipa á næstu tveimur árum. Morgunblaðið 2. desember 2003.

Jónas Ragnarsson: Dagar Íslands. Vaka-Helgafell 2002.

Loftur Guðmundsson: Þrautgóðir á raunastund - Björgunar- og sjóslysasaga Íslands, sjötta bindi. Bókaútgáfan Hraundrangi - Örn og Örlygur hf. 1974.

Steinar J. Lúðvíksson: Þrautgóðir á raunastund - Ingvarsslysið við Viðey og fleiri atburðir - Björgunar- og sjóslysasaga Íslands, tólfta bindi. Bókaútgáfan Hraundrangi-Örn og Örlygur hf. 1980.

Örlygur Hálfdanarson: Samtal í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 7. september 1997.

Er akkerið fundið af kútter Ingvari? Lesbók Morgunblaðsins 5. apríl 1986.

freysteinn@mbl.is