— Morgunblaðið/Kristján
MIKLAR annir hafa verið hjá björgunarsveitum í aprílmánuði og sérstaklega undanfarna daga. Má þetta m.a. rekja til mikilla ferðalaga fólks í tilefni af páskahelginni, en einnig hafa önnur slys sett strik í reikninginn.
MIKLAR annir hafa verið hjá björgunarsveitum í aprílmánuði og sérstaklega undanfarna daga. Má þetta m.a. rekja til mikilla ferðalaga fólks í tilefni af páskahelginni, en einnig hafa önnur slys sett strik í reikninginn.

Yfir 200 björgunarsveitarmenn og aðrir viðbragðsaðilar tóku þátt í umfangsmikilli leit sem gerð var að tveimur vélsleðamönnum aðfaranótt föstudagsins langa, en ættingjar þeirra höfðu látið vita um kvöldið að þeirra væri saknað eftir að þeir höfðu ekki skilað sér úr vélsleðaferð á Langjökli.

Mennirnir fundust heilir á húfi um tíuleytið að morgni föstudagsins langa, en þá höfðu björgunarsveitir leitað þeirra í um hálfan sólarhring með aðstoð björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar og varnarliðsins og flugvélar Flugmálastjórnar. Um sextíu snjósleðar og 10 snjóbílar voru á jöklinum við leitina.

Veðrið versnaði hratt

Að sögn Jóns Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hefur verið afar annasamt það sem af er aprílmánuði. Þó voru annirnar langmestar á skírdag og föstudaginn langa. Á skírdag voru fjögur útköll en alls voru sjö útköll á föstudaginn langa. Var þar m.a. um að ræða fólk sem fest hafði bíla sína, m.a. í krapi eða ám, en einnig slasaða vélsleðamenn.

Má m.a. rekja þessar annir til mikilla ferðalaga og útivistar fólks um páskahelgina, en Jón segir fólk hafa sótt upp á hálendi og ýmsa staði utan alfaraleiðar í miklum mæli, enda veður verið gott til ferðalaga að mestu. "Það mátti þó ekki tæpara standa með að finna mennina tvo á Langjökli og bjarga þeim, því björgunarmenn fengu afleitt veður á leið af jöklinum. Það versnaði mjög snarlega rétt eftir að mönnunum var bjargað. Hefðu þeir ekki fundist þegar þeir fundust hefðu allar leitaraðgerðir orðið mun erfiðari."

Þá sótti TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, slasaðan sjómann með alvarlega brjóstholsáverka um borð í spænska togarann Farruco á skírdag, en togarinn var á karfaveiðum á Reykjaneshrygg.