Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon skrifar um borgarstjórnarmál: "Tryggja þarf að hagsmunir gangandi vegfarenda verði ætíð hafðir að leiðarljósi við skipulag og ákvarðanir um einstakar framkvæmdir í borginni."
UMHVERFISRÁÐ Reykjavíkur hefur samþykkt þá tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að efna til átaks í því skyni að bæta öryggi gangandi vegfarenda. Í samræmi við tillöguna hefur verið skipaður starfshópur til að gera úttekt á stöðu gangandi vegfarenda og koma með tillögur til úrbóta. Í hópnum eru Kjartan Magnússon, Björk Vilhelmsdóttir og Stefán Jóhann Stefánsson.

Hópurinn er nú að störfum og hefur eftirtalin atriði m.a. til skoðunar:

* Staða mála við gangbrautir og gangbrautarljós í borginni.

* Ástand og viðhald gangstétta og göngustíga.

* Snjómokstur og hálkuvörn gangstétta og göngustíga.

* Öryggi barna í umferðinni og hvernig gönguleiðir þeirra til og frá skóla, íþróttamannvirkjum og fleiri stöðum verði best tryggðar.

* Fjölgun göngubrúa og/eða undirganga.

* Öryggi eldri borgara og hvernig gönguleiðir þeirra verði best tryggðar, m.a. í tengslum við ýmsa þjónustu.

* Fyrirkomulag fræðslu til ökumanna og gangandi vegfarenda um gagnkvæma tillitssemi.

* Göngutengsl á milli Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna.

Margir Reykvíkingar fara leiðar sinnar gangandi að hluta til eða að öllu leyti. Sumir velja þennan fararmáta fram yfir aðra á meðan aðrir hafa ekki val. Þrátt fyrir að meirihluti ferða í Reykjavík sé farinn með bifreiðum, er mikilvægt að tryggja að fólk eigi raunhæft val á milli samgöngukosta. Það verður ekki einungis gert með tímabundnu átaki, heldur með því að leggja áherslu á að bæta aðstæður gangandi vegfarenda almennt. Jafnframt þarf að tryggja að hagsmunir þeirra verði ætíð að leiðarljósi við skipulag og ákvarðanir um einstakar framkvæmdir í borginni.

Mikilvægt er að líta almennt á aðstæður gangandi vegfarenda og bæta þær. Víða í borginni er viðhaldi gangstétta t.d. ábótavant og langir kaflar eru í óviðunandi ástandi.

Það er skoðun undirritaðs að gera þurfi betur til að auka öryggi gangandi vegfarenda í borgarumferðinni. Kvartað hefur verið yfir því að aukin umferð og minnkandi tillitssemi gagnvart gangandi vegfarendum leiði til þess að þeir finni fyrir óöryggi og hræðslu. Sýnt hefur verið fram á að eftir því sem gangandi vegfarendur finna frekar fyrir óþægindum, ganga þeir síður og er mörgum foreldrum t.d. orðið illa við að börn þeirra gangi til og frá skóla af þessum sökum. Leita þarf leiða til að snúa slíkri þróun við og leggja meiri áherslu á að tryggja hagsmuni og umferðaröryggi gangandi vegfarenda.

Lesendur eru hvattir til að senda starfshópnum ábendingar og hugmyndir um hvernig bæta megi aðstæður gangandi vegfarenda í borgarumferðinni. Senda má undirrituðum slíkar ábendingar á netfangið kjartan@reykjavík.is, eða bréfleiðis í Ráðhús Reykjavíkur við Tjarnargötu.

Höfundur er borgarfulltrúi og formaður starfshóps um málefni gangandi vegfarenda.