Þorvaldi Þorsteinssyni fjöllistamanni vefst ekki tunga um tönn þegar hann er spurður út í kynni sín af Silju Aðalsteinsdóttur því hann segist hafa hrifist af henni löngu áður en hann hitti hana.
Þorvaldi Þorsteinssyni fjöllistamanni vefst ekki tunga um tönn þegar hann er spurður út í kynni sín af Silju Aðalsteinsdóttur því hann segist hafa hrifist af henni löngu áður en hann hitti hana.

"Silja vakti áhuga minn á barnabókum meðan ég var enn í menntaskóla með umfjöllun sinni um barnabókmenntir í blöðum og útvarpi. Þarna var þessi sjarmerandi kona með þessa hrífandi rödd að tala um viðfangsefni sitt af svo mikilli ástríðu að ég hlaut að leggja við hlustir," segir Þorvaldur þegar hugur hans reikar aftur fyrir 1980.

"Svo heyrði ég hana syngja Vögguvísu róttækrar móður og áttaði mig á því að fólk þarf ekki að binda sig við eigið starfsheiti í verkum sínum þegar hjartalagið er rétt.

Ég man ekki alveg hvenær ég hitti Silju fyrst en líkast til var það tengt tveimur kápuhönnunarverkefnum sem ég fékk fyrir Mál og menningu nokkru áður en ég fór í Myndlistarskólann. Ég var þá byrjaður að vinna í auglýsingabransanum, aðallega við textagerð en fiktaði líka við myndskreytingar. Gerði m.a. veggspjöld fyrir Póst og síma með ævintýrateikningum og -texta sem ég sýndi Silju og Árna Einarssyni, útgáfustjóra Máls og menningar, í von um að fá að myndskreyta barnabók.

Þau tóku mér afar vel en sendu mig heim aftur og sögðu mér að gera mína eigin bók. Ég var soddan græningi að ég hélt að þetta væri kurteisleg höfnun því ég ætlaði að fá að myndskreyta en hafði ekki mikla trú á mér sem höfundi. Ég hafði reyndar föndrað við nám í HÍ í bókmenntafræði en leit svo í spegil einn daginn og sá að ég var ekki Snorri Hjartarson og hætti í námi.

Ég aðhafðist því ekkert í málinu þar til að ég rakst aftur á Árna á Árnabar í Stykkishólmi og hann fór að rukka mig um hugmynd að barnabókinni sem ég hefði lofað að skrifa.

Þá tók ég loks við mér og þannig æxlaðist það að Silja varð ritstjóri minn við gerð Skilaboðaskjóðunnar. Hún var afskaplega gagnrýnin en hvetjandi og frábær ritstjóri. Hún kom mér m.a. á rétta leið með lykilsenuna í bókinni og er þannig nokkurs konar ljósmóðir plottsins í Skilaboðaskjóðunni."

Skilaboðaskjóðan kom út 1986 eftir árs samvinnu þeirra Þorvalds og Silju þar sem Silja leiddi hinn unga rithöfund um myrkviði fléttunnar og kenndi honum reglur ævintýranna. Þorvaldur segir að hún hafi fortakslaust vakið í sér rithöfund sem annars hefði líklega seint stigið fram. En Silja slakaði aldrei á kröfum sínum í leit að bestu bókinni.

"Tólf sinnum sendi hún mig heim með lokakaflann og sagði mér að það vantaði eitthvað. Einhverja lokasetningu eða eitthvað mikilvægt. Ég svitnaði mikið yfir þessu en svo þegar lokasetningin loksins varð til í sumarbústað austur á Þingvöllum þá vissi ég hvers vegna ég elskaði þessa konu. Ég ók rakleiðis í bæinn og stormaði upp á skrifstofu Silju og sýndi henni afraksturinn. Hún las textann, æpti upp yfir sig, hljóp fram fyrir borðið og rak mér rembingskoss."

Hér þarf ekki að tíunda velgengi Skilaboðaskjóðunnar sem hefur farið víða bæði í bókarformi og á leiksviði og stundum verið kölluð klassísk barnabók.

"Skömmu eftir að Skjóðan kom út hætti Silja að vinna hjá Máli og menningu og eftir það heyrði ég aldrei orð frá því forlagi en ég velti því stundum fyrir mér hvað frekara útgáfusamstarf okkar hefði getað leitt af sér. Við erum hins vegar góðir félagar enn þann dag í dag og ég bið hana oft að lesa fyrir mig, hringi í hana og við fáum okkur kaffi þegar ég er að velta hlutum fyrir mér. Mér finnst mikilvægt hversu óhikað hún blandar eigin innsæi og sköpunargleði við þær forsendur sem bókmenntafræðin leggur til. Lætur ekki stjórnast um of af hefðbundnum viðmiðunum sem margir minni spámenn eiga til að týna sér í. Við erum auðvitað ekki alltaf sammála en í krafti þessarar hrífandi blöndu af innsæi og skarpskyggni hefur hún opnað mér nýjan skilning á mínum eigin verkum og hjálpað mér að svara spurningum sem ég hafði ekki einu sinni rænu á að spyrja. Meira getur rithöfundur áreiðanlega ekki farið fram á af gagnrýnanda," segir Þorvaldur að lokum.