Guðjón A. Kristjánsson
Guðjón A. Kristjánsson
Guðjón A. Kristjánsson skrifar um skerðingarreglur bóta aldraðra og öryrkja: "Skerðingarreglan er mjög ósanngjörn..."
VANDAMÁLIÐ, sem hingað til hefur snúið að bótaþegum sem eiga rétt á lágmarkstryggingabótum frá TR, þ.e. eldri borgurum og öryrkjum, hefur nú snúist upp í innbyrðis vanda Tryggingastofnunar. Starfsfólkið þar vinnur eins og hægt er við að leysa vandann en flækjureglur og lög auka vinnuálagið og bæta ekki afkomu þeirra sem skertar bætur fá. Á undanförnum árum hefur lágmarkstryggingaréttur þessara þjóðfélagshópa verið skertur, eins og þekkt er, um 45% vegna atvinnutekna þannig að lækkun útgreiddra bóta er um 4.500 kr. fyrir hverjar þær 10 þús. krónur sem eldri borgari eða öryrki vinnur fyrir.

Lífeyrissjóður skerðir bætur

Tekjur úr lífeyrissjóði viðkomandi til sama fólks skerða allar bætur nema grunnlífeyririnn eftir sömu reglu. Fjármagnstekjur einstaklings skerða bætur frá Tryggingastofnun að hálfu miðað við aðrar tekjur, þ.e. í þær skal deilt með tveimur áður en bætur eru skertar.

Árið 2003 voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar sem fólu það í sér að upp var tekinn endurreikningur bóta með því að byggja á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega. Þær flóknu reglur sem gilt hafa um bætur lífeyris frá TR hafa nú vaxið stofnuninni yfir höfuð. Sú mikla skerðing sem lífeyrisþegar verða fyrir á bótagreiðslum frá TR, hafi þeir einhverjar tekjur, hefur verið mikið til umræðu hjá samtökum eldri borgara og öryrkja á undanförnum árum. Þetta kerfi er nú orðið að sérstökum vanda innanbúðar í vinnuferli Tryggingastofnunar ríkisins þar sem menn ráða ekki lengur við að leysa þær flækjur og vandamál sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir að setja í lög og reglur.

Ofgreiddar bætur

Umboðsmaður Alþingis hefur vakið athygli hæstvirts heilbrigðis- og tryggingaráðherra á þeirri stöðu að lífeyrisþegar, sem fengu eitthvað ofgreitt árið 2004 og voru krafðir um endurgreiðslu árið 2005 en áttu andmælarétt, hefðu ekki fengið neina úrlausn sinna mála og engin svör frá Tryggingastofnun. Yfir 1.000 andmæli bárust stofnuninni vegna endurgreiðslukröfu á hendur lífeyrisþega. Upplýst er að vinna sé hafin við að skoða þessi andmæli en sú vinna er á algjöru frumstigi nú á öðrum ársfjórðungi 2006. Tryggingastofnun ríkisins telur orsakir þessa vera fyrst og fremst af manneklu og þá ekki síður fjárskorti og einnig því að aðlaga hafi þurft tölvukerfi stofnunarinnar þessu nýja verkefni um að skerða tekjur bótaþega. Í því sambandi má minna á að Tryggingastofnun hefur á undanförnum árum fengið mörg hundruð milljónir í hönnun tölvukerfis, bæði á fjárlögum og aukafjárlögum, nú síðast 75 milljónir króna í aukafjárlögum árið 2005. Heilbrigðisráðherra skýrði frá því að nýlega hafi þrír starfsmenn verið ráðnir og það þurfi að fjölga þeim enn meira og styrkja starfsemi Tryggingastofnunar. Þar starfa nú 195 manns eins og árið á undan en verkefni hafa aukist. Ráðherra greindi frá því að verkefni stofnunarinnar hafi aukist samhliða lögum um almannatryggingar frá 2003. Stjórnvöld þurfa að horfast í augu við það að lög og reglur auka verkin sem nú liggja fyrir.

Daprar aðstæður

Miðað við svarbréf Tryggingastofnunar til umboðsmanns Alþingis þá munu enn líða 6-8 mánuðir miðað við verkefnastöðu áður en unnt er að svara þeim 1.000 andmælabréfum sem Tryggingastofnun hefur borist. Í svarbréfi Tryggingastofnunar sem undirritað er af forstjóra stofnunarinnar til umboðsmanns Alþingis segir orðrétt: "Tryggingastofnun hefur ítrekað gert viðkomandi ráðuneyti grein fyrir stöðu mála, óskað leyfis til að ráða fleira fólk til að vinna mál, án árangurs. Ekki hefur andmælendum verið gerð grein fyrir þessu enn vegna vonar um að úrbætur fáist. Það er dapurt að starfa við þessar aðstæður, en vissulega verra fyrir okkar skjólstæðinga."

Vegna þessa flækjukerfis sem löggjöfin hefur markað um rétt eldri borgara og öryrkja verða þeir þolendur mikils óréttlætis. Það birtist í því réttleysi að bótaþegar tapa mestu af tekjum sínum í skerðingarreglum hjá Tryggingastofnun og sköttum sem samanlagt færa yfir 8.000 krónur af hverjum 10.000 kr. aftur til ríkissjóðs. Allt þar til samsettar lágmarksbætur hafa lækkað úr 108.000 kr. á mánuði niður í skattleysismörk sem eru vegna of lágs persónuafsláttar enn þá undir 80.000 kr. á mánuði. Vandinn af flækjuregluverkinu er orðinn ofviða starfsfólki Tryggingastofnunar eins og málum er háttað.

Ósanngjarnar skerðingar

Skerðingarreglan er mjög ósanngjörn og heldur öldruðum og öryrkjum við fátæktarmörk þar sem tekjur og lífeyristekjur geta eytt öllum bótum almannatrygginga til aldraðra og öryrkja. Sex sinnum höfum við í Frjálslynda flokknum, á jafnmörgum þingum, flutt mál um tryggan lágmarkslífeyri fólks. Það gengur út á að afnema alla skerðingu á bótum almannatrygginga ef tekjur úr lífeyrissjóði eru undir 50 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingum, og síðan þrepaða skerðingu fyrir tekjur úr lífeyrissjóði á bilinu 50-100 þús. kr. á mánuði þegar aftur væri komið að 45% skerðingu yrði eins og nú er.

Það væri mikil kjarabót að slíku. Það myndi þýða að þeir sem lægstar hafa afkomutekjur hér á landi yrðu ekki fyrir þeirri bröttu skerðingu sem verður núna þegar fyrsti þúsundkallinn skerðir samsettar lágmarksbætur þeirra með 45% reglunni. Það er í hvert skipti sem eldri borgari eða öryrki fær þúsund krónur til viðbótar, annaðhvort í laun eða sem bætur úr lífeyrissjóði sínum missir hann 450 kr. af bótunum frá Tryggingastofnun.

Eigum við ekki frekar að einfalda og lagfæra lögin og regluverkið í stað þess að auka vandann og fjölga starfsfólki Tryggingastofnunar?

Höfundur er alþingismaður.