Meirihlutastjórn Framsóknarflokksins á Þingvöllum 1930, f.v. Jónas Jónsson frá Hriflu, Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra og Einar Árnason. Þegar Tryggvi ákvað að rjúfa þing brást stjórnarandstaðan ókvæða við.
Meirihlutastjórn Framsóknarflokksins á Þingvöllum 1930, f.v. Jónas Jónsson frá Hriflu, Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra og Einar Árnason. Þegar Tryggvi ákvað að rjúfa þing brást stjórnarandstaðan ókvæða við.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar væringar urðu þegar Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra ákvað að rjúfa þing fyrir 75 árum. Rögnvaldur Þórsson rifjar upp þingrofið og deilurnar, sem lágu að baki því.
Á föstudag voru 75 ár liðin frá því að Tryggvi Þórhallsson, formaður Framsóknarflokksins og þáverandi forsætisráðherra, rauf þing í andstöðu við meirihluta þingmanna. Í kjölfarið fylgdi ein magnaðasta stjórnmáladeila Íslandssögunnar þar sem sjálfur grundvöllur stjórnarskipunarinnar var í húfi. Þingrofið er þó ekki síður áhugavert fyrir þær sakir að það varpar vel ljósi á þær samfélagslegu mótsagnir sem kraumuðu undir niðri á fyrri hluta tuttugustu aldar þegar sveitarómantíkin og ör uppbygging þéttbýlisins tókust á.

Minnihlutastjórn Tryggva Þórhallssonar

Framsóknarmenn mynduðu ríkisstjórn undir forsæti Tryggva Þórhallssonar eftir glæsilegan sigur í Alþingiskosningum árið 1927. Framsóknarflokkurinn hafði þó ekki meirihluta þingsæta og sat ríkisstjórnin því með stuðningi Alþýðuflokksins sem hét henni hlutleysi á þingi. Samstarf flokkanna gekk vel að flestu leyti en hægt og bítandi óx spenna milli flokkanna. Framsókn, hagsmunaflokkur bænda, lagði höfuðáherslu á að efla sveitir landsins og var sökuð um að láta mikilvæg hagsmunamál bæjanna og þá sér í lagi Reykjavíkur sitja á hakanum. Þessi afstaða fór hins vegar fyrir brjóstið á alþýðuflokksmönnum sem vildu hag verkalýðsstéttarinnar sem mestan. Þessir núningsfletir leiddu til þess að alþýðuflokksmenn hættu að veita stjórninni hlutleysi á fjórða ári kjörtímabilsins eftir að þeir höfðu komist að samkomulagi við sjálfstæðismenn um tvö stórmál á þingi. Þessi stórmál voru virkjun í Soginu fyrir Reykvíkinga og það sem öllu máli skipti: breytingar á kjördæmaskipuninni sem myndu endurspegla fjölgunina í þéttbýlisstöðum landsins.

Stjórnin var hins vegar andsnúin báðum þessum málum, enda fólu þau í sér endurmat á forgangsröðun þjóðfélagsmála, í þá veru að valdið færðist frá sveitunum og yfir til þéttbýlisins. Sjálfstæðismenn báru nú fram vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni sem alþýðuflokksmenn studdu, en þar með var ljóst að tillagan yrði samþykkt og ríkisstjórnin myndi falla; þéttbýlisöflin virtust nú hafa hnekkt valdi sveitanna.

Magnþrungið andrúmsloft

Óhætt er að segja að andrúmsloftið í þingsal hafi verið magnþrungið klukkan eitt síðdegis hinn 14. apríl þegar fundur í sameinuðu Alþingi skyldi hefjast og vantraust sjálfstæðismanna borið fram. Þingmenn og áheyrendur biðu óþreyjufullir eftir að forseti Alþingis gæfi Jóni Þorlákssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, orðið og útvarpsmenn biðu átekta því nú átti í fyrsta sinn að útvarpa beint frá Alþingi. Hvorki varð þó úr beinni útsendingu né flutningi vantrauststillögunnar og var ástæðan lítill ræðustúfur sem forsætisráðherra las óvænt upp utan dagskrár.

Andstæðingar Tryggva héldu að hann ætlaði að segja af sér en hann kom þeim fullkomlega í opna skjöldu og hóf þess í stað að reifa ástæður fyrir þingrofi. Ræðan endaði svo á bréfi frá sjálfum konungi Íslands sem skipaði svo fyrir að Alþingi væri rofið.

Haraldur Matthíasson, sem þá var þingritari og vitni að atburðum dagsins, lýsti síðar undrun stjórnarandstöðunnar og viðbrögðum á eftirminnilegan máta í bók sinni um þingrofið:

"Alger þögn og kyrrð var í salnum meðan forsætisráðherra flutti ræðu sína, einnig eftir að ljóst var orðið að þing var rofið og þingmenn á svipstundu sviptir umboði. En að ræðu lokinni var kyrrðin skyndilega rofin. Menn spruttu úr sætum, æddu um, og hver talaði upp í annan. Var því líkast sem ógurleg skriða félli með gný og hávaða."

Skammaryrðin flugu fram og til baka í þingsal. "Niður með konunginn og íslensku stjórnina," hrópaði Héðinn Valdimarsson og tóku aðrir stjórnarandstæðingar undir. Mest fór fyrir Ólafi Thors, þingmanni sjálfstæðismanna, sem æddi að borði ráðherranna og hrópaði að "þetta [væri] sú svívirðilegasta misbeiting valds sem nokkurn tíma [hafi] þekkst". Því næst sneri hann sér að Tryggva og mælti: "Þessu hefði ég aldrei trúað á þig, Tryggvi. Maður hefði að vísu trúað því á Jónas því hann er vitlaus." Jónas svaraði fyrir sig eins og honum einum var lagið og sagði við Ólaf: "Ég hef alltaf fyrirlitið þig og fyrirlít þig enn."

Mönnum var vægast sagt heitt í hamsi og minnstu munaði að til stimpinga kæmi, en eftir að Tryggvi hafði þurft að þola þessar svívirðingar í dágóða stund gafst hann upp og leiddi framsóknarmenn út úr Alþingishúsinu og að ráðherrabústaðnum á Tjarnargötu þar sem forsætisráðherrar bjuggu á þessum tíma.

Tryggvi þurfti að sefa mannfjöldann

Fregnir um þingrofið höfðu breiðst út eins og eldur í sinu og hafði mikill fjöldi fólks safnast saman fyrir utan Alþingishúsið þegar forsætisráðherra strunsaði út. Múgurinn, sem lét ófriðlega, elti nú framsóknarmenn að heimili Tryggva og heyrðust m.a. hróp um að rétt væri að henda þeim öllum út í Tjörnina. Tryggvi var sem betur fer enginn aukvisi og sefaði mannfjöldann með því að biðja alla um að hrópa ferfalt húrra fyrir Íslandi. Þessi kænskubrögð drógu úr múgæsingi fjöldans sem hélt nú aftur áleiðis að Alþingishúsinu. Þar gengu þingmenn stjórnarandstöðunnar út á svalir og héldu ræður hver á eftir öðrum þar sem gerræði ríkisstjórnarinnar og ofbeldi þingrofsins var mótmælt. Þingrofið var í þeirra huga brot á stjórnarskránni og neituðu þeir að láta völd sín af hendi og hætta þingstörfum.

Næstu dagar tóku á sig svipaða mynd og sjálfur þingrofsdagurinn. Stjórnarandstaðan hittist í Alþingishúsinu og fundaði þar um stöðu mála. Daglega, á ákveðnum tímapunkti sem auglýstur var í blöðunum, fóru forystumenn hennar síðan út á svalir og lásu upp ályktanir gegn þingrofinu og tilkynntu nýjustu stefnu stjórnarandstöðuflokkanna. Þar hlustaði mikill fjöldi fólks á ræður skörunganna og að þeim loknum héldu allir að ráðherrabústaðnum, sem umsetinn var í heila viku, og mótmæltu hástöfum. Þrátt fyrir hin miklu mótmæli neitaði Tryggvi að segja af sér en til þess að lægja öldurnar fóru Jónas frá Hriflu og Einar Árnason samráðherrar hans úr stjórninni og Sigurður Kristinsson tók við af þeim. Þetta var gert til þess að undirstrika að stjórnin væri aðeins til bráðabrigða þar til kosningar yrðu haldnar.

Tekist á um grundvallarsjónarmið

Þingrofi hafði oft áður verið beitt í sögu landsins, en aldrei vakið eins sterk viðbrögð og nú var raunin. Ástæðan fyrir þessari miklu ólgu var tvíþætt. Í fyrsta lagi vakti það heift manna að vantrauststillaga þingsins skyldi vera virt að vettugi og að Tryggvi leitaði á náðir konungsvaldsins til þess að halda völdum í óþökk meirihlutans á þingi. Í öðru lagi er ljóst að nú var tekist á um grundvallarsjónarmið í íslensku samfélagi, þ.e. hvernig kjördæmaskipuninni skyldi háttað og þar með hvar valdið skyldi liggja.

Framsóknarflokkurinn hafði frá upphafi notið góðs af kjördæmaskipun landsins sem rætur átti að rekja til bændasamfélagsins á 19. öld og leitaðist við að verja hana. Stjórnarandstöðuflokkarnir vildu á hinn bóginn hnekkja þessari skipan, enda áttu þeir báðir meira fylgi að fagna í bæjum og höfuðborg landsins og var þingstyrkur þeirra því ávallt minni en kjörfylgi. Átökin um þingrofið voru því fyrst og fremst átök um það hvort valdið ætti að hvíla í sveitum landsins eða hvort það ætti að flytjast á mölina í takt við samfélagsþróunina. Til þess að bæta gráu ofan á svart spunnust nú inn í þessi átök deilur um konungsvaldið og stjórnarskrárlegan rétt Tryggva til þingrofs á þessum tíma.

Báðu konung að ógilda þingrofið

Sjórnarandstöðuflokkarnir sendu konungi bréf og fóru fram á að hann ógilti þingrofið. Þegar konungur hafnaði þessu skrifuðu þeir honum í annað sinn og báðu hann um að þingrofi yrði þá í það minnsta frestað (eins og hefð var fyrir) svo ljúka mætti stórmálum þeim er lágu fyrir þinginu.

Svar konungs barst 21. apríl þar sem hann hafnaði skilningi stjórnarandstöðuflokkanna á stjórnarskránni sem og beiðni þeirra um að fresta þinginu. Mótmælum gegn þingrofinu og tilraunum til þess að halda þingstörfum áfram lauk við þetta því Gunnar frá Selalæk, sem var óflokksbundinn þingmaður, neitaði nú að halda þingstörfum áfram. Við þetta missti stjórnarandstaðan meirihluta í neðri deild þings og töldu sjálfstæðismenn að þar með væru réttmætar forsendur þingsins brostnar og tilkynntu því að þingstörfum þeirra væri lokið.

Þessu mótmæltu alþýðuflokksmenn og sökuðu sjálfstæðismenn um að skýla sér á bak við Gunnar frá Selalæk; vildu þeir slíta konungssambandi við Dani og stofna lýðveldi í því skyni að geta haldið þingstörfum áfram. Það má því með sönnu segja að hrikt hafi í stoðum stjórnskipunarinnar; stofnun lýðveldis hefði jafngilt stjórnarbyltingu á þessum tíma. Alþýðuflokksmenn gátu þó lítið gert án þátttöku sjálfstæðismanna og sneru flokkarnir sér nú að kosningabaráttunni sjálfri þar sem þingrofsmálið og ástæður þess voru að sjálfsögðu mál málanna.

Yfirburðasigur framsóknarmanna

Framsóknarmenn nutu góðs af því í kosningabaráttunni að vera ráðandi afl í valdakerfi landsins, þ.e. valdi sveitanna, og unnu yfirburðasigur í kosningunum, þann mesta í sögu flokksins. Þeir fengu meirihluta þingsæta, 23 sæti á móti 19, og 36% atkvæða. Auðsætt var að þessi úrslit var aðeins unnt að túlka sem sigur framsóknarmanna í lagalegum deilum um þingrofsmálið.

Sigur framsóknarmanna var þó ekki fullnaðarsigur því hann undirstrikaði það óréttlæti sem í kjördæmaskipuninni fólst. Krafan um umbætur á kjördæmaskipuninni varð nú háværari en nokkru sinni fyrr og urðu deilur um hana svo magnþrungnar að innan Sjálfstæðisflokksins heyrðust jafnvel þær raddir að Reykjavík ætti einfaldlega að segja sig úr lögum við Ísland og stofna sjálfstætt ríki!

Þrátt fyrir að þessar hugmyndir hafi ekki fengið byr undir báða vængi sýndu átökin í kjölfar þingrofsins fram á þá hættu sem fólst í kjördæmaskipun sem endurspeglaði ekki hin raunverulegu valdahlutföll innan landsins. Framsóknarmenn gerðu sér ljósa grein fyrir þessu og ekki leið á löngu þar til þeir hófust handa, í samstarfi við aðra flokka, að leiðrétta þá skekkju. Þar með hófst hinn óumflýjanlegi flutningur valds á Alþingi frá sveitunum og yfir til þéttbýlisins.

Barist á síðum flokksblaðanna

Greinaskrif um þingrofið voru allsráðandi á síðum flokksblaðanna, en þar tókust menn harkalega á um réttmæti þingrofsins. Sjónarmiðin sem fram komu voru skemmtilega ólík og kostulegt er að bera saman skrif Morgunblaðins annars vegar og Tímans (málgagns Framsóknarflokksins) hins vegar.

Einræðisstjórn!

Tryggvi Þórhallsson fær konungsvaldið til að traðka á þingræðinu með því leysa upp Alþingi á miðjum starfstíma þess. Þessi tíðindi gerast á fyrsta ári, eftir að Alþingi hjelt þúsund ára afmæli sitt.

Hvað er framundan?

Stjórnin hefir fyrirskipað að almennar kosningar skuli fram fara að tveim mánuðum liðnum, eða 12. júní næstkomandi. Til þess tíma situr einræðisstjórn við völd á Íslandi.

En hvað tekur við eftir kosningarnar? Verður þingræðið þá endurreist? Eða verður hjer einræðisstjórn áfram?...

Verður þá ekki haldið áfram að brjóta stjórnarskrá landsins og traðka á þingræðinu? Verður ekki næsta skrefið það, að einræðisstjórnin fær konungsvaldið til að kalla ekki saman Alþingi? Morgunblaðið, 15. apríl 1931

Þingrof erlendis

Hér hefir það eitt gerzt, að stjórnin hefir gert skýlausa skyldu sína gagnvart þjóðinni, með því að láta hana srax fá að dæma um stórbyltinguna um kjördæmaskipun landsins. Ef forsætisráðherra hefði vitað um, hvað var á seyði, og samt ekki rofið þing, þá hefði hann brugðist skyldu sinni. Tr. Þórhallsson hefur gert það eitt, sem hver einasti stjórnarformaður í menntuðu landi hefði gert í hans sporum. Og þeir sem ámæla honum fyrir það, hafa komið fram með ofsa og æsingum af lægsta tagi. Þeir óttast dóm þjóðarinnar. Þeir óttast að íslenska þjóðin ætli nú við kosningarnar að senda inn meirihluta þings, sem vill vinna á móti byltingu Héðins Valdimarssonar og Ólafs Thors. Tíminn, 16. apríl 1931

Höfundur er sagnfræðinemi við Háskóla Íslands.