Byggingar Meðal þenslusvæða á fasteignamarkaði er Hveragerði og fleiri þéttbýli fyrir austan fjall.
Byggingar Meðal þenslusvæða á fasteignamarkaði er Hveragerði og fleiri þéttbýli fyrir austan fjall. — Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
ÞENSLUÁHRIF hinnar miklu aukningar í íbúðabyggingum á innlendum markaði undanfarin ár samsvarar byggingu að minnsta kosti tveggja álvera og tilheyrandi virkjana, að því er fram kemur í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins.
ÞENSLUÁHRIF hinnar miklu aukningar í íbúðabyggingum á innlendum markaði undanfarin ár samsvarar byggingu að minnsta kosti tveggja álvera og tilheyrandi virkjana, að því er fram kemur í fréttabréfi Samtaka atvinnulífsins.

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur vaxið nær samfellt undanfarinn áratug og sé aukning íbúðarfjárfestinga á árunum 2000-2007 borin saman við meðaltal síðasta áratugar kemur í ljós að hún nemur um 160 milljörðum króna, segir í fréttabréfinu en árin 2006 og 2007 eru reiknuð samkvæmt þjóðhagsspá Seðlabankans frá mars 2006.

Fjárfestingarkostnaður við álver með 250 þúsund tonna framleiðslugetu ásamt framkvæmdarkostnaði vegna orkuöflunar áætlar SA um 130 milljarða króna. Þegar tekið sé tillit til erlends kostnaðar og vinnulaunaþáttar erlendra starfsmanna við virkjanir komi í ljós að þensluáhrif hinna miklu íbúðafjárfestinga á innlendan markað séu að minnsta kosti tvöföld miðað við samsvarandi fjárfestingarútgjöld vegna stóriðju. "Á grundvelli fyrirliggjandi vísbendinga um kostnaðarsamsetningu í stóriðjuframkvæmdum áætla SA að innlendur launaþáttur og þar með eftirspurnaráhrif á innlendan vinnumarkað við 160 milljarða króna viðbótarfjárfestingu í íbúðarhúsnæði samsvari a.m.k. byggingu tveggja álvera og tilheyrandi virkjana," segir í fréttabréfinu.

Einnig er í fréttabréfinu fjallað um vaxandi örorkugreiðslur lífeyrissjóða en vegna fjölgunar öryrkja og lækkandi aldurs þeirra munu þær aukast verulega á komandi árum. Áætlar SA að örorkugreiðslur lífeyrissjóðanna verði orðnar tæpir 10 milljarðar árið 2025, en þær voru um fimm milljarðar í fyrra og því tvöfaldast greiðslurnar á tveimur áratugum. Örorkugreiðslur Tryggingastofnunar munu hins vegar aukast mun hægar, úr rúmum 10 milljörðum í 12 milljarða á næstu tveimur áratugum en bent er á að stofnunin greiði nú þegar 1,7 milljörðum króna lægri örorkubætur en ella vegna tekjutengingar við örorkugreiðslur lífeyrissjóða og að sú tala muni hækka í 2,6 milljarða árið 2015.