Lilja Ívarsdóttir og Guðbjörg Arnardóttir.
Lilja Ívarsdóttir og Guðbjörg Arnardóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flugan tók flugið til Stokkhólms til að taka púlsinn á stórborgarlífinu og beið í tæpan klukkutíma eftir að geta innritað sig í Leifsstöð . Þá var fátt annað að gera sér til dundurs en að rannsaka samferðafólkið og skrifa mannlýsingar í huganum.
Flugan tók flugið til Stokkhólms til að taka púlsinn á stórborgarlífinu og beið í tæpan klukkutíma eftir að geta innritað sig í Leifsstöð . Þá var fátt annað að gera sér til dundurs en að rannsaka samferðafólkið og skrifa mannlýsingar í huganum. Rithöfundurinn Guðbergur Bergsson stóð þolinmóður í röðinni með litla, snyrtilega ferðatösku og fartölvu. Alvöru skáld fljúga ekki af eyjunni án nauðsynlegra ,,ritfanga", það vitum við Guðbergur . Helgi Pétursson , Ríó Tríó karl, var meðal farþega sem voru spenntir í landflóttahugleiðingum í Leifsstöð . Flótti frá fermingarfári og páskaprjáli.

Samborgarar Flugunnar eru hvergi óhultir fyrir næmu njósnanefi hennar.

Stokkhólmur státar af bjútífúl borgarlífi og fjölmörgum ,,second hand" búðum hvar Fluga gróf upp margan fjársjóðinn og mætti svöl með ,,nýju" Versacetöskuna sína innan um vel klædda Svíana á sýningu samlandans og myndlistarmannsins Georgs Guðna í Galleri Lars Bohman á Karlavägen . Við heimkomuna í Reykjavík var svo fjárfest í hvítri kápu enda hvítt víst aðalskvísuliturinn í sumar og sægur af hvítum fatnaði með blúndum í öllum tískubúðum vegna fermingafársins. Skottaðist að heiman upp úr hádegi í stutta, röndótta Flugukjólnum, fjólu-vínrauðum sokkabuxum og nýju, hvítu kápunni. Kíkt var við í tónlistarbúllunni 12 tónum og þeginn góður espressobolli til að dreypa á meðan diskar voru skoðaðir. Droppaði við á kynningu á bók Brynhildar Þorgeirsdóttur listamanns, í Gallerí Humar eða frægð í kjallara Kjörgarðs og var svo heppin að ramba inn á Mammút-tónleika .

Margir sem fögnuðu Mammúti báru ýmiss konar höfuðföt en tískuþenkjandi bæjarbúar voru ansi litaglaðir um helgina; grænt, gult og bleikt lífgaði upp á borgarmyndina. Og margir með blómvendi í hendi; helst páskaliljur og fermingarblóm. Á Nýlistasafninu var opnuð sýningin Húsið okkar er hús sem hreyfist en það er samsýning 12 listamanna, íslenskra og erlendra.

Talsverður mannfjöldi var mættur og þeirra á meðal voru Guðmundur Oddur eða Goddur (prímusmótor í grafiskri hönnun í LHÍ ), Eggert Pétursson , málari og Tómas Lemarquis listamaður, (a.k.a. Nói albínói ).

Næsta Flugustopp var í Kling & Bang gallerí en þar opnuðu Serge Comte , Andrea Maack og Unnur Mjöll S. Leifsdóttir sýninguna ,, Smack my Cheese ".

Ótrúlega margir á svæðinu, t.d. allir gestirnir sem höfðu verið á NÝLÓ . Í K&B kvisaðist út að bandið Stilluppsteypa myndi spila í Nýlópartíi klukkan átta um kvöldið svo Fluga og félagar fóru aftur á notalegt Nýló þar sem verið var að elda súpu og baka brauð ofan í liðið og bandið að gera klárt. Eftir þrælgott Nýlópartí var farið á Sirkus þar sem Krummi karlinn í Mínus sat úti í horni með húfu á nýklipptu höfðinu og Lilja Björk Egilsdóttir myndlistarmaður, skoppaði langflottust um í svörtum kjól með hvítum doppum, ljósgrænum skóm og bleikri kápu með skinnkraga.

Myndlistarmaðurinn Guðjón Bjarnason , sem sýnir í Hafnarhúsinu um þessar mundir, stakk líka inn kollinum. Eftir artí fartí pernod drykk var flogið á Næsta bar og vængjum vafið um fúlskeggjaðan leikarann Ingvar Sigurðsson , sem þessa dagana lifir sig inn í hlutverk hins fúllynda lögreglumanns Erlends , hans Arnaldar Indriðasonar . | flugan@mbl.is