Jón M. Ívarsson segir bókina Þróun glímu í íslensku þjóðlífi umfangsmikið og veglegt verk.
Jón M. Ívarsson segir bókina Þróun glímu í íslensku þjóðlífi umfangsmikið og veglegt verk. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is GLÍMUNNI, þjóðaríþrótt okkar Íslendinga, eru gerð góð skil í veglegri bók sem kom nýverið út á vegum Glímusambands Íslands og Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is
GLÍMUNNI, þjóðaríþrótt okkar Íslendinga, eru gerð góð skil í veglegri bók sem kom nýverið út á vegum Glímusambands Íslands og Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands. Bókin sem ber heitið: Þróun glímu í íslensku þjóðlífi er eftir Þorstein Einarsson, íþróttafulltrúa ríkisins. Þorsteinn lést árið 2001 eftir mikla og langa vinnu við bókina, Jón M. Ívarsson tók þá við verkinu og bjó bókina til prentunar. "Ég held að það láti nærri að saga þessarar bókar sé orðin hálfrar aldar löng," segir Jón. "Þorsteinn byrjaði að leggja drög að bókinni þegar hann ásamt öðrum vann að kennslubók um glímu sem kom út árið 1968. Menn voru þá farnir að hugleiða sögu glímunnar en sáu að það yrði of umfangsmikið efni í kennslubók og lögðu hana því til hliðar á sínum tíma. Svo þegar Glímusambandið var stofnað 1965 er stofnuð glímusögunefnd og hún fær Þorstein til að skrifa sögu glímunnar. Þorsteinn var meira en tilbúinn til þess enda átti hann mikið efni í sínum fórum. Menn voru búnir að hugsa sér að gefa bókina út eftir nokkur ár en það kom í ljós að þetta verk var miklu umfangsmeira en nokkrum hafði dottið í hug, þannig að árin liðu eitt af öðru. Til þess að rannsaka uppruna glímunnar þurfti að skoða fangbrögð í öðrum löndum og það tók sinn tíma að fá þær upplýsingar. Tíminn leið og eftir aldarfjórðung rak verkið upp á sker því nefndin sagði af sér árið 1992. Þá var stofnuð ný útgáfunefnd. Ég tók sæti í þeirri nefnd ásamt Hjálmi Sigurðssyni og við störfuðum í henni til loka ásamt öðrum. Þá komst verkið aftur á skrið og tókst að ljúka því."

Frá upphafi til okkar daga

Jón segir bókina mjög umfangsmikla og nái eiginlega frá upphafi vegar til þessa dags. "Hún skiptist í sex kafla og hefst á að fara yfir erlend fangbrögð og þróun þeirra, síðan er reynt að finna út rætur glímunnar í öðrum löndum og þá fyrst og fremst á hinum Norðurlöndunum og Bretlandseyjum. Þorsteinn færir mjög sannfærandi rök fyrir því að uppruni glímunnar sé í þessum löndum. Glíman hefur ekki komið alsköpuð til Íslands heldur runnið saman úr þeim fangbrögðum sem landnámsmennirnir komu með til landsins, hún hefur semsagt orðið til hér á landi. Síðan er fylgt eftir sögu glímunnar hér innanlands, Þorsteinn fer ítarlega yfir fornsögurnar þar sem mikið er fjallað um fangbrögð, svo er sýnt hvernig íþróttin þróast hér á landi. Þessi fangbragðaíþrótt fær nafnið glíma og það sérkennilega gerist að hérna fær hún fínt yfirbragð, það er ekki þessi þjösnaskapur sem ræður ríkjum í erlendum fangbrögðum þar sem styrkleikinn og þunginn ræður mestu. Í glímunni eru það tæknin og fimleikinn sem ráða mestu."

Þorsteinn Einarsson var geysilega mikill áhugamaður um íþróttir, hann starfaði sem íþróttafulltrúi ríkisins í fjörutíu ár og glíma var hans uppáhaldsgrein. "Þorsteinn var með bestu glímumönnum á sínum tíma, hann hlaut oft fegurðarverðlaun fyrir sína frammistöðu og hafði mjög mikla þekkingu á íþróttinni," segir Jón sem segir Þorstein hafa unnið að bókinni fram til dauðadags. "Ég sat með honum á fundi tveimur dögum áður en hann lést, til að ræða lokafrágang bókarinnar og þá skildi hann þetta eftir í mínum höndum. Ég var þá formaður útgáfunefndar og það kom eðlilega í minn hlut að ganga frá þessari bók því ég hafði unnið mikið að henni með Þorsteini seinustu átta árin þar á undan. Þorsteinn var rétt að verða níræður þegar hann lést en var ótrúlega frjór fram á seinustu stundu og stöðugt að brydda upp á nýjum hugmyndum og kenningum sem voru mjög athyglisverðar. Það var mitt verk að mestu að yfirfara heimildir og ganga frá bókinni," segir Jón sem er að ljúka sagnfræðinámi frá Háskóla Íslands og var m.a. formaður Glímusambands Íslands í nokkur ár ásamt því að æfa sjálfur glímu og þjálfa.

Falleg og eiguleg bók

Bókin er einstaklega fallega myndskreytt en fengnir voru listamenn til að teikna í hana myndir og þá sérstaklega af fornum íslenskum lausatökum sem eru sérstakur kafli í sögu glímunnar. "Við fengum líka menn til að teikna sérstök atriði sem tengjast fangbrögðum úr Íslandssögunni. Auk þess eru margar teikningar af glímubrögðum, en glíman er það flókin íþrótt að það veitir ekki af að hafa myndskreytingu til að sýna hvað átt er við. Textinn er líka mjög ítarlegur en Þorsteinn lét ekkert tækifæri ónotað til að afla heimilda um glímuna. Það má segja að hann hafi velt við hverjum steini til að rekja þróun glímunnar sem var hans óskabarn.

Það var mikið lagt í að gera þessa bók fallega og eigulega og það er von okkar að það hafi tekist. Bókin er búin að vera hátt í fimmtíu ár í smíðum svo það mátti ekki kasta til höndum með hana í lokin."

Kennaraháskólinn var samstarfsaðili Glímusambandsins við útgáfu þessarar bókar en í ritnefnd hennar sátu Jes Einar Þorsteinsson fyrir hönd erfingja Þorsteins, Sigmundur Stefánsson f.h. Glímusambandsins og Kristín Björnsdóttir f.h. Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans. "Kennaraháskólinn ætlaði að gera Þorstein að heiðursdoktor á níræðisafmæli hans en hann lést skömmu áður þannig að það réðst svo að skólinn kom að sem útgáfuaðili ásamt Glímusambandinu sem hefur fjármagnað verkið frá upphafi."

Þróun glímu í íslensku þjóðlífi kom út í lok mars í tengslum við 100 ára afmæli Íslandsglímunnar sem er elsta íþróttakeppni á Íslandi en þar keppa fremstu glímumenn landsins um Grettisbeltið og Freyjumenið.

Jón vonar að þessi bók eigi eftir að vekja athygli á glímunni sem þjóðaríþrótt okkar Íslendinga. "Þetta er fræðirit um glímuna sem allir geta flett upp í, glíman er eina íslenska íþróttin og því stórmerkileg. Það var gaman fyrir mig að geta stuðlað að því að koma þessu verki Þorsteins út og það ríkir mikil ánægja yfir því að þessi bók, sem menn voru stundum að efast um að tækist að ljúka við, sé komin út sem þetta glæsilega verk sem hún er," segir Jón að lokum.