Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon fjallar um grundvallarmál lands og þjóðar: "Undirbúum svo hið sama og leggjum grunn að myndun nýrrar vinstri-grænnar velferðarstjórnar á landsvísu að ári."

ALLT frá árdögum heimastjórnar, fullveldis og lýðveldis hefur þjóðin trúað því að tiltekna hluti ætti hún sameiginlega. Einnig að um viss grundvallarmál lands og þjóðar ríkti þokkaleg samstaða. Menningararfurinn væri sameiginlegur og hafinn yfir deilur og mikilvægustu mennta-, menningar- og velferðarstofnar þjóðarinnar væru kjölfesta lýðræðis- og velferðarsamfélags á Íslandi. Þessu hafa menn viljað trúa um stofnanir eins og Háskólann, Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið og Þjóðmenningarsafnið. Sama gilti einnig þegar best lét um uppbyggingu almannatryggingakerfis, skóla og sjúkrahúsa. Allir vildu handritin heim. Á seinni árum ber því miður æ meira á því að þessi samstaða þjóðarinnar sé rofin. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heggur aftur og aftur að rótum þjóðarsamstöðunnar.

Nú er röðin komin að Ríkisútvarpinu. Í stað friðarskyldunnar um mikilvægustu og helgustu sameignir þjóðarinnar ræður þjónkunin við nýfrjálshyggjuna og fjármagnið. Sjálf Thatcher lagði ekki til atlögu við breska ríkisútvarpið, BBC. Hvaðan kemur Halldóri, Geir Haarde, Valgerði og Þorgerði Katrínu umboð til að slá henni við í einkavæðingarofstæki?

Þjónusta við einkahagsmuni fárra

Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og síðan Framsóknarflokknum, hafa þjónustað einkagróðaöflin í landinu vel og dyggilega. Það hafa þau gert m.a. með stórfelldum skattalækkunum sem gagnast fyrst og fremst gróðafyrirtækjum, hátekjufólki og fjármagnseigendum á kostnað venjulegra launamanna. Einnig með ýmiss konar kerfisbreytingum og markaðs- og einkavæðingu í samfélaginu sem fyrst og fremst hefur fært einkagróðaöflunum aukið olnbogarými og fleiri og öflugri tæki í hendur. Eitt birtingarform þessara breytinga á samfélaginu er vaxandi launamunur.

Nú er eins og endanlega hafi runnið æði á ríkisstjórnina í þessum efnum. Annaðhvort er að trúboðarnir eru orðnir að fórnarlömbum trúarinnar og ráða ekki lengur ferðinni sjálfir, einkavæðingin er orðin að æðra markmiði og skiptir ekki máli hvað í hlut á. Nema hitt sé að stjórnarflokkarnir reikni báðir með því að missa völdin innan tíðar og nú eigi að nota þann tíma sem eftir er til þess að koma sem flestum einkavæðingarverkefnum í höfn. Fá ef nokkur venjuleg fyrirtæki eru eftir til að selja. Nú eru það almannaþjónustufyrirtæki, menningar- og velferðarstofnanir sem eru undir. Á dagskrá Alþingis þessa vetrar hafa verið frumvörp um markaðsvæðingu Rafmagnsveitna ríkisins, Matvælaeftirlitsins, Ríkisútvarpsins, og boðað er að ÁTVR verði markaðsvætt. Að sjálfsögðu dettur svo utanríkisráðherra ekkert annað í hug en að einkavæða og selja reksturinn á Keflavíkurflugvelli þegar Kaninn hættir að borga brúsann.

Þjóðin á Ríkisútvarpið ekki stjórnarflokkarnir

Stöldrum aðeins nánar við menningarstofnunina Ríkisútvarpið sem Alþingi er einmitt að ræða þessa dagana. Rökin fyrir því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi eru einhver þau aulalegustu og aumingjalegustu sem heyrst hafa í langan tíma. Í leik barnanna okkar í sandkassanum er stundum heiðarlega sagt þegar fátt gerist um rök; "af því bara". Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks skortir fátt tilfinnanlegar en heiðarleik barnssálarinnar nema ef vera skyldi frumleika. Málamyndarök af því tagi að hlutafélagaformið sé svo vel þekkt og þróað, að hlutafélagaformið sé það sem flestar aðrar þjóðir noti eða að hlutafélagaformið henti svo vel þegar um svona fyrirtæki sé að ræða, ekkert af þessu heldur. Ekkert af þessu á við þegar sjálfstæðis- og sameiningartáknið, almenningsútvarpið, almannavarnatækið, menningarstofnunin Ríkisútvarpið á í hlut. Hér er ekki um eiginlegan og hefðbundinn fyrirtækjarekstur í hagnaðarskyni að ræða. Alls ekki. Tilgangur með rekstri Ríkisútvarpsins er ekki að græða peninga heldur að sinna almannaþjónustuhlutverki. Að vera kjölfesta í vandaðri og hlutlægri fjölmiðlun, tryggja fjölbreytni, viðhalda öflugri innlendri dagskrárgerð, halda utan um og miðla menningararfi þjóðarinnar, rækta tunguna, sinna öryggis- og almannavarnarskyldum, tengja þjóðina saman, sem sagt sinna verkefnum sem fjölmiðlum í einkaeigu er hvorki skylt né endilega hagstætt að sinna með sama hætti, það er hlutverk almannaútvarps. Til þess er Ríkisútvarpið í samtímanum og gildi þess hefur síst minnkað.

Enginn vafi er að Ríkisútvarpsins bíða mun meiri erfiðleikar og árekstrar í samskiptum við aðra fjölmiðla verði það hlutafélagavætt. Sem ríkisstofnun er það lagalega og pólitískt skilgreint og viðurkennt sem samfélagsstofnun, þjónusta, starfsemi sem ekki er stunduð í hagnaðarskyni. Innlendum sem erlendum samkeppnisreglum er þar með bægt frá og deilumál snúast frekar um það hvort eðlilegt sé að ríkið hafi yfirleitt viðkomandi starfsemi með höndum. Ef slík starfsemi er hins vegar færð yfir í fyrirtækjaumhverfið, skilgreiningunni breytt, verkefnið sett upp sem hver annar rekstur, þá er hættunni boðið heim, grunnur lagður að endalausum árekstrum.

Ríkisútvarpið var og er ein af hjartfólgnustu stofnunum þjóðarinnar. Það er hún, þjóðin, sem á Ríkisútvarpið, ekki stjórnarflokkarnir. Þó að ungliðar Sjálfstæðisflokksins hafi opinberlega átt sér þann draum að koma a.m.k. Rás tvö fyrir kattarnef hefur flokkurinn hvorki siðferðilegt né pólitískt leyfi til þess að rjúfa grið um Ríkisútvarpið. Þaðan af síður Framsóknarflokkurinn, sem þóttist ætla að standa um það vörð sem slíkt eða sem sjálfseignarstofnun. Þó Framsóknarflokkurinn geri það að reglu að svíkja slík loforð, samanber Símann, verður það ekki þar með smátt og smátt viðurkennd og siðferðilega gjaldgeng aðferð.

Hvað verður næst?

Þjóð spyr sig í forundran hvað verður einkavætt næst? Fáum við Háskóla Íslands hf., Hæstarétt hf., verður þjóðgarðurinn á Þingvöllum gerður að einkahlutafélagi? Hvað með Landspítalann hf. í boði lyfjafyrirtækjanna?

Nei, nú er mál að linni. Þjóðin er búin að fá meira en nóg og alveg upp í háls af einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar. Þess verður vart hvar sem maður kemur. Ég skora á landsmenn að beita sér gegn einkavæðingahrinu ríkisstjórnarinnar, nú þegar fækka tekur lífdögum hennar, þannig að verja megi þær menningar- og velferðarstofnanir sem eru í hættu. Má ég þá minna á að kjörið tækifæri gefst þegar í sveitarstjórnarkosningunum innan fárra vikna. Undirbúum svo hið sama og leggjum grunn að myndun nýrrar vinstri-grænnar velferðarstjórnar á landsvísu að ári.

Höfundur er formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.