Nælan Marie úr seríunni Ornament and Crime. Nælan er skorin út úr dýrafeldi í forminu eins og klassísk næla. Feldurinn er síðan fylltur blýi. Þyngd nælunnar minnir notandann á þyngd dýrsins sem fyrst bar feldinn.
Nælan Marie úr seríunni Ornament and Crime. Nælan er skorin út úr dýrafeldi í forminu eins og klassísk næla. Feldurinn er síðan fylltur blýi. Þyngd nælunnar minnir notandann á þyngd dýrsins sem fyrst bar feldinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í hlutarins eðli | Maðurinn hefur frá upphafi fundið fyrir einhvers konar frumþörf til þess að skreyta sig. Sú þörf er síst minni í nútímanum en fyrr á öldum og getur skartgripagerð orðið að listformi á ystu nöf þegar best lætur.
Í hlutarins eðli | Maðurinn hefur frá upphafi fundið fyrir einhvers konar frumþörf til þess að skreyta sig. Sú þörf er síst minni í nútímanum en fyrr á öldum og getur skartgripagerð orðið að listformi á ystu nöf þegar best lætur. Brynhildur Pálsdóttir fjallar um skartgripi og skartþörfina.

Skartgripir hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda, þeir hafa verið gerðir og notaðir í öllum menningarheimum og hugtakið skartgripur nær yfir hluti allt frá táhringum til kóróna. Fyrstu skartgripirnir voru gerðir úr tönnum og beinum úr dýrum og ýmsum náttúrulegum efnum svo sem trjábútum, blómum og skeljum. Skartgripagerðin þróaðist með tímanum yfir í að nota eðalmálma og hina ýmsu gimsteina til þess að búa til ódauðlega hluti sem höfðu sterka merkingu, gjarnan trúarlega.

Á okkar dögum hafa skartgripir einnig ýmsa merkingu og eru í raun ákveðið tungumál sem við berum á líkamanum. Skartgripir segja til um hvort menn eru giftir eða trúlofaðir, hvort þeir tilheyri frímúrurum, Sjálfstæðisflokknum eða Vinstri grænum. Hvort menn eru á móti virkjanaframkvæmdum eða fylgjandi jafnréttisbaráttunni. Á sama tíma geta skartgripir líka sagt okkur hverrar trúar fólk er, hvort það er konungborið eða hafi unnið til verðlauna.

Skartgripir eru alls staðar og líklega óhætt að segja að öll eigum við eða höfum gengið með einhvers konar skartgrip. Oft eru þeir það dýrmætasta sem við eigum, hvort sem það er í peningalegri eða tilfinningalegri merkingu.

Þróun í skartgripagerð

Þróun í skartgripagerð hefur fylgt tísku og hugmyndafræðilegum straumum hvers tíma, efnisnotkun hefur breyst með tækniþróun og nútíma efni eins og plast og önnur gerviefni eru notuð á margvíslegan hátt í skartgripum dagsins í dag. Þó eru eðalmálmar og gimsteinar alltaf klassískir sem efniviður í skarti.

Nýjar áherslur í hönnun í byrjun sjöunda áratugarins þar sem hugmynd og merking hlutarins fór að verða mikilvægari en form og útlit höfðu mikil áhrif á skartgripagerð. Markmið ungra skartgripahönnuða breyttust, þeir vildu vekja notendur skartgripa til vitundar um hugmyndirnar á bakvið skartið frekar en hvers virði skartgripurinn væri í peningum. Framúrstefnulegir skartgripahönnuðir á sjöunda áratugnum lögðu áherslu á að hugmyndir, frumleiki og uppfinningasemi væru mikilvægustu þættirnir í gerð skartgripa.

Skartgripagerð lyft á hærra plan

Hollensku hönnuðunum Gijs Bakker og Emmy van Leersum er eignaður sá heiður að hafa lyft skartgripagerð á hærra plan, að hafa gert hana að sérstöku listformi á ystu nöf og hrint af stað þróun í framúrstefnulegri skartgripagerð í Evrópu og Bandaríkjunum í kringum 1970. Bakker og van Leersum, sem voru menntuð í hefðbundinni skartgripagerð, hófu að vinna saman að gerð skartgripa sem vöktu gífurlega athygli og umræður. Þau gerðu óteljandi tilraunir með einföld form í gripum sem voru bæði klæðnaður og skartgripir í senn. Verk þeirra voru áskoranir á hugmyndir fólks um skartgripi og hvöttu til nýrra hugmynda um skartgripi sem miðil fyrir skapandi tjáningu, skartgripi sem merkingarfullt skreyti.

Emmy van Leersum lést langt fyrir aldur fram en eftirlifandi eiginmaður hennar, Gijs Bakker, hélt áfram að þróa og hanna framúrstefnuskartgripi. Gijs Bakker er einn þekktasti hönnuður og hugmyndasmiður Hollands, annar stofnenda Droog Design, eins konar hönnunarsamtaka, sem komu hollenskri hönnun á kortið um miðjan tíunda áratuginn fyrir áhugaverðustu hönnun í heiminum í dag.

Gijs Bakker hefur samhliða iðn- og vöruhönnun haldið áfram að þróa og hanna skartgripi. Árið 1996 stofnaði hann ásamt þremur öðrum skartgripahönnuðum samtökin Chi ha paura...? Who is afraid... of contemporary jewellery? Markmið samtakanna er að fá hönnuði sem hafa vakið alþjóðlega athygli til þess að hanna skartgripi sem eru meira en bara skreyting, skartgripi sem hafa sterkar hugmyndalegar tilvísanir þar sem efnisvalið skiptir minna máli en hugmyndin. Chi ha paura...? hefur undanfarin ár sýnt afrakstur hönnuðanna á hinni alþjóðlegu hönnunarmessu í Mílanó og hefur með þeim sýningum vakið mikla athygli á heimi nútímaskartgripa.

Í Gerrit Rietveld Akademíunni í Amsterdam er ein elsta nútíma skartgripadeildin starfrækt og hafa margir af nemendum deildarinnar hefðbundna skartgripamenntun að baki svo sem gull- og silfursmíði. Nemendaflóran er mjög alþjóðleg og mikil skiptinemasamskipti eru við aðrar skartgripadeildir um heim allan þannig að samskipti og umræður milli skartgripahönnuða alls staðar að halda nemendum í eldlínunni.

Persónuleg sýn á skartgripagerð

Markmið námsins er að nemendur nái að skapa sér persónulega sýn á skartgripagerð, að þeir nái að mynda sér sterka ímynd og sinn eigin hugmyndaheim. Kennarar og deildarstjórar eru allir starfandi skartgripahönnuðir og eru gallerí og safnarar í góðum tengslum við skólann. Margir af fremstu skartgripahönnuðum dagsins í dag eru útskrifaðir frá Gerrit Rietveld Akademíunni. Meðal þeirra er hin þýska Constanze Schreiber sem útskrifaðist þaðan sumarið 2004 og hlaut hollensku hönnunarverðlaunin árið 2005 í flokknum "Frjáls hönnun og tíska" fyrir verkefni sitt "Skraut og glæpur" eða "Ornament and Crime". Í umsögn dómnefndar kemur fram að verk Constanze sé augljóslega sterk ný hönnun með áhrifamikil skilaboð sem á sama tíma virkar mjög kunnugleg. Verðlaunahönnunin er hálsmen úr feldi sem er í forminu eins og klassísk hálsfesti. Hálsmenið er fyllt blýi þannig að það situr um háls notandans í fullri þyngd dýrsins sem áður átti feldinn.

Minna á að náttúran er hráefni

Constanze vill með skartgripunum minna okkur á að við notum náttúruna sem hráefni í allt í kringum okkur. Spurningin er hversu meðvituð við erum um uppruna efniviðarins þegar við göngum í fötum gerðum úr dýrafeldi. Einn pels er gerður úr feldi af 200 minkum sem einu sinni vógu um 1.400 kíló til samans. Gætum við borið þessa þyngd á okkar herðum? Það er staðreynd að við lifum af náttúrunni og værum illa stödd án hennar, en markmið Constanze er að fá fólk til þess að meta að verðleikum það sem við tökum og notum úr náttúrunni. Skartgripirnir fela í sér sterk boð sem aðeins komast til skila þegar notandinn setur skartið á sig og þessi duldu en áhrifamiklu skilaboð gera skartgripina einstaklega magnaða.

Constanze býr og starfar í Amsterdam og framundan eru bæði einka- og samsýningar í galleríum og söfnum í Hollandi og víðar. Ísland hefur mikla þýðingu fyrir hana því hún er mikil áhugamanneskja um íslenska hestinn og hefur verið forfallinn aðdáandi frá barnæsku. Constanze sagðist í samtali við greinarhöfund fjármagna framúrstefnulega skartgripagerð sína með sölu á hálsmenum með íslenska hestinum í aðalhlutverki sem seld eru víða í Þýskalandi til hinna fjölmörgu aðdáenda íslenska hestsins.

Hægt er að skoða fleiri verk eftir Constanze á heimasíðu hennar: http://www.constanze-schreiber.net/ og íslensku hestaskartgripina má skoða nánar á www.isi-jewels.net

Notkun skartgripa mun eflaust aldrei hverfa, þörf mannsins til þess að skreyta sig hefur fylgt mannkyninu frá upphafi og má að vissu leyti kalla einhvers konar frumþörf. Við tjáum okkur með skarti, skartgripir eru tungumál án orða. Skartgripir munu halda áfram að þróast bæði með útliti og merkingu og áhugavert að velta fyrir sér hvert sú þróun leiðir.

Höfundur er vöruhönnuður.