STJÓRN Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt ályktun í kjölfar þeirrar ákvörðunar félagsmálaráðherra að hækka hámarkslán hjá Íbúðalánasjóði í 18.000.000 krónur frá og með 18. apríl.
STJÓRN Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur samþykkt ályktun í kjölfar þeirrar ákvörðunar félagsmálaráðherra að hækka hámarkslán hjá Íbúðalánasjóði í 18.000.000 krónur frá og með 18. apríl.

Ályktun SUS er svohljóðandi: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna lýsir furðu sinni með þá ákvörðun félagsmálaráðherra að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs úr 15,9 milljónum í 18 milljónir króna.

Á sama tíma og Seðlabankinn hækkar vexti í óða önn í þeim tilgangi að halda aftur af lánaþenslu og koma í veg fyrir að verðbólguglóðin verði að báli, þá blæs félagsmálaráðherra lífi í glæðurnar með því að auka fjárstreymi inn á fasteignalánamarkaðinn.

Með þessari aðför að efnahagsstjórninni er endanlega staðfest að lánastarfsemi opinberra aðila, sem ekki lýtur lögmálum markaðarins, er ekki einungis til óþurftar heldur beinlínis skaðleg hagsmunum almennings í landinu.

Samband ungra sjálfstæðismanna krefst þess að félagsmálaráðherra felli úr gildi reglugerð nr. 959/2006 þegar í stað eða að Alþingi grípi í taumana. Ungir sjálfstæðismenn gera þá kröfu til stjórnarmeirihlutans á Alþingi að hann standi undir þeirri ábyrgð sem kjósendur hafa sýnt honum og geri allt það sem á færi ríkisvaldsins er til að varðveita efnahagslegan stöðugleika hér á landi."