Sigmar bregður á leik ásamt félaga sínum Jóhannesi Ásbjörnssyni við tökur á Idol-Stjörnuleit.
Sigmar bregður á leik ásamt félaga sínum Jóhannesi Ásbjörnssyni við tökur á Idol-Stjörnuleit. — Ljósmynd: Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SIGMAR: Einar er sautján árum eldri en ég og því ólumst við ekki upp saman. Þegar ég man fyrst eftir mér bjó hann í Bandaríkjunum, þar sem hann var við nám, en kom alltaf heim til Egilsstaða á jólum og svo sá maður hann líka eitthvað á sumrin.
SIGMAR: Einar er sautján árum eldri en ég og því ólumst við ekki upp saman. Þegar ég man fyrst eftir mér bjó hann í Bandaríkjunum, þar sem hann var við nám, en kom alltaf heim til Egilsstaða á jólum og svo sá maður hann líka eitthvað á sumrin. Það var jafnan mikil spenna í kringum þessar heimsóknir því Einar kom alltaf færandi hendi. Og það voru engar smáræðis gjafir. Tilhlökkunin að fá hann heim var því alltaf mikil. Kannski voru það meira gjafirnar (hlær). Í eitt skiptið kom hann með ruðningstreyju handa mér, Texas Long Horns, sem var liðið í háskólanum hans í Texas. Það var mynd af nauti á búningnum og ég man hvað mér þótti hann rosalega flottur. Ég var ekki gamall þarna, svona 6-7 ára, en var að æfa allar mögulegar íþróttir og hafði þegar komið mér upp kenningu. Hún var sú að mér vegnaði alltaf vel á æfingum eða í leik þegar ég mætti í nýjum búningi frá Einari. Þetta voru sannkallaðar happaflíkur.

Upp frá þessu varð Einar landsfrægur spjótkastari og ég var ekkert að fela það að hann væri bróðir minn. Ég var mjög stoltur af honum og held ég hafi örugglega náð því að verða eitt af leiðinlegustu börnunum á Austurlandi á þessum tíma (hlær). Auðvitað kunni ég mig stundum og lét vini mína um að segja fólki að við Einar værum bræður. Hin hliðin á teningnum var sú að þegar ég kom til Reykjavíkur og var með Einari botnaði ég ekkert í því hvers vegna fólk lét svona með hann. Hann hafði ekkert breyst. Var bara gamli góði bróðir minn. Þarna kynntist ég því að frægðin þarf ekki endilega að hafa svo mikil áhrif á fólk og held það hafi gagnast mér síðar, þegar ég fór sjálfur að vera í sviðsljósinu.

Ég hafði mjög gaman af því á þessum árum að fara með Einari á æfingar og hitta allar hinar íþróttastjörnurnar. Það var mikil upplifun. Alltaf setti hann mig í íþróttagalla og lét mig fylgja sér. Það var aldrei mál. Ég var í öllum þessum hefðbundnu íþróttum á þessum tíma og blaki og fimleikum að auki. Meira að segja badminton. Ég var því ekki búinn að ákveða mig en sagðist alltaf ætla að feta í fótspor bróður míns. Á endanum fór það líka þannig að ég hellti mér í spjótið af fullum krafti. Einar hvatti mig líka óspart til dáða. Hann sá að Hjálmar bróðir okkar, sem er fjórum árum eldri en ég, var meira fyrir hópíþróttirnar og því einbeitti hann sér meira að mér. Kannski hefur hann ætlað að gera mig að arftaka sínum? (hlær)

Ég var vel í holdum sem barn - feitur strákur - og þurfti að þola stríðni af þeim sökum. Eins og gengur. Einar gerði aftur á móti aldrei athugasemdir við vaxtarlag mitt. Þvert á móti. Hann stappaði bara í mig stálinu og sagði mér að þetta myndi fara með tímanum. Það gaf "bollustráknum" mikla von og hafði góð áhrif á sjálfsímyndina.

Frá 13 til 16 ára aldurs bjó ég með foreldrum mínum í Gautaborg. Þá var ég aðallega í handbolta og komst meira að segja í æfingahóp 16 ára landsliðs Svía. Þá hafði ég eiginlega gefið spjótið upp á bátinn en greip samt alltaf í það þegar Einar kom í heimsókn sem var býsna oft því hann var mikið að keppa á Norðurlöndunum.

17 ára gamall flutti ég til Reykjavíkur og sameinaði þá handboltann og spjótið, þangað til ég gaf mig alfarið spjótinu á vald ári síðar. Þá tók við þriggja ára tímabil þar sem ég vann hjá Einari á daginn, í Pizza 67 í Hafnarfirði, og æfði með honum spjótkast seinni partinn. Á þessum tíma vorum við saman nánast 24 tíma á sólarhring og urðum mjög nánir. Þarna breyttist hann úr fjarlæga og fræga bróður mínum í einn af mínum bestu vinum.

Tíminn á Pizza 67 var mjög skemmtilegur. Ég var nýkominn með bílpróf þegar ég flutti í bæinn og á þriðja degi var ég orðinn pizzusendill. Fyrir utan það að rata ekkert hafði ég aldrei keyrt um götur með umferðarljósum. Einari fannst það hins vegar ekki mikið mál og henti mér út í djúpu laugina. "Hérna er símaskrá og þú bara klárar þetta!" Ég man að ég beið í korter á bílastæðinu með fyrstu sendinguna til að herða mig upp áður en ég fór út í umferðina. Hjálmar bróðir minn var svo gerður að "akandi bakara" og ef hann var úti setti Einar bara sjálfur á sig svuntu og fór að baka. Hann hefur ráð undir rifi hverju. Einar er mikill matmaður og festir sig ógjarnan í formi. Getur búið til gómsætan mat úr engu. Tilraunastarfsemi á aftur á móti ekki vel við í pizzugerð, því pizzurnar verða alltaf að vera eins. Einar kærði sig kollóttan um það og pizzurnar sem komu frá honum voru ekki alltaf samkvæmt stöðlum. En ótrúlega góðar. Hann hafði sinn stíl í þessu. Einar hefur gaman af því að finna upp hjólið.

Það sem Einar hefur langt fram yfir mig og líklega alla sem ég þekki er hvað hann er gríðarlega einbeittur og metnaðargjarn. Kröfurnar sem hann gerir til sín eru svakalegar. Hann er varla mennskur hvað það varðar. Þess vegna hefur það líklega hentað honum betur að leggja stund á einstaklings- frekar en hópíþrótt. Meðan á íþróttaferlinum stóð var hann líka mikið einn, hafði t.d. aldrei þjálfara, og þurfti að beita sig miklum aga. Það þarf mjög sérstakan karakter til að ná eins langt og hann gerði við þessar aðstæður.

Einar er líka rosalega vinnusamur. Það sést best á því að ári eftir að hann meiddist illa á heimsmeistaramótinu í Tókýó 1990, og menn töldu að ferli hans væri lokið, setti hann Íslandsmet. Það er auðvitað ekkert nema vinna. Á ferli hans var spjótinu líka breytt þrisvar sinnum sem getur verið býsna erfitt í íþrótt sem snýst fyrst og síðast um tækni. En Einar lagaði sig að öllum þessum breytingum og ef maður skoðar það var hann sá eini sem hélt sér á topp tíu í heiminum gegnum allar þessar breytingar.

Til er skondin saga af því þegar Einar mætti í gipsi og með hækjur á gullmót skömmu eftir að hann meiddist í Tókýó. Hann var efstur að stigum á gullmótunum og þurfti bara að taka þátt í umræddu móti til að fara með sigur af hólmi í stigakeppninni. Það voru miklir peningar í húfi þannig að Einar lét sig hafa þetta. Þegar hann mætti á leikvanginn trúðu öryggisverðirnir honum hins vegar ekki. "Þú ert ekki að fara að keppa í spjótkasti á hækjum!" Hann lenti því í miklu stappi við innganginn og missti fyrir vikið af nafnakallinu og fékk ekki að taka þátt í mótinu.

Einar er gífurlega skipulagður. Daðrar við fullkomnun á því sviði. Hann er líka góður námsmaður. Háskólaglósur hans eru gott dæmi um skipulagsgáfuna. Þær minna helst á listaverk. Svo vel er öllu haldið til haga. Sama má segja um fjölskyldumyndböndin, þau eru öll merkt í bak og fyrir. Og þar fram eftir götunum.

Einar hefur líka mjög ríka réttlætiskennd. Það hefur bæði skaðað hann og komið honum vel. Einu sinni gerðist það að Jan Železný setti heimsmet í spjótkasti á móti en kastið var dæmt ógilt, þar sem bolurinn hans, sem var víður, lafði fram yfir línuna og straukst við jörðina. Þetta var frægt. Eini maðurinn sem mótmælti þessu var Einar sem fór upp á háa c-ið við dómarana. Allir hinir spjótkastararnir voru bara fegnir. Upp frá þessu varð þeim Železný mjög vel til vina og þegar Železný varð ólympíumeistari 1992 gaf hann Einari sérhönnuð Rayban-gleraugu sem hann fékk í sigurlaun.

Besti árangur Einars á stórmóti var sjötta sætið á ólympíuleikunum í Los Angeles 1984. Það er auðvitað frábær árangur en það er hins vegar ekkert launungarmál að Einar stefndi hærra. Og auðvitað hefði hann átti skilið að "landa einum stórum". En það tókst ekki og við stríðum honum stundum góðlátlega á því. Ég held að þetta sitji samt ekki í honum. Hann heldur alveg svefni þótt hann hafi ekki orðið heims- eða ólympíumeistari. Þá komum við að enn einum kosti hans. Einar er mjög raunsær og jarðbundinn. Hann veit að þetta fór svona og því verður ekki breytt. Enda getur hann heldur betur verið stoltur af sínum ferli, ég held til dæmis að enginn íslenskur íþróttamaður hafi unnið fleiri mót.

Eins og ég segi er Einari stundum strítt á þessu með stórmótin. Honum er samt strítt meira á því þegar hann braut handriðið í beinni útsendingu hjá Hemma Gunn. Hann átti þá að spila á gítar og syngja frumsamið lag í þættinum "Á tali" en innkoman var sumsé með þeim ósköpum að hann rak sig í handrið og braut það. Þetta sló Einar svolítið út af laginu og hann ruglaðist þrisvar meðan á flutningnum stóð. Við Hemmi rifjum þetta stundum upp og höfum gaman af.

Annars er Einar mjög músíkalskur og hefur samið fjölmörg lög á gítarinn. Hann er svolítill Johnny Cash í sér. Það eru alltaf skýr skilaboð í textunum. Ég held samt að hugur hans hafi aldrei stefnt í þá átt. Íþróttir eru hans ær og kýr. Það eru enn mikil átök í ræktinni og ég sakna þess að hafa ekki tíma til að æfa með honum í seinni tíð. En þegar við bræðurnir komum saman er yfirleitt fundið upp á einhverri keppni, svo sem skák. Þetta er í blóðinu. Og börnin hans Einars hafa ekki farið varhluta af því. Hann á þrjú börn og þau eru öll á bólakafi í íþróttum.

Gallinn við Einar er sá að hann getur verið svolítið utan við sig. Hann er mikill heimspekingur og á það til að gleyma sér í allskonar pælingum. Maður situr kannski með Einari og er að ræða einhverja hluti en áttar sig svo allt í einu á því að liðnir eru fimm tímar. Tímaskyn hans er svolítið brenglað. Hann segist kannski ætla að skreppa í tíu mínútur en kemur aftur eftir 45. Og trúir því svo vitaskuld ekki (hlær).

Einar hefur einstakt lag á því að setja sig inn í hluti. Eftir að ég fór að vinna í sjónvarpi hefur hann fylgst mjög vel með mér og verið óþreytandi að gefa ráð. Hann hefur alveg ótrúlega oft mikið til síns máls sem er merkilegt því sjónvarp er býsna fjarri því sem hann hefur sjálfur fengist við gegnum tíðina. Hann getur sett sig inn í allt. Einar hefði hæglega getað skrifað Brian Tracy-bókina.

Einari vegnar vel í dag. Hann vinnur hjá fyrirtækinu Svefni og heilsu og er að klára MBA-námið í HR. Þannig að það er nóg að gera. En þannig vill Einar hafa það. Ég veit ekki hvað hann hyggst gera eftir námið en hef engar áhyggjur af því. Einar Vilhjálmsson er fær í flestan sjó. | orri@mbl.is