Sigurvegari Helga sigraði í Söngkeppni framhaldsskóla.
Sigurvegari Helga sigraði í Söngkeppni framhaldsskóla. — Morgunblaðið/Sigurður Elvar
Akranes | "Ég stefndi á að komast í 12 manna úrslitin og mér var alveg sama hvað myndi gerast í framhaldinu.
Akranes | "Ég stefndi á að komast í 12 manna úrslitin og mér var alveg sama hvað myndi gerast í framhaldinu. Það kom mér reyndar á óvart að ég skyldi sigra enda var undirbúningurinn hjá mér fyrir þessa keppni ekki mikill," sagði Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir, 19 ára nemi frá Akranesi, sem sigraði í Söngkeppni framhaldsskóla á laugardagskvöldið en þar flutti hún lag eftir Rolling Stones, Ruby Tuesday, með íslenskum texta eftir Ólaf S.K. Thorvalds.

"Ólafur leikstýrði söngleiknum Vegas sem við settum upp í skólanum og hann á textann við lagið. Það var engin undankeppni haldin við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi enda var tímasetningin ekki hentug fyrir nemendur sem voru flestir á kafi við uppsetningu á söngleiknum Vegas. Það lá því beinast við að senda eitthvað atriði úr söngleiknum og ég varð fyrir valinu," segir Helga en hún segir að keppnin hafi verið mjög jöfn.

"Það gátu allir 12 sem komust í lokakeppnina unnið og ég held að munurinn á okkur hafi ekki verið mikill. Ég hafði sungið þetta lag í söngleiknum og vissi því hvað ég átti að gera, en við fengum ekki nema 3 æfingar með húshljómsveitinni og það var því mikill hraði á þessu öllu saman."

Helga Ingibjörg hefur verið búsett á Akranesi frá 13 ára aldri en hún átti heima á Saurbæ í Dalasýslu ásamt foreldrum sínum. "Móðir mín, Ingibjörg Sigurðardóttir, er úr Borgarfirðinum en pabbi, Guðjón Kristjánsson, er Skagamaður. Það voru margir sem höfðu samband úr Dalasýslunni eftir að úrslitin voru ljós og það vilja því marga eiga eitthvað í mér þarna fyrir vestan. Það er í góðu lagi. Ég fékk blómvendi, mörg símtöl og mörg skeyti frá vinum og kunningjum. Vinir mínir tóku líka vel á móti mér er ég kom á Skagann eftir keppnina en ég hafði ekki mikla orku í að skemmta mér með þeim. Ég var dauðþreytt eftir daginn enda hafði ég vaknað snemma til þess að fara til Reykjavíkur á æfingu fyrir keppnina."

Helga Ingibjörg segir að hugurinn stefni á eitthvað nám sem tengist söng en hún hefur hug á því að fara í skóla erlendis eftir stúdentsprófið. "Ég er á félagsfræðibraut og á eitt ár eftir af því námi. Það er draumurinn að komast til Frakklands eða Ítalíu. Ég hef verið með mikinn áhuga á Frakklandi í mörg ár og er að læra frönsku. Ég hef samt sem áður ekki gert nein plön en ég býst við að láta á þetta reyna." Helga Ingibjörg segir að hún hlusti á allt á milli himins og jarðar þegar að tónlistinni kemur. "Ég hlusta á allt, gamla tónlist á borð við Rolling Stones, þungarokk og einnig létt popplög sem leikin eru á FM 957. Ég hef gaman af þessu öllu saman en Ruby Tuesday-lagið hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og ég kunni vel við að fá að flytja það í söngleiknum Vegas."

Helga Ingibjörg hefur ekki reynt að komast að í Idol Stjörnuleit enn sem komið er. "Nei, mér fannst ég ekki vera tilbúin í það dæmi. Kannski á ég eftir að prófa Idolið - kannski ekki. Ég sef alveg róleg yfir því en vissulega væri það spennandi að prófa það. Ég taldi mig ekki vera klára í slaginn í ár en hver veit hvað gerist í framtíðinni," sagði Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir.