Ólafur Ólafsson fæddist á Barónsstíg 12 í Reykjavík 23. ágúst 1916. Hann lést á Landspítalanum hinn 29. mars síðastliðinn og var jarðsunginn frá Fossvogskirkju 10. apríl.

Ég vil gera grein fyrir minningum mínum um afa minn Ólaf Ólafsson. Það er sagt að maður viti ekki hvað átt hefur, fyrr en misst hefur, en í þessu tilviki er það rangt því ég hef alla tíð vitað að ég átti þann besta afa sem til var. Þetta er maðurinn sem gaf mér snemma viðurnefnið Kátiláki því ég var alltaf brosandi. Það var náttúrulega ekkert annað hægt, því að brosa ekki í kringum afa hefði verið eins og að blotna ekki ef maður datt í sjóinn.

Hann var kallaður Óli afi af svo mörgum að þetta rann næstum saman í eitt orð (Ólafi). Ef nýyrðið Ólafi færi í orðabók stæði þar skilgreiningin: 1. Blíður og hjartagóður maður. 2. Bráðgreindur húmoristi. 3. Einhver sem er mjög frjór í huga, sál og líkama.

Ég get rétt vonað að ég sé með í genunum í beinan karllegg örðu af speki hans og visku, og svo aðra örðu öðruvísi af hnyttni hans og kímni.

Hann hafði alltaf eitthvað áhugavert að segja og var sífellt að fræða mig og aðra um það sem honum þótti merkilegt. Hann smellti snemma á mig áskrift af National Geographic til að virkja heilabúið og var sjálfur með lager heima hjá sér sem maður gat gluggað í ef maður hafði tíma. Það var nefnilega nóg af öðru hægt að gera hjá afa. Kjallari hans var fjarsjóðsgeymsla stappfull af leikföngum og öðru sem hann kom með til landsins. Í hvert sinn sem maður fór þangað niður í könnunarleiðangur fann maður eitthvað nýtt og spennandi. Var þar helst að nefna töfrateninga, töfrasnáka, hárspangir með gormum og glimmerkúlum á og auðvitað mörgæsir með prik í rassinum sem maður ýtti á undan sér þannig það kom flip, flop, flip, flop hljóð af löppunum þeirra.

Þótt ímynd mín af honum sé hinn fullkominn afi, þá er einn staður þar sem honum var aðeins ábótavant í hæfileikum. Það var ökuhæfnin. Jú, hann gat keyrt bíl og komist klakklaust á leiðarenda, en í bíltúrum með honum voru rauð ljós ekkert meira en biðskylda og einstefnugötur skyndilega tvístefna ef það var bíll að koma á móti okkur.

Það eru allt of margar skemmtilegar minningar og sögur til að tala um hér, en þegar litið er um öxl, er það sem stendur mest uppúr hversu ástríkur maður hann var. Hann var kvæntur sömu konu í yfir sjötíu ár sem var honum stoð og stytta fram á síðustu stund hans. Svo átti hann svo stóra fjölskyldu af börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum sem honum var svo annt um alla tíð og tíma að hann þurfti að byrja að kaupa jólagjafir fyrir alla áramótin á undan.

Þó svo að síðustu dagar hans væru erfiðir og hann orkulítill, var í honum neisti ef maður vissi hvar átti að leita. Í hvert sinn sem ég kom í heimsókn, safnaði hann saman allri sinni orku því það var mikilvægast fyrir hann að geta hallað sér að manni og kysst halló. Svo lá hann og brosti til manns og skaut til mín glettnislegu blikki því það var eitthvað kímið sem kom upp sem hann vissi að bara ég og hann föttuðum. Svo alltaf þegar ég kvaddi varð hann líka að geta smellt kossi til baka, sem hann gerði. Því miður var minn síðasti kveðjukoss til hans bara einstefna frá mér þar sem hann lá þarna friðsæll, en ég veit að þegar ég hallaði mér að honum að hugur hans, hjarta og sál hallaði sér að mér til baka og kyssti bless í tvístefnu. Ég var samt ekki einn að kveðja afa minn því á þessari stund var hann umkringdur ástvinum, og ef auður manns er mældur í kveðjukossum, væri afi sá ríkasti af öllum.

Þó þetta sé bara ein minningargrein, hef ég mun fleiri slíkar sem mynda rótgróið minningartré í huga mér sem mun alltaf vera í blóma og aldrei fella lauf.

Afi var alltaf í bænum mínum um langlífi og góða heilsu en núna beinast þær að því að hann vaki yfir mér og þeim sem mér eru kærastir. Ég elska þig, afi minn, og mun sakna þín svo mikið. Ég lofa samt að brosa í gegnum tárin.

Þinn

Ragnar Eyþórsson (Kátiláki).

Mig langar til að minnast afa míns í örfáum orðum. Hann var mjög óvenjulegur maður. Hann hafði frá mörgu að segja, hafði á sinni löngu ævi upplifað margt. Það var spennandi að heyra hann segja frá árunum sínum í Ameríku eða frá því þegar hann dvaldi í Þýskalandi. Merkilegast var þó að heyra hann lýsa uppvaxtarárum sínum. Það var lærdómsríkt að heyra hve erfið lífsskilyrðin voru á þeim tíma og skynja hversu miklu hraðar börnin þurftu að verða fullorðin. Afi minn lærði snemma að bjarga sér sjálfur. Hann bjó yfir kjarki, dugnaði og frumleika sem hjálpuðu honum að komast áfram í lífinu.

Þegar ég kynntist afa mínum höfðu mörg þung áföll nærri dregið úr honum allan kjark, en þó bjó hann enn yfir miklum húmor og frumlegri hugsun. Hann las mjög mikið, bæði bækur og blöð, og var oft að benda mér á áhugaverðar greinar, t.d. í Lesbókinni eða Time. Áhugi hans á þjóðmálum var smitandi og lærði ég af spjalli okkar að skoða hlutina frá fleiri sjónarhornum.

Stórfjölskyldan var það sem skipti afa mestu máli. Veggirnir á Rauðalæk eru víða þaktir myndum af öllum afkomendunum. Barnabörn og langafabörn fylla nú fjóra tugi og fylgdist hann vel með okkur öllum. Hann vissi alltaf hvað var efst á baugi hjá okkur og hafði skoðun á því hvað best væri að við legðum fyrir okkur í framtíðinni. Þegar eitthvert okkar var í fasteignahugleiðingum, lá hann yfir fasteignaauglýsingum og kom með tillögur um hentugt húsnæði. Rauðalækurinn var lengst af aðalsamkomustaður fjölskyldunnar og var oft kátt á hjalla yfir pönnukökum og jólaköku. Amma sá um baksturinn, en afi hitaði te eftir kúnstarinnar reglum.

Nú er komið að kveðjustund. Síðustu mánuðina var afi orðinn mjög veikur. Nú hefur hann fengið hvíld og frið, en það er samt alltaf erfitt að kveðja þá sem maður elskar. Ég vil þakka fyrir hverja þá stund sem ég fékk að njóta með afa og í nærveru hans.

Sigrún Jónsdóttir.

Nú ert þú farinn frá mér, elsku afi minn. Síðustu tímar þínir voru erfiðir en ég veit að þú ert kominn á betri stað núna og vakir yfir mér. Mér verður hugsað til þeirra stunda sem ég fékk að eiga með þér undanfarin ár. Líklega hefði ég getað verið duglegri að spjalla við þig og heimsækja þegar ég var yngri, það er sárt að hugsa til þess hvers ég fór á mis við. Þó svo að ég hafi kannski ekki alltaf sýnt það þá trúðu mér, mér þótti óskaplega vænt um þig.

Undanfarin ár átti ég hins vegar góðar stundir með þér, ég komst að því að við áttum ýmislegt sameiginlegt. Þú sýndir alltaf áhuga á því sem ég var að eiga við og átti ég mörg skemmtileg samtöl við þig, um heima og geima og sagðir þú mér margar merkilegar sögur. Þú varst ávallt reiðubúinn að veita mér ráðleggingar þegar mér leið illa eða eitthvað bjátaði á.

Það er skemmtilegt frá því að segja að þú ert sá eini sem hefur getað fengið mig til að drekka te, og veistu, afi, það er ekki til betra te en þú bjóst til. Alltaf þegar ég kom í kaffi til þín og ömmu fylgdist ég með af aðdáun þegar þú helltir upp á te. Það er eitt af mörgu sem ég mun varðveita að eilífu.

Svona er nú samt lífið, elsku afi minn, hafðu ekki áhyggjur ég skal passa upp á ömmu. Ég bið þig nú að hvíla í friði, afi minn, við hittumst síðar á betri stað og hver veit nema það verði ég sem helli þá upp á te, því ýmislegt hefur þú kennt mér.

Ormur Karlsson.

Það er erfitt að sitja ein við tölvuna í fjarlægu landi, fjarri ástvinum og setja niður á blað kveðjuorð um elskulegan afa minn. Söknuðurinn er mikill og vildi ég svo gjarnan vera heima að kveðja hann og umvefja yndislega ömmu mína sem nú er að kveðja félaga sinn frá unglingsárum. Lífshlaup hans er efni í heilan bókaflokk, ótrúleg ævintýri, afrek, erfiðleikar og hamingja . En ég minnist hans einfaldlega sem Óla afa á Rauðó, sem órjúfanlegs hluta af Sigrúnu ömmu, lífinu þeirra saman og öllum þeim stundum sem ég átti með þeim. Æskuminningar frá laugardögum á Rauðó eftir sundferð þar sem stórfjölskyldan hittist og fékk grjónagraut og lifrarpylsu að hætti ömmu og sunnudagar þar sem amma bakaði og gerir enn pönnukökur og jólakökur á meistaralegan hátt. Heimilið þeirra alltaf opið fyrir öllum og yndisleg ást og umhyggja sem alltaf tók á móti manni. Endalaus þolinmæði við barnabarnaskarann sem óð um allt hús.

Ég var svo heppin að fá að kynnast mörgum hliðum á afa. Ég var ekki nema smáskott þegar ég byrjaði að "vinna" með afa, fyrst voru það sendiferðir þar sem við keyrðum um á flotta Fiatinum, afi með volga kók og neftóbak á milli sætanna og ég að skjótast inn í bankana og í tollinn með pappíra. Seinna kenndi hann mér grunninn að viðskiptum þegar ég fór að selja á Lækjartorgi ýmsan varning sem afi var að flytja inn, eða annað sem okkur fannst tilvalið fyrir mig að selja, eins og húllahringi, töfrateninga og fleira í þeim dúr. Þetta var ótrúlega spennandi og fannst vinkonunum þetta afskaplega skemmtilegur afi sem nennti að hjálpa manni með svona hluti og hafði hugmyndaflug í það. Fyrir utan það hvað hann var alltaf flottur, með sítt grátt hár og silkiklút eins og sannur heimsmaður.

Þegar ég eltist breyttist samband mitt við afa og ömmu í dýrmæta vináttu og eru ófáar stundirnar þar sem ég hef setið með þeim og rætt um allt milli himins og jarðar. Líf þeirra saman er ótrúleg saga og er margt sem ég haf lært og fengið nýjan skilning á með samveru minni með þeim. Ferðaþrá afa og ævintýramennska hefur smitast yfir í marga afkomendur og er margt sem ég á þar sameiginlegt með honum, og miðað við það sem hann hefur framkvæmt yfir ævina er margt sem ég á eftir ógert og margt að hlakka til.

Yndislega amma mín, söknuður þinn er mikill en þið eigið ótrúlegt ríkidæmi í afkomendum ykkar, þökk sé ást ykkar og umhyggju. Ég veit að guð er með ykkur og gætir ykkar á þessum erfiðu tímum.

Ástarkveðjur.

Sigríður Ásta Eyþórsdóttir (Sassa).

Afi minn er dáinn. Það er erfitt að kveðja þann sem fyrir manni hefur alltaf verið til. Minningarnar streyma fram, hver annarri ánægjulegri og yndislegri. Hin litlu smáatriði frá barnæsku eru jafnlifandi fyrir hugskotssjónum manns eins og samræðurnar sem við áttum fyrir örfáum mánuðum.

Afi var alltaf ljúfur og góður. Hann var stoltur af stóru fjölskyldunni sinni og umkringdi sig myndum af okkur. Þrátt fyrir að eiga hátt í 50 niðja fylgdist hann vel með hverjum og einum og vissi alltaf hvaða merkilegu eða ómerkilegu hlutir áttu hug manns á hverjum tíma.

Við barnabörnin hans áttum margar skemmtilegar stundir á Rauðó hjá ömmu og afa þegar við vorum lítil. Þar var dótakista full af hlutum sem afi hafði flutt inn: tölvuúr sem breyta mátti í vélmenni, kubbasnákar sem hægt var að breyta í hund ef maður vissi leyndarmálið, lyklakippur sem svöruðu ef maður flautaði á þær, það voru ekki allir sem áttu svona sniðugan afa. Hann var líka alltaf þolinmóður við litlar skottur sem rifu alla púða úr sófum og stólum til þess að byggja kofa á stofugólfinu og keypti glaður af mér rúsínur út um litla rifu á kofanum. Bestu stundirnar voru þó á sunnudögum þegar við barnabörnin hópuðumst saman inn í stofu til afa, settumst á gólfið fyrir framan sófann hans og við horfðum saman á sunnudagshugvekjuna og Stundina okkar.

Þegar ég eltist var ekki síður gaman að hitta afa. Við áttum margar skemmtilegar samræður þar sem glettni afa og skemmtileg sýn á lífið kom berlega í ljós. Sama hvort umræðuefnið var alvarlegt eða léttvægt, alltaf hafði afi eitthvað sniðugt um málið að segja.

Það er skrýtið að hugsa að ég eigi aldrei aftur eftir að sitja á móti afa, í rauðu peysunni sinni, og ræða við hann um allt og ekkert eða horfa á fréttirnar með honum í sjónvarpinu, stillt alltof hátt.

Elsku afi. Ég mun aldrei gleyma glettninni þinni og fallega brosinu þínu né kærleikanum og hlýjunni sem þú sýndir mér alla tíð. Ég ætla að halda áfram að gera þig stoltan af mér. Guð blessi þig, afi minn.

Ástríður (Ásta litla).

Hann afi er dáinn. Systkinahópur er samankominn til að minnast manns sem var okkur öllum svo óendanlega kær. Úr samræðunum spretta skondin minningabrot sem hver og einn átti um afa: "Muniði eftir kóki í gleri og brenni," segir einn og hópurinn brosir. "Já, eða eftir silfurneftóbaksdósunum," segir annar. "Ég man hvað það var gaman að skoða allt furðudótið, töfrateningana og marglitu pennana, það sem var til á skrifstofunni hans afa, muniði." "Já, muniði þegar afi galdraði af sér puttann?" skýtur lítið langafabarn inní. Ójá, við munum. Það er svo margs að minnast. Það var svo gaman að koma heim til afa og ömmu sem tóku barnabörnunum alltaf fagnandi. Afi með glettið blik í augum þegar við smelltum á hann kossi og spurði okkur hvernig við hefðum það. Hann var ákaflega stoltur af börnunum sínum, barnabörnunum og barnabarnabörnunum. Hann fylgdist vel með hverju okkar. Alltaf mættur í öll afmæli, fermingar, útskriftir. Þegar eitthvert okkar stóð á tímamótum í lífinu, þegar lítið langafabarn fæddist, þegar flutt var í nýtt húsnæði, þá voru afi og amma fyrst til að koma í heimsókn. Afi með ökuhanskana og hattinn, virðulegur með mikla hvíta hárið sitt.

Í fjölskyldunni var auður þessa manns falinn og þegar við kveðjum afa okkar með söknuði gleðst hjartað þó yfir að þessi blíði fjölskyldumaður lést í faðmi ástvina sinna í hárri elli. Það er fátt fegurra en að fá að deyja eins og maður lifði, með ástvinum sínum.

Vertu sæll, elsku afi.

Þórný, Ólafur, Sigrún, Guðni

og langafabörnin öll.

Í dag kveðjum við Ólaf Ólafsson, langafa barna okkar Sigrúnar Karlsdóttur. Ólafur var kominn á seinni hluta ævi sinnar er undirritaður kynntist honum og fjölskyldu hans eða rúmlega sextugur. Hann hafði þá dregið saman seglin. Ólafur var prúður maður, lágmæltur, bar sig vel og var reffilegur alls staðar sem hann fór. Hann var ekki fyrir að barma sér né berja á brjóst. Var róttækur í skoðunum og blátt áfram í öllu fasi en þó hugmyndaríkur og uppátektasamur. Okkur fannst það t.d. frumlegt og skondið að sjá ljósmyndir af Ólafi og drengjunum hans með gleraugu og derhúfu pabba síns frá sjötta áratugnum. Ólafur naut sín innan um fjölskyldu sína og var stoltur af börnum sínum og barnabörnum. Hann fylgdist vel með hverjum nýjum fjölskyldumeðlim og spurði oft græskulaust en þó með alvöru verðandi mæður og feður hvort ekki væri rétt að skíra barnið Ólaf ef það yrði drengur.

Vafalaust hefur hann verið hvatvís á yngri árum og gat brugðið skapi er honum mislíkaði en hann kunni líka að stilla það, sem ekki er síðri kostur. Skoðun sína sagði hann vafningalaust en þó með stillingu.

Ólafur var að eðlisfari forvitinn um alla hluti hvort sem var um þjóðmál, náttúruna og allt sem snerti menn og málefni líðandi stundar. Hann notaði alla fréttamiðla óspart, keypti öll dagblöð sem í boði voru í áratugi og tók sjónvarpinu fegins hendi er það kom til enda fréttaþyrstur eins og títt var með menn af hans kynslóð.

Að sumu leyti var hann afar nákvæmur sérstaklega er kom að því að velja mat og drykk. Naut þess með Sigrúnu sinni að velja óhefðbundið hráefni til matargerðar og finna besta fáanlega brauð á hverjum tíma. Tedrykkju stundaði Ólafur og þótti uppháhellingin vera af þeirri list, sem honum einum var lagið og enginn mun leika eftir.

Ólafur var smekkmaður í klæðaburði bæði hvað stíl og litaval snerti. Ekki spillti það fyrir að hann hafði þýzkt próf í saumavélaviðgerðum, sem aftur gaf honum innsýn í textíliðnaðinn. Vönduð klæðaefni vöfðust því aldrei fyrir honum. Hann var langt á undan sinni samtíð með ýmsar hugmyndir í nýsköpun atvinnutækifæra. Ólafur lifði mestu breytingatíma þjóðarinnar og lifði stundum hratt og kom miklu í verk. Var frumkvöðull snilldarhugmynda, sem lifa góðu lífi í dag. Enn eru saumaðir svefnpokar og barnakerrupokar með sama sniði og hann fann upp á árunum milli stríða.

Hann lét hanna og smíða eigin húsgögn fyrir heimilið og sótti listsýningar og tónleika. Hann var fagurkeri íslenskra bókmennta og lista. Gerði sér far um að miðla góðum bókmenntum og listum til barna sinna og barnabarna. Hann talaði með lotningu um Laxness enda skoðanabróðir hans um marga hluti.

Það er undarlegt að hugsa til þess að Ólafur var að mestu sjálfmenntaður, talaði ensku, þýzku og dönsku óaðfinnanlega, þrátt fyrir að eiginlegri skólagöngu hafi lokið við fermingu. Mestan lærdóminn hlaut hann í skóla lífsins, sem er sá strangasti og þar fékk hann sinn skammt af sigrum og áföllum.

Ólafur hafði skarpa dómgreind og skýra hugsun alla tíð alveg til síðasta dags. Það hlýtur að teljast öfundsvert að hafa haldið fullri andlegri reisn þrátt fyrir háan aldur.

Auður langafa, eins og börnin mín kölluðu hann réttilega, lá fyrst og fremst í að eiga góða eiginkonu, Sigrúnu, sem hefur stutt hann í meir en 70 ár með ráðum og dáð.

Auk þess að börn þeirra og barnabörn væru honum ætíð mikill gleðigjafi gáfu þau honum ómælda ánægju. Þau hjónin voru afar samrýnd enda samvistir þeirra miklar síðustu árin. Missir Sigrúnar er mikill sem og allrar fjölskyldunnar en hún hefur sýnt mikinn styrk á undanförnum mánuðum og vikum og við biðjum þess að almáttugur Guð styrki hana á þessari sorgarstund.

Magnús Björn Brynjólfsson.