Vill breytingar - Breski þingmaðurinn Jim Dowd: "Ég er sannfærður um að mikill fjöldi fólks er ósáttur við það hvernig þeir stóru verða alltaf stærri og stærri og ryðja um leið þeim smærri út af markaðnum, eða gleypa þá með húð og hári."
Vill breytingar - Breski þingmaðurinn Jim Dowd: "Ég er sannfærður um að mikill fjöldi fólks er ósáttur við það hvernig þeir stóru verða alltaf stærri og stærri og ryðja um leið þeim smærri út af markaðnum, eða gleypa þá með húð og hári." — Morgunblaðið/Agnes Bragadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um margra ára skeið hefur átt sér stað umræða hér á landi ekki síst á síðum Morgunblaðsins um samþjöppun á smásölumarkaði á Íslandi einkum matvörumarkaði þar sem fáir stórir skipta með sér svo til allri kökunni.

Um margra ára skeið hefur átt sér stað umræða hér á landi ekki síst á síðum Morgunblaðsins um samþjöppun á smásölumarkaði á Íslandi einkum matvörumarkaði þar sem fáir stórir skipta með sér svo til allri kökunni. Í Bretlandi hefur sama umræða staðið um nokkurra ára skeið og nú er það jafnvel til skoðunar að breyta lögum þar í landi til þess að torvelda þeim stóru að verða enn stærri. Agnes Bragadóttir ræddi við breska þingmanninn Jim Dowd (Verkamannaflokki) sem stýrt hefur störfum þeirrar þingnefndar sem farið hefur ofan í saumana á smásölu á Bretlandseyjum og gert ákveðnar tillögur um breytingar.

Það er ákveðið ferli sem blaðamaður þarf að fara í gegnum á breska þinginu áður en náð er tali af þingmanni. Til að byrja með tók ég mér stöðu í langri biðröð fyrir utan gestainnganginn og beið þar ásamt nokkrum tugum annarra gesta eftir því að vera heimiluð innganga. Við máttum þola haglél þrátt fyrir vorveður í lofti Lundúnaborgar og því næst tók við sérstök vopnaleit rétt eins og um öryggiseftirlit á alþjóðlegum flugvelli væri að ræða.

Næsta bið hófst í ísköldum en tilkomumiklum móttökusal breska þingsins og löngu eftir umsaminn tíma kemur Jim Dowd askvaðandi, ábúðarmikill og greinilega önnum kafinn. Biðst afsökunar á töfinni en segir fundahöld hafa dregist á langinn og því sé hann seinn fyrir. Tökum okkur sæti úti í horni í kaffistofu þingmanna þar sem þingmaðurinn býður mér upp á ótrúlega vont kaffi en fær sér að sjálfsögðu te.

Mikil samþjöppun

Hver var aðdragandinn að því að ákveðið var að setja starf þessarar stóru þverpólitísku nefndar í gang?

"Bresk smásala hefur tekið miklum breytingum hér í Bretlandi á undanförnum árum eins og gerst hefur víða annars staðar. Mikil samþjöppun hefur orðið og fáir stórir eru orðnir mjög fyrirferðarmiklir á markaðnum víða svo jaðrar við einokun, tvíkeppni eða í besta falli fákeppni. Þetta á ekki síst við matvörumarkaðinn, sem við höfum skoðað sérstaklega náið.

Það eru nokkur ár síðan við byrjuðum að skoða smásöluna sérstaklega hér á breska þinginu og það var strax ákveðið að fulltrúar allra flokka tækju þátt í því starfi. Segja má að kveikjan hafi verið sú að smærri sjálfstæðum smásölum fannst sem þeir ættu erfitt með að ná eyrum þingmanna breska þingsins.

Þessi sérstaka nefnd sem ég hef leitt undanfarið ár eða frá því eftir kosningar í fyrra er 20 þingmanna nefnd þar sem við í Verkamannaflokknum eigum 10 fulltrúa, Íhaldsflokkurinn á sex og Frjálslyndi flokkurinn fjóra.

Við höfum kynnt okkur markaðinn á Bretlandseyjum með því að ræða við smásala stóra og smáa, borgar- og sveitarstjórnarmenn, neytendur, birgja og fleiri og höfum svo dregið helstu upplýsingar úr því starfi okkar saman í þá skýrslu sem þú ert búin að vera að skoða, "High Street Britain: 2015".

Við höfum reynt að gera okkur grein fyrir því hver þróunin hefur verið á undanförnum árum þar sem samþjöppun í smásölu og yfirtökur hafa verið mjög miklar og hvaða áhrif þessi þróun hefur á samfélagið í sem víðastri mynd. Við höfum einnig reynt að kortleggja það hvernig við sjáum fyrir okkur þróun smásölunnar næstu 10 árin jafnframt því sem við viljum gera okkur grein fyrir því hvernig smásalan á Bretlandseyjum verður eftir áratug eða svo ef engu verður breytt í reglugerðarumhverfinu.

Í grófum dráttum sjáum við að litlir smásalar eiga í vök að verjast og Hinir fjórir stóru (The Big Four) eru hægt og bítandi að kaupa upp minni smásala í Bretlandi. Þetta veldur okkur ákveðnum áhyggjum, minni smásölum og birgjum auðvitað einnig."

Eru nánast alls staðar

Meðal þess sem þið í nefndinni gerið tillögur um er mjög dramatísk tillaga um að frekari samrunar og yfirtökur verði bannaðar tímabundið þar til lagaumhverfinu hefur verið breytt. Hvaða vonir gerir þú þér sem formaður nefndarinnar um að breska þingið fari að tillögum nefndarinnar og breyti lögum?

"Það er auðvitað undir ríkisstjórninni og breska þinginu komið að taka ákvörðun um það hvort ráðist verður í þær lagabreytingar sem við erum að tala um. Hvort það verður gert get ég ekki sagt til um á þessu augnabliki.

Spurningin um tímabundið bann við samrunum og yfirtökum á fullan rétt á sér að mínu mati. Hinir fjórir stóru, eins og við nefnum þá gjarnan, eru ekki einungis smásalar á matvörumarkaði. Þeir eru nánast alls staðar á öllum sviðum smásölu. Segja má að einstaklingur í dag geti farið í gegnum lífið allt og aldrei verslað annars staðar en í Tesco. Frá vöggu til grafar getur Tesco fullnægt öllum þörfum einstaklingsins. Er það slík einsleitni sem við viljum festa í sessi? Tesco selur allt frá dagblöðum til bíla. Hvers konar matvöru, húsgögn og hvaðeina og þeir hafa verið að dýpka markaðshlutdeild sína að undanförnu. Ég nefni Tesco sérstaklega af þeirri einu ástæðu að þeir eru langstærstir, með um 30% markaðshlutdeild og með yfirlýst áform um að stækka verulega á næstu árum.

Þeir stóru hafa einnig verið að víkka út markaðshlutdeild sína því t.d. hafa Tesco og J. Sainsbury í auknum mæli komið inn á þægindavörumarkaðinn og eru ekki lengur einungis stórir í stórmörkuðunum eins og þeir voru áður heldur sækja þeir ört fram í hlutdeild af minni verslunum bæði með því að opna nýjar verslanir og yfirtaka aðrar. Asda-Wal-Mart hefur einnig hafið innreið sína á þægindavöruverslanamarkaðinn og boðar aukna sókn þar og þá væntanlega vegna þess hversu vel hefur gengið hjá Tesco og J. Sainsbury á þeim markaði.

Við viljum einfaldlega setja bann við slíkum yfirtökum og samrunum þar til stjórnvöld hafa ákveðið með hvaða hætti þau vilja að smásölu í landinu verði háttað í framtíðinni.

Hér er um mikla hagsmuni að ræða og hinir sterku á markaðnum hafa bæði pólitískan og fjárhagslegan styrk til þess að standa vörð um sína stöðu.

En við erum sammála um það sem störfuðum í þessari nefnd að stjórnvöld þurfa að huga að hagsmunum hinna smærri neytenda og birgja einnig. Við í nefndinni höfum ekki vald til þess að ákveða með hvaða hætti málum verður fyrir komið til framtíðar en við höfum bent á leiðir sem við teljum eðlilegt að verði skoðaðar í þaula og við erum að kynna þremur ráðuneytum vinnu okkar og helstu niðurstöður, þ.e. viðskiptaráðuneytinu, ráðuneyti sveitarstjórna og umhverfis- og byggðaráðuneyti.

Eins og ég sagði þér áðan er nefndin þverpólitísk og því þurfti talsverðar samningaumleitanir innan nefndarinnar áður en við komumst að sameiginlegum niðurstöðum. Við ræddum einnig fleiri leiðir sem við höfnuðum að lokum eins og það að setja ákveðin takmörk við markaðshlutdeild (Capital Market Share)."

Fyrstu viðbrögð jákvæð

Dowd segir að miðað við fyrstu viðbrögð úr þeim ráðuneytum sem hann hafi haft samband við liggi fyrir að ríkisstjórnin taki vel í hugmyndir nefndarinnar. "Við höfum fengið þau viðbrögð frá viðskiptaráðuneytinu að ráðherrann vilji ræða við okkur fljótlega eftir páska um efni skýrslunnar og hvað ríkisstjórnin er reiðubúin að gera. Ráðherrann hefur þegar sagt að hann fagni skýrslu okkar og umræðu um þessi mál sem skipti almenning í þessu landi svo miklu.

Ég get því ekki annað en verið ánægður með fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skýrslu okkar og tillögum og við munum halda áfram að þrýsta á að tekið verði til hendi á þessu sviði."

Þegar horft er til tölulegra upplýsinga í skýrslu ykkar eins og þess að hver starfsmaður í stórmarkaði veltir um 95 þúsund pundum en starfsmaðurinn í þægindavöruversluninni aðeins um 42 þúsund pundum er þá ekki ljóst að hagkvæmni stærðarinnar hlýtur að ráða og að þeir stóru munu verða enn stærri?

"Þótt þessar tölur sem þú nefnir tali sínu máli fer því fjarri að þær segi alla söguna. Við erum alls ekki að segja að vernda beri allar smærri verslanir, síður en svo. Sérhver verslun, raunar sérhvert fyrirtæki sem ekki býður upp á gæði og tryggir viðskiptavininum góða vöru og þjónustu, nær ekki að tryggja sér það sem er lykilatriði í viðskiptum; ánægðan viðskiptavin sem vill eiga í áframhaldandi viðskiptum. Slík verslun eða slíkt fyrirtæki mun ekki komast af enda á það ekki skilið að komast af í þeirri samkeppni sem ríkir á markaðnum.

Það sem við erum m.a. að segja í skýrslunni er að þegar léleg fyrirtæki ná ekki að þrauka í samkeppninni þá er ekkert við því að gera. Það er eðlilegur hlutur þar sem heilbrigð samkeppni ríkir á markaði.

En við erum að taka sérstakan vara við og benda á að í auknum mæli gerist það á Bretlandseyjum að góð fyrirtæki eru neydd til þess að hætta, þau keypt upp og/eða lögð niður. Ekki vegna þess að þau standi sig illa, veiti ekki góða þjónustu og bjóði upp á gæði heldur vegna þess að þeir stóru hafa slíka yfirburði að þeir geta í krafti stærðarinnar þröngvað þeim út af markaði með ýmsum meðulum sem eru ekki endilega af hinu góða eða markaðnum, neytendum og samfélaginu til góðs.

Við erum því ekki einungis að beina máli okkar og tillögum til ríkisstjórnarinnar og breska þingsins heldur einnig til sveitar- og borgarstjórna, sem koma auðvitað mikið að skipulagsmálum og uppbyggingu á hverjum stað fyrir sig.

Við bendum þeim á það hvaða hlutverki minni fyrirtæki, verslana- og þjónustukeðjur hafa að gegna í borgum og sveitum út frá samfélagslegum, félagslegum, efnahagslegum og atvinnulegum sjónarmiðum. Og við bendum á hvaða missir sé að því að slík fyrirtæki hverfi í miklum mæli úr hinum smærri samfélögum. Við vörum við einsleitni og hvetjum til þess að sveitarfélögin hafi ákveðna stefnu í málefnum smásölunnar, viðhaldi fjölbreytileika og nýrri uppbyggingu.

Það þarf að huga að svo ótalmörgu. Ég nefni bílastæði sem dæmi. Ef erfitt er að fá bílastæði í grennd við minni verslanirnar og verslanakjarna og það þarf jafnvel að borga fyrir bílastæðin þarf engan Einstein til þess að sjá að fólk ekur frekar einn eða tvo kílómetra í næsta stórmarkað, hvort sem hann heitir Tesco Asda eða eitthvað annað, því þar eru allar líkur á að séu a.m.k. þúsund bílastæði og það kostar ekkert að leggja.

Það eru svona hlutir sem borgar- og sveitarstjórnir þurfa að huga að í stórauknum mæli til þess að viðhalda fjölbreytileikanum í verslun og viðskiptum."

Ferskari matvæli

Dowd segir að BBC hafi nýverið sýnt þátt þar sem sjónvarpsmenn fengu tvær breskar fjölskyldur til samstarfs sem fólst í því að fjölskyldurnar sniðgengu stórmarkaðina í innkaupum sínum í ákveðinn tíma og keyptu allt til heimilisins í smærri verslunum og sérverslunum.

"Niðurstaðan var mjög fróðleg," segir Dowd, "því á daginn kom að fjölskyldurnar voru mjög ánægðar með innkaup sín í smærri verslununum og sérverslunum. Sérstaklega var tilgreind ánægja með það að matvæli, grænmeti, ávextir, kjöt og fiskur, hefðu oft verið mun betri og ferskari og í mörgum tilvikum á betra verði.

Þetta kom á óvart, bæði þáttagerðarmönnum og fjölskyldunum, og er auðvitað hvatning fyrir smærri smásala sem standa sig á markaði því svona niðurstaða hvetur fólk til þess að hugsa sig um hvað er í húfi áður en það kaupir inn.

Við erum ekki að mæla með því að stórmarkaðirnir séu sniðgengnir, síður en svo. En við viljum að fólk hugleiði hvað það fær fyrir peningana sína og að það eru ekki alltaf endilega mestu gæðin sem fást með því að kaupa allt inn í sama kjarnanum.

Stórmarkaðir bjóða oft upp á mikil kostaboð og auglýsa þau upp og ná þannig til sín viðskiptavinunum sem telja sig vera að gera kjarakaup og eru það í mörgum tilvikum. En á sama tíma kaupa þeir kannski vörur sem eru ekki gæðavara eða kosta kannski jafnmikið eða meira en í smærri verslunum.

Við höfum einnig orðið þess vör í viðtölum okkar við birgja að margir þeirra eru beittir óeðlilegum þrýstingi af stóru keðjunum til þess að lækka heildsöluverð sitt. Svona ofurþrýstingur í krafti stærðarinnar er andstæður markaðsreglum um frjálsa samkeppni og aftur bitnar afl hinna stóru á hinum smáu og aftur má spyrja: Hverjum þjónar slíkt háttalag? Ekki neytandanum þegar til framtíðar er horft og ekki birgjum.

Grunnhugsunin hjá okkur nefndarmönnum er að beina því til stjórnvalda að þau tryggi til framtíðar að samkeppnin í smásölunni sé heilbrigð og sanngjörn og að þeir smærri sem standa sig vel í gæðum og þjónustu eigi möguleika á því að halda velli. Slík markmið teljum við að séu í allra þágu."

Þið dragið upp dökka mynd í skýrslunni þar sem fram kemur að þeir stærstu muni verða stærri og þegar séu ákveðin svæði í Bretlandi þar sem ýmist sé komin á einokun eða tvíkeppni þeirra stóru. Ef þróunin heldur áfram með þeim hætti sem þið lýsið og smærri smásölum heldur áfram að fækka hvað verður þá um verðsamkeppni þá sem væntanlega er hörð á markaðnum í dag?

"Það er virkt eftirlit í Bretlandi á hinum ýmsu sviðum verslunar og viðskipta eins og eðlilegt er. Við leggjum til að eftirlit með stórmörkuðunum og stóru verslanakeðjunum verði stóreflt vegna þess að við teljum okkur hafa sýnt fram á að þess sé þörf . Ekki í þeim skilningi að stjórnskipað eftirlit sé að fylgjast með því hvert verðið er í smáatriðum á mismunandi vörutegundum heldur eftirlit sem tryggir að frjáls, heiðarleg og sanngjörn samkeppni geti þrifist og haldi áfram að þrífast."

Hagsmunir neytenda

Hvað með neytendur? Munu þeir ekki ávallt leita þangað sem þeir fá hagkvæmasta verðið? Greiðir ekki viðskiptavinurinn atkvæðið sitt með buddunni sinni? Er þetta nokkuð flóknara en svo?

"Hvernig eru hagsmunir neytenda best tryggðir? Það er lykilspurning og þá þýðir ekki að horfa bara til dagsins í dag heldur til framtíðar. Margir segja að stórmarkaðirnir og stóru keðjurnar í smásölu hafi innleitt lægra vöruverð, aukið vöruúrval og aukin vörugæði og í flestum tilvikum eru slíkar fullyrðingar réttar. En við þurfum að kanna til hlítar hvort slíkt hið sama eigi við þegar til langs tíma er litið. Þegar þeir stóru smám saman losa sig við alla samkeppni frá þeim smærri er ekki þar með sagt að það umhverfi sem verið hefur haldist óbreytt. Ekki er ólíklegt að einsleitni aukist, úr vöruúrvali dragi og vöruverð hækki. Ef þróunin verður þessi er augljóst að hagsmunir neytenda til framtíðar verða ekki best tryggðir með því að örfáir stórir skipti með sér markaðnum.

Hinir fjórir stóru eru því í raun og veru í krafti hins frjálsa vals að takmarka þá valkosti sem til boða standa.

Ef það á að verða framtíð okkar að Tesco, Asda-Wal-Mart, Sainsbury og Morrisons ráðskist með og stjórni allri smásölu hér á Bretlandseyjum þá skulum við að minnsta kosti hafa skoðað hvað felst í slíku. Við þurfum að geta sagt við þá sem á eftir koma að við höfum rannsakað málið og samþykkt slíkt fyrirkomulag með augun opin. Við getum ekki bara skjögrað inn í framtíðina og sagt svo eftir á að þá fyrst höfum við gert okkur grein fyrir því að eitthvað dýrmætt hafi glatast á vegferðinni - eitthvað sem ekki verður bætt."

Völdum að gera eitthvað

Í skýrslu ykkar kemur fram að smærri verslunum á Bretlandseyjum hefur fækkað um nálægt tvö þúsund á ári mörg undanfarin ár. Þið lýsið áhyggjum og viljið sporna við þessari þróun. Samt sem áður kemur einnig fram í skýrslunni að stórmarkaðirnir og stóru keðjurnar hafa mun meiri veltu á bak við hvern starfsmann. Í ljósi þessa er þetta ekki vonlítil barátta hjá ykkur að reyna að koma í veg fyrir að þeir stóru verði stærri? Munu þeir ekki halda áfram að eflast og stækka með kjörorðið hagkvæmni stærðarinnar að leiðarljósi?

"Ef þetta er vonlaus barátta og ekki hægt að breyta þeirri þróun sem verið hefur hvers vegna eru þá svo margir sem lýsa áhyggjum sínum og óánægju með þessa skipan mála hér og annars staðar? Hvers vegna komst þú alla leið frá Íslandi til þess að ræða við mig um efni skýrslunnar og niðurstöður okkar? Ég trúi því ekki að þessu sé ekki hægt að breyta og þessu megi ekki breyta. Ég veit að ég er ekki einn á báti í þeim efnum.

Það hafa margir sagt við mig að þeir teldu skýrslu okkar vera afar niðurdrepandi lesningu. Hvers vegna skyldu þeir segja það nema vegna þess að þeir telja að sú mynd sem dregin er upp í skýrslunni sé ekki eins og hún á að vera? Ég er sannfærður um að mikill fjöldi fólks er ósáttur við það hvernig þeir stóru verða alltaf stærri og stærri og ryðja um leið þeim smærri út af markaðnum eða gleypa þá með húð og hári. Þessi mikli fjöldi er sama sinnis og ég, að slík þróun sé ekki almenningi til hagsbóta.

Við eigum alltaf val í þessu lífi. Við getum valið um það að gera eitthvað eða gera ekkert. Með þessari skýrslu völdum við að gera eitthvað."

Mikil samþjöppun í smásölu á Bretlandseyjum. Tesco með 30% hlutdeild og stefnir að tvöföldun á næstu 10 árum.

Verslunum í einkaeign fækkar um 2.000 á ári

Í skýrslunni er vísað til örs vaxtar smásölukeðjunnar Tesco, sem nú er með um 30% markaðshlutdeild á Bretlandseyjum og þingmenn og samkeppnisaðilar hafa kallað eftir því að stjórnvöld grípi í taumana til að draga úr yfirburðastöðu keðjunnar á markaðnum. Þessi afstaða varð skýrari á liðnu ári, eftir að forráðamenn Tesco lýstu yfir því markmiði sínu að meira en tvöfalda fjölda verslana sinna og markaðshlutdeild á Bretlandseyjum á næstu 10 árum og forráðamenn næststærstu keðjunnar á breska markaðnum, Asda, (í eigu Wal-Mart) sem er með um 17% hlutdeild, hafa lýst samskonar áformum.

Formaður nefndarinnar er einn af þingmönnum Breska verkamannaflokksins, Jim Dowd, sem m.a. hefur lýst því svo að nefndin hafi haft það hlutverk, að nálgast tæknilega útfærslu á því, hvað sé einokun.

Í skýrslunni er lýst áhyggjum þeirra sem reka og tengjast rekstri smærri verslana á Bretlandseyjum og þeim áhyggjum sem þeir hafa af framtíð hefðbundinna verslunarsvæða, þar sem smærri verslanir og sjálfstæðar matvöruverslanir séu óðum að hverfa.

Yfirgnæfandi meirihluti viðmælenda skýrsluhöfunda er sagður hafa verið sammála um mikilvægi smærri verslana, sem hafi bæði efnahagslega og samfélagslega þýðingu. Í smærri verslunum smásölunnar sé ákveðinn drifkraftur brautryðjandans, nýjunga, atvinnutækifæra og verkkunnáttu, sem hætta sé á að glatist, haldi fækkun smærri verslana áfram.

Viðmælendur skýrsluhöfunda lýstu jafnframt áhyggjum sínum yfir þeim mikla þrýstingi sem minni verslanir verði fyrir frá markaðsráðandi öflum og öðrum. Þeir greina frá því hvernig hinir stóru þrengja að hinum smærri, og sjá það fyrir sér að sjálfstæðum, smærri verslunum hafi fækkað stórlega árið 2015, en á undanförnum árum hefur þeim fækkað að meðaltali um 2000 á ári.

Heiti skýrslu þingnefndarinnar er "High Street Britain: 2015". Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að slík fækkun muni hafa skaðleg áhrif á breskt þjóðlíf á fjölmörgum sviðum, viðskiptalega, stjórnmálalega og þjóðfélagslega.

Nefndin gerir fjölmargar tillögur til úrbóta en þrjár þær helstu eru:

*Sett verði bann við frekari samruna og yfirtökum í breskri smásölu, þar til breska ríkisstjórnin hefur sett fram tillögur um hvernig tryggja megi til frambúðar fjölbreytileika breskrar smásölu og eðlilega samkeppni.

*Komið verði á fót sérstöku smásölu eftirlits- og stjórnkerfi (retail regulator).

*Tvískipting markaðsreglna verði endurskoðuð.

Þýðingarmikill hluti bresks viðskiptalífs

Smásala á Bretlandseyjum nam árið 2004 246,3 milljörðum breskra punda eða sem nemur liðlega 32 þúsund milljörðum íslenskra króna. (Miðað við gengi 12. apríl 2006.) Tæplega 185 þúsund fyrirtæki ráku 278 þúsund verslanir, sem telst vera um 11% breskra fyrirtækja. Í skýrslunni segir að smásala sé mjög þýðingarmikill hluti bresks viðskiptalífs, þar sem neytendur eyði yfir þriðjungi einkaneyslu sinnar í smásölu. Fram kemur í skýrslunni að mikil samkeppni ríkir á smásölumarkaðinum í Bretlandi, en hún sé hvað hörðust í matvörusmásölu.

Miðað við árið 2004 var um helmingur þeirra 278 þúsund verslana sem reknar voru í Bretlandi í eigu eins einstaklings og í 103 þúsund verslunum voru starfsmenn fimm eða færri.

Hjá smásölunni í Bretlandi starfa 3,1 milljón manns, sem er um 11% af vinnuafli Breta.

Hjá svonefndum þægindavöruverslunum starfaði liðlega hálf milljón manns árið 2004 og velta í þeim hluta smásölunnar var um 21 milljarður punda, eða um 2.800 milljarðar íslenskra króna. Skýrsluhöfundar nota heitið The Big Four (Hinir fjórir stóru), þegar þeir vísa til fjögurra stærstu verslanakeðja landsins, sem ráða yfir 74% smásölunnar í Bretlandi. Það eru Tesco, með um 30% hlutdeild, Asda-Wal-Mart með um 17%, J Sainsbury og Wm Morrisons. Hjá þeim störfuðu á árinu 2004 um 800 þúsund manns og velta Hinna fjóru stóru var um 76 milljarðar punda, eða um 1.000 milljarðar íslenskra króna. Þessi samanburður jafngildir því að hver starfsmaður í þægindavöruverslununum velti um 42 þúsund pundum (rúmar 5,5 milljónir ísl. kr.), en hver starfsmaður Hinna fjögurra stóru um 95 þúsund pundum (rúmar 12,5 milljónir ísl. króna) árið 2004.

Undirboð og óeðlilegir viðskiptahættir

Skýrsluhöfundar tilgreina ákveðin dæmi, þar sem Hinir fjórir stóru hafi með undirboðum (Predatory pricing) og/eða óeðlilegum viðskiptaháttum drepið af sér samkeppni sjálfstæðra smærri smásala. Þeir bjóði mun lægra verð tímabundið, og þegar hinn litli gefist upp, hætti eða flytji sig um set, hækki þeir verð sitt á ný. Jafnframt sé þrýstingur Hinna fjögurra stóru á birgja til verðlækkunar á innkaupsverði keðjanna oft gífurlegur. Þegar til lengri tíma sé litið, séu þessir viðskiptahættir ekki í þágu neytandans.

Skýrsluhöfundar telja að það ætti að vera í höndum neytandans að ákveða hverjir komast af í smásölunni. Neytandinn ætti einfaldlega að geta kosið með seðlaveskinu og það ætti hann að gera, væntanlega með því að hafa í huga þægindin af því að versla þar sem hann kýs að versla, verðið á vörunni, gæði vörunnar, gæði verslunarinnar, vöruúrval og gæði þjónustunnar.

Þó eru tilgreindar ákveðnar efasemdir í skýrslunni, um að það sé alltaf undir neytandanum komið hvar er verslað, því ekki sé á allra færi að ferðast um langan veg, til þess að kaupa inn og þar er sérstaklega vísað til efnaminni einstaklinga og aldraðra. Nefna þeir sérstaklega nokkur svæði í Bretlandi, þar sem Tesco er með ráðandi markaðsstöðu, Inverness (51%), Milton Keynes (50%), Twickenham (47%), Southall (47%) og Hemel Hamstead (46%).

Á slíkum svæðum hafi neytandinn ekki mikið val. Þetta eigi við um svæði þar sem einhver Hinna fjögurra stóru hefur einokunaraðstöðu (monopoly), eða þar sem um tvíkeppni (duopoly) er að ræða, þar sem tveir af hinum fjórum stóru skipta með sér markaðnum.

Sérstök þverpólitísk þingnefnd á

vegum breska þingsins, sem rannsakað hefur stöðuna á smásölumarkaði í Bretlandi, hefur nýverið lokið störfum og skilað skýrslu um störf sín. Tilefni nefndarstarfsins var m.a.

samþjöppun á breska markaðnum, fjölgun samruna og yfirtaka.

Fjórar stórar - Tesco langstærst

Hlutdeild Tesco á breska smásölumarkaðnum er langstærst, eða um 30%. Keðjan stefnir að því að ná 50% markaðshlutdeild á örfáum árum. Náist þau markmið og fái óhindrað fram að ganga verður hlutdeild Tesco á breskum smásölumarkaði svipuð og hlutdeild verslana Baugs er nú á Íslandi. Önnur stærsta smásölukeðjan á Bretlandseyjum er Asda-Wal-Mart, með um 17% markaðshlutdeild. Asda hefur sömu yfirlýstu markmið og Tesco, þ.e. að tvöfalda verslanafjölda sinn á næstu 10 árum. Hinar tvær eru Sainsbury og Morrisons. Fjórar stærstu smásölukeðjurnar í Bretlandi eru með samanlagt yfir 70% markaðshlutdeild. Á sama tíma og stóru verslanakeðjurnar hafa stækkað ár frá ári, sérstaklega Tesco og Asda, hefur smærri verslunum fækkað stórlega. Áætlað er að smærri verslunum hafi fækkað um nálægt 10 þúsund á árunum 2001 til 2005, eða um næstum tvö þúsund verslanir á ári.

Samkeppniseftirlitið í Bretlandi (Competition Comission) hefur vald til þess að skipa stóru verslanakeðjunum að selja frá sér verslanir, en ekki liggur fyrir hvort því valdi verður beitt.

agnes@mbl.is