Vilborg Tryggvadóttir fæddist á Dalvík við Eyjafjörð 8. júní 1923. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 27. mars síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Áskirkju 5. apríl.

Mig langar að skrifa nokkur orð um Villu frænku. Oft er sagt að börn þurfi fastan punkt í tilveruna, einn af þeim sem ég hafði var Villa frænka. Margar stundirnar átti ég hjá þér og Pétri í Austurbrúninni. Þú komst oft og sóttir mig í skólann og síðan fékk ég að vera hjá ykkur Pétri þangað til mamma og pabbi voru búin að vinna í búðinni í Glæsibæ. Mér fannst alltaf gaman að vera hjá Villu, og þar leiddist mér ekki. Gaman var að fá að keyra um bæinn í bíl sem hafði stýrið öfugum megin, og bensíngjöfina í stýrinu, en sökum fötlunar þurftir þú sérútbúinn bíl.

Þú varst einstaklega dugleg og hafðir gaman af að ferðast. Lést þú fötlun þína ekki aftra þér við að ferðast og fórst þú víða bæði erlendis og innanlands.

Margt var brallað í Austurbrúninni, en þar var föndur og handavinna í hávegum höfð. Þú varst einstaklega lagin við alla handavinnu, og má þar einna helst nefna prjón, hekl og útsaum svo fátt eitt sé nefnt. Þú prjónaðir kjóla og föt á dúkkurnar mínar sem ég á enn í dag. Ófáa dúkana bjóst þú til sem voru að vissu leyti þín sérgrein, ef svo má að orði komast.

Síðustu árin bjó Villa í Sóltúni og undi hún hag sínum vel þar þótt erfitt hafi verið fyrir konu sem vön var að fara allra sinna ferða að vera allt í einu svo háð umönnun.

Ég kveð þig, elsku frænka, með þessum fátælegu orðum, ég veit að Pétur hefur tekið vel á móti þér þar sem þú ert núna. Megi englar Guðs og eilíft ljós umlykja þig og veita þér handleiðslu þar sem þú ert nú.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem.)

Rannveig Rut.