Höfundar verksins, þeir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson ljóðskáld og Sigurður Flosason tónskáld.
Höfundar verksins, þeir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson ljóðskáld og Sigurður Flosason tónskáld. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is
Gjöfult samstarf tónlistarmannsins Sigurðar Flosasonar og ljóðskáldsins Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar mun líta dagsins ljós á síðasta vetrardag þegar alls tuttugu og fjögur ný djasssönglög úr smiðju þeirra félaga koma út á tvöföldum geisladiski sem ber titilinn Hvar er tunglið? Um er að ræða nokkuð einstakan viðburð í íslenskri djasstónlistarsögu þar sem þetta verk mun vera stærsta einstaka framlag til sunginnar íslenskrar djasstónlistar frá upphafi. Kristjana Stefánsdóttir söngkona fytur öll lögin ásamt Djasskvartett Sigurðar Flosasonar en í honum eru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Pétur Östlund á trommur, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á kontrabassa auk Sigurðar sem spilar á saxófón. Fyrir utan að vera meðhöfundur verksins sér Aðalsteinn einnig um útgáfuna en hann rekur útgáfufyrirtækið Dimmu.

Blaðamaður hitti höfundana Sigurð og Aðalstein á heimili þess síðarnefnda og ræddi við þá um hið metnaðarfulla verk yfir risastórum latte-bolla og vínarbrauði.

Í Japan

Hugmyndin að verkinu varð til í Japan þar sem Djasskvartett Sigurðar var staddur til að fylgja eftir útgáfu þar í landi á plötunni Leiðin heim sem kom út árið 2004, en sú plata var einnig gefin út hjá Dimmu. Með í þessari ferð var djasssöngkonan Kristjana Stefánsdóttir.

"Á japönsku plötunni var bætt við tveimur lögum sem Kristjana söng, en þau voru tekin sérstaklega upp að beiðni japanska útgefandans sem taldi mikinn áhuga fyrir kvendjasssöng í Japan," segir Sigurður, sem samdi lögin, en Aðalsteinn samdi textana. "Þetta samstarf okkar varð til þess að við vildum gjarna semja meira af djasstónlist til söngs og á endanum ákváðum við að stefna að útgáfu á heilum diski með kvartettinum mínum og Kristjönu þar sem allt efnið yrði eftir okkur tvo. Tónsmíðaferlið varð svo skemmtilegt og vinnan gekk svo vel að á endanum urðu diskarnir tveir og lögin halda áfram að verða til," segir Sigurður og hlær. "Það kom bara einhver flóðbylgja af músík og ljóðum frá okkur. Þetta er náttúrlega fjárhagslegt sjálfsmorð að fara út í það að gefa út tvöfaldan djassdisk. Það þarf brjálæðinga til að gera slíkt."

Opin flóðgátt

"Þetta eru samstæð verk," segir Sigurður og vill meina að það hefði verið erfitt að búta verkið niður í tvo aðskilda diska. "Ég held að okkur hafi tekist að búa til nokkuð heilsteyptan heim á þessum diskum."

"Það var mjög spennandi fyrir okkur höfundana að fást við þetta verkefni vegna þess að það er mun yfirgripsmeira en hefðbundinn geisladiskur," segir Aðalsteinn. "Við erum báðir vanir því að fást við efni sem er í heildina tíu til tólf lög eða sem svarar um einni klukkustund í flutningi. Þá hefur maður ágæta yfirsýn. Við rákum okkur báðir á að í þetta skipti þurftum við að horfa yfir víðara svið og hugsa verkið sem eina heild þótt um 24 ólík lög sé að ræða. Mér fannst það krefjandi og skemmtilegt og ég held að við höfum valið okkur rétta viðmiðun, en við hefðum líka getað ákveðið að þetta yrði þriggja diska safn. Við ákváðum bara að setja punkt þarna í þetta skipti."

Eruð þið þá búnir að skrúfa fyrir núna?

"Nei, nei. Alls ekki," segir Sigurður og hlær. "Ég ætla að syngja nokkur lög fyrir skáldið hérna á eftir sem ég hef verið að dunda við undanfarna daga. Þetta er bara svo gaman að það er varla hægt að stoppa. Stundum koma tímabil hjá mér þar sem ekkert gerist í lagasmíðum og það reynist mjög erfitt fyrir mig að komast í gang. Síðan hrekkur maður í einhvern gír eins og í þessu verkefni og þá getur verið jafnerfitt að skrúfa fyrir. Það nærir sig einhvern veginn sjálft og þegar maður er byrjaður á annað borð kvikna nýjar hugmyndir án afláts."

Með Jóni Múla

Aðalsteinn hefur í gegnum tíðina fengist við ljóðagerð af ýmsum toga, þar á meðal eru söngtextar við vísnatónlist, barnaljóð og söngvar með hans eigin tónlist og ennfremur textar við þekkt íslensk popp- og dægurlög og má þar nefna ýmis lög Eyjólfs Kristjánssonar og auk þess textann við Evróvisjónlagið góða "Eitt lag enn". Áður en samstarfið hófst við Sigurð hafði hann lítið sem ekkert samið við djasstónlist.

"Ég hef aftur á móti alltaf verið hallur undir djasstónlist," segir Aðalsteinn. "Ég hef hlustað talsvert á djass og stundum tekið svolítið mið af honum í minni eigin tónlist sem stundum hefur verið lýst sem djassskotinni vísnatónlist. Ætli það sé ekki bara vegna þess að ég er alinn upp við morgunútvarpið með Jóni Múla." Aðalsteinn hafði lítið gefið sig út fyrir að semja texta við tónsmíðar annarra um árabil þegar samstarf þeirra Sigurðar hófst og var eiginlega orðinn því afhuga.

"Mér fannst bara orðið leiðinlegt að semja texta fyrir aðra," segir Aðalsteinn. "En í lögum Sigurðar fann ég eitthvað sem höfðaði til mín og tónlist hans, sem ég hafði áður notið sem hlustandi, varð að spennandi viðfangsefni og leit að orðum. Þannig varð til annað og meira efni en ég hafði upphaflega gert ráð fyrir."

Náin samvinna

"Það virkar þannig í báðar áttir," segir Sigurður. "Þegar ég er að grúska í ljóðabókunum hans Aðalsteins halda nýjar hugmyndir áfram að kvikna. Ég er alltaf að finna eitthvað hjá honum sem mér finnst algerlega frábært, eitthvað sem ég bara get ekki látið vera." Sigurður bendir á að ásamt því að hafa unnið að nýjum lögum og ljóðum hafi þeir líka teygt sig aftur í tíma, gengið hvor í annars smiðju og skoðað gamlar ljóðabækur og geisladiska og samið nýtt lag eða ljóð við áður birt efni.

"Þetta er í rauninni mjög náin samvinna því maður verður að treysta hinum fyrir sínu eigin verki og ávinna sér ákveðið traust á móti," segir Aðalsteinn. "Ég tek t.d. eldra lag eftir Sigurð, lag sem hann er búinn að fullklára, löngu búinn að gefa út á plötu og bara mjög ánægður með það eins og það er, en með því að semja söngljóð við það er verkinu í rauninni fundinn annar farvegur. Það er heilmikið vandaverk og það er alveg eins á hinn bóginn þegar Sigurður tekur eldra ljóð eftir mig og semur því nýja tóna. Þetta þýðir það að maður verður að treysta samverkamanni sínum mjög. Við höfum ekki átt í neinum vandræðum í þeim efnum og unnið nánast eins og einn maður. Við náum þannig að hleypa nýju lífi í eldri verk og það finnst mér á vissan hátt mjög spennandi," segir Aðalsteinn.

Spuninn í ljóðinu

"Í ljóðagerð við tónlist þarf maður alltaf að vera tilbúinn að leita nýrra leiða, reyna að finna eitthvað nýtt og svo er líka gaman að leika sér með form," segir Aðalsteinn sem vill meina að textasmíð við djasstónlist njóti spunafrelsis líkt og hljóðfæraleikurinn. "Þegar saminn er texti við dægurlög hefur textasmiðurinn oft á tíðum þröngan stakk og er jafnvel uppálagt að hafa textann einfaldan, grípandi og engin erfið orð. Vísnatónlistin og djassinn setja manni ekki þær þröngu skorður. Ég hef meira frelsi til að fara mínar eigin leiðir. Ég gerði mér til dæmis leik að því að koma með form sem ég hélt að Sigurður gæti örugglega ekki samið lag við. En auðvitað var hann kominn með þetta fína lag við það ljóð skömmu seinna."

"Mér finnst mjög skemmtilegt að semja við tilbúinn texta eða ljóð því það leiðir mann inn á nýjar brautir, brautir sem maður hefði annars sennilega ekki ratað inn á," segir Sigurður. "Stemningin liggur fyrir og það er mitt að vinna úr henni og fara enn lengra með hana. Það er virkilega spennandi að ganga inn í heim einhvers annars og vinna með það sem þar er. Þetta er eins og maður fái örlitla forgjöf og þurfi ekki að láta sér detta allt í hug alveg frá grunni eins og þegar maður er að semja lög án söngs. Ögrunin er svo sem ekkert minni, en hún er öðruvísi."

Margar hendur

"Kristjana skilar söngnum alveg ótrúlega vel," segir Sigurður fullur aðdáunar. "Margt af þessu efni er mjög krefjandi. Tónlist og texta af þessu tagi eru eiginlega engin takmörk sett og við nýtum okkur það. Við gerum bara nákvæmlega það sem okkur dettur í hug og það er ekki fyrir hvern sem er að syngja sumt af þessu en hún rúllar þessu öllu saman upp."

Sigurður bendir enn fremur á að allir hljóðfæraleikararnir komu með sitt innlegg inn í tónlistina. "Allir voru tilbúnir að leggja fram hugmyndir og skoðanir og sú samvinna hefur gengið mjög vel. Það koma margar hendur að þessu verki," segir Sigurður og Aðalsteinn tekur undir það. "Í þessari tónlist er fólgin svo mikil samvinna. Það er þetta bílskúrsbandaelement sem maður sér svo mikið í ungum hljómsveitum sem eru að byrja að spila. Þar er mikil samvinna ríkjandi, sem er svo örvandi fyrir alla í hljómsveitinni, og það finnst mér skipta miklu máli," segir Aðalsteinn.

Útgáfutónleikar í Tjarnarsal

"Síðan er að fara með verkið út til fólksins," segir Aðalsteinn en eins og áður sagði er hann jafnframt útgefandi verksins. "Við ætlum að efna til stórra útgáfutónleika á síðasta vetrardag kl. 20 í Ráðhúsi Reykjavíkur og þangað eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Svo opnum við djasshátíð í Garðabæ á sumardaginn fyrsta. Einnig stefnum við á vikulanga tónleikaferð um landið fyrstu vikuna í júlí og þá verðum við með sjö til átta tónleika í það heila. Svo er í burðarliðnum dreifing á eldri titlum en það er áhugi á efninu okkar vestanhafs, t.d. í Kanada, og við erum að semja um dreifingu þar og eins í Evrópu. Við eigum síðan eftir að sjá hvað kemur út úr því," segir Aðalsteinn.

Þar fyrir utan stendur til að fylgja tvöfalda diskinum eftir með nótnaútgáfu á lögunum en hingað til hefur ekki verið mikið um þannig útgáfur á innlendri djasstónlist. "Það er ekki svo mikið til af sungnum íslenskum djasslögum á nótum en hérna kemur ansi stór bunki ef einhverjir aðrir vilja reyna við þau," segir Sigurður.