— Morgunblaðið/Sverrir
FJÖLMARGAR matvöruverslanir voru opnar á föstudaginn langa og nýttu landsmenn sér þessa auknu þjónustu óspart, en lögum um helgidagafrið var breytt í maí í fyrra. Einnig verður opið í mörgum matvöruverslunum á páskadag. Emil B.
FJÖLMARGAR matvöruverslanir voru opnar á föstudaginn langa og nýttu landsmenn sér þessa auknu þjónustu óspart, en lögum um helgidagafrið var breytt í maí í fyrra. Einnig verður opið í mörgum matvöruverslunum á páskadag.

Emil B. Karlsson, verkefnastjóri hjá Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ), segir breytinguna í takt við þarfir markaðarins. Það séu hagsmunir verslunarfólks að veita góða þjónustu og sinna eftirspurninni eftir þjónustu á þessum dögum. "Þessum lögum var breytt aðallega vegna hvítasunnuhelgarinnar, en fólk sem er á ferðalögum vildi geta verslað á þessum dögum," segir Emil.

"Þegar upp komu kröfur um það að hafa opið á þessum tíma var það okkar niðurstaða að við óskuðum eftir því við dómsmálaráðherra að lögunum yrði breytt."

Við breytinguna á lögunum um helgidagafrið bættist undanþága vegna starfsemi matvöruverslana með verslunarrými undir 600 fermetrum þar sem a.m.k. 2/3 hlutar veltunnar er sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki við undanþágur frá starfsbanni á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Þannig mega nú matvöruverslanir hafa opið 364 daga á ári, eða alla daga nema jóladag.