[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Morgunblaðinu á skírdag var skýrt frá því, að í enn einni nýrri skýrslu um íslenzka bankakerfið, að þessu sinni frá greiningardeild Barclays Capital, væri að finna harða gagnrýni á íslenzka Fjármálaeftirlitið.
Í Morgunblaðinu á skírdag var skýrt frá því, að í enn einni nýrri skýrslu um íslenzka bankakerfið, að þessu sinni frá greiningardeild Barclays Capital, væri að finna harða gagnrýni á íslenzka Fjármálaeftirlitið.

Sagt var að Fjármálaeftirlitið væri sér að mestu ómeðvitað um helztu áhættuþætti bankanna, sérstaklega skuldsetningu þeirra og eiginfjárstöðu. Fjármálaeftirlitið skorti viðmiðunarreglur hvað þetta varðar. Jafnframt kom fram sú furðulega athugasemd, að tungumálaörðugleikar hefðu komið fram á fundi fulltrúa Barclays Capital með fulltrúum Fjármálaeftirlits.

Í umræðum undanfarinna vikna og mánaða um stöðu íslenzku bankanna í ljósi endurtekinna athugasemda frá greiningadeildum allmargra fjármálafyrirtækja bæði austan hafs og vestan hefur komið skýrt fram, að það skipti miklu máli fyrir fjármálakerfi allra landa að fjármálaeftirlit í viðkomandi landi njóti virðingar og trausts. Það eitt út af fyrir sig auki traust viðskiptaaðila á bönkum og fjármálafyrirtækjum í viðkomandi löndum. Sérstaklega hefur verið til þess tekið, að danska fjármálaeftirlitið njóti víðtæks trausts í hinum alþjóðlega fjármálaheimi, sem m.a. leiði til þess að danski FIH bankinn, sem er í eigu Kaupþings banka, búi við meira traust og betri lánakjör en ella.

Athugasemdir Barclays Capital við íslenzka Fjármálaeftirlitið benda til þess, að fundur fulltrúa þess fyrirtækis með Fjármálaeftirlitinu hér hafi gengið illa. Hvort sem um er að ræða sanngjarnar athugasemdir eða ekki fer ekki á milli mála, að úr því upplifun fulltrúa hins brezka fjármálafyrirtækis hefur verið sú, sem lýst er í skýrslu þess er það vandamál út af fyrir sig, ekki bara fyrir Fjármálaeftirlitið heldur íslenzka fjármálakerfið í heild.

Sú var tíðin, að Fjármálaeftirlitið var hluti af Seðlabanka Íslands. Síðan var tekið ákvörðun um að gera það að sjálfstæðri stofnun. Spurning er hvort það var rétt ákvörðun. Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, gerði þetta mál að umtalsefni í ræðu sinni á ársfundi bankans fyrir skömmu og vakti það athygli fundarmanna.

Þess verður vart í bankakerfinu hér, að stuðningur er við það, að Fjármálaeftirlitið verði sameinað Seðlabankanum á nýjan leik. Ástæðan er einfaldlega sú, að þetta eru svo litlar einingar hér að þær eru þegar af þeim sökum vanmáttugar til þess að axla þá ábyrgð, sem að þeim snýr. Í þessu sambandi er ástæða til að benda á að í skýrslu Barclays Capital er farið viðurkenningarorðum um Seðlabanka Íslands.

Þess vegna er það áleitin spurning, hvort ekki er tilefni til og tímabært að sameina Seðlabanka og Fjármálaeftirlit m.a. sem aðgerð til þess að auka traust á íslenzka bankakerfinu. Í ljósi áframhaldandi umræðna um íslenzku bankana á erlendum vettvangi og hversu mikið er í húfi sýnist full ástæða til að taka skjótar ákvarðanir um þetta mál en láta þær ekki dragast fram á haustið eða fram á næsta ár.

Í því sambandi er ástæða til að vekja athygli á tilkynningu, sem Kaupþing banki sendi frá sér sl. miðvikudag. Þar var frá því skýrt að bankinn hefði gefið út 500 milljón Bandaríkjadala skuldabréf til fimm ára, sem hefði öll verið seld til sama aðila. Ekki fékkst uppgefið með hvaða kjörum bankinn hefði selt þessi bréf.

En jafnframt kom fram í tilkynningu bankans, að ekki væri gert ráð fyrir að þeir bandarískir fjárfestar, sem eiga framlengjanleg skuldabréf muni framlengja bréfin hinn 20. apríl nk. Það þýði, að um 600 milljónir Bandaríkjadala komi til greiðslu vorið 2007. Ef rétt er skilið kemur það til viðbótar áþekkri upphæð, sem ekki hafði verið framlengd og Morgunblaðið skýrði frá fyrir nokkrum vikum.

Gera má ráð fyrir, að hið sama eigi við um sambærileg skuldabréf annarra íslenzkra fjármálafyrirtækja.

Þetta þýðir einfaldlega, að íslenzku bankarnir standa frammi fyrir mjög stóru verkefni við endurfjármögnun á skuldbindingum sínum á árinu 2007. Það hlýtur að verða bönkunum erfitt að fást við það verkefni nú um stundir í ljósi umræðna um stöðu þeirra í hinum alþjóðlega bankaheimi á undanförnum vikum og mánuðum.

Eitt af því, sem gæti auðveldað þeim það eru aðgerðir á fjármálamarkaðnum hér heima fyrir, sem líklegar eru til að auka traust til þeirra. Það á bæði við um aðgerðir, sem snúa beint að fjármálafyrirtækjunum hér en einnig almennar efnahagsaðgerðir, sem skapað geti meiri stöðugleika á ný í íslenzku efnahagslífi.

Sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlits gæti verið ein fyrsta aðgerðin af því tagi.

"Skortstöður"

Skortstöður eru nýtt hugtak í þjóðfélagsumræðum hér en hafa verið mjög til umræðu síðustu daga. Kannski er það til marks um sakleysi okkar eða sveitamennsku, að sennilega hafa fæstir Íslendingar utan fjármálageirans haft hugmynd um hvað í þessu orði fælist.

Nú hefur Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra brugðizt hart við og beint harkalegri gagnrýni að forráðamönnum Norska olíusjóðsins fyrir að hafa tekið skortstöðu gegn skuldabréfum íslenzku bankanna og átt þátt í að þau féllu í verði á eftirmarkaði. Hefur forsætisráðherra lýst þessari aðgerð Norðmanna sem fjandsamlegri aðgerð í garð okkar Íslendinga og hafa fleiri íslenzkir stjórnmálamenn tekið undir þá skoðun.

Í Morgunblaðinu á skírdag kom fram hjá forsætisráðherra, að hann hefði falið bankastjórn Seðlabankans að kanna sannleiksgildi orðróms þess efnis að bæði Danske Bank og hið heimsþekkta bandaríska fjármálafyrirtæki Merrill Lynch hefðu gert það sama. Sterkar líkur eru á, að svo hafi verið.

Um þetta sagði Halldór Ásgrímsson í samtali við Morgunblaðið á skírdag:

"Það er í sjálfu sér ekkert, sem bannar aðilum að taka slíka stöðu, en það sem er alvarlegt er, ef aðilar eru að gera úttekt á efnahagskerfi með mjög neikvæðum hætti, sem ekki á við rök að styðjast og síðan gerist það í framhaldi af því, að slík staða er tekin."

Enginn vafi er á því, að þessi afstaða forsætisráðherra mælist vel fyrir hér heima og hinn almenni borgari lítur áreiðanlega svo á, að ráðherrann sé með þessum hætti að taka upp hanzkann fyrir íslenzka fjármálakerfið og að eftir orðum hans sé tekið í stjórnarskrifstofum á öðrum Norðurlöndum. Hitt er meiri spurning, hvort við Íslendingar getum nokkur áhrif haft á viðskiptahætti sem þessa. Þeir hafa lengi tíðkazt í öðrum löndum og sennilega meiri líkur á að þeir breiðist út hingað m.a. á íslenzka hlutabréfamarkaðinn, en að frá þeim verði horfið. Þess ber einnig að geta að fyrir nokkrum árum fóru fram miklar umræður í Bandaríkjunum um hugsanlegt samspil greiningadeilda og annarrar starfsemi banka og þá ekki sízt fjárfestingabanka. Þær umræður leiddu til lagabreytinga, sem undirstrika sjálfstæði greiningadeildanna. Ef upp kæmist um einhvers konar samsæri greiningadeilda og annarrar starfsemi fjárfestingarbanka í Bandaríkjunum mundi það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi banka og starfsmenn hans.

Á fyrsta stigi þessara umræðna var haft orð á hugsanlegum þætti Norska olíusjóðsins í þeirri atburðarás, sem valdið hefur íslenzku bönkunum miklum erfiðleikum hér í Reykjavíkurbréfi. Það er hins vegar staðreynd, að Morgunblaðið hafði í margar vikur reynt árangurslaust að fá þessar fréttir staðfestar, þegar þær loks birtust í erlendu blaði. Jafnvel þótt vitneskja hafi legið fyrir í fjármálaheiminum hér um þátt Norska olíusjóðsins voru þeir, sem bjuggu yfir þeirri vitneskju ófáanlegir til að staðfesta hana opinberlega.

Það má því velta fyrir sér, hvort upplýsingastreymið frá alþjóðlegum fjármálamörkuðum sé alltof takmarkað hingað til lands enda kom í ljós að með nokkurri þekkingu mátti lesa út úr reikningum Norska olíusjóðsins hvað Norðmennirnir höfðu verið að gera.

Hinn alþjóðlegi fjármálaheimur er áreiðanlega mjög harður og þar vegur hver annan ef tækifæri eru til. Hætt er við, að íslenzku bankarnir, sem eru stórfyrirtæki á okkar mælikvarða en lítil fyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða, séu auðveld fórnarlömb þeirra, sem á annað borð veita þeim athygli. Og í þessu sambandi má ekki gleyma því, að það eru ekki bara útlendingar, sem stunda það að taka skortstöður. Íslendingar og íslenzk fyrirtæki stunda nú slík viðskipti og vel má vera, að einhverjir Íslendingar sem starfa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi hagnazt á vandamálum íslenzku bankanna á undanförnum vikum og mánuðum.

Ein kenning, sem uppi er um þessar mundir er sú, að upphafið að þessum vandamálum megi rekja til tilrauna erlends banka til að kaupa íslenzkan banka sl. haust en sú tilraun hafi farið út um þúfur. Á þeim tíma var uppi orðrómur í fjármálalífinu hér um að slík viðskipti gætu verið á næsta leiti. Sannleikskorn var í þessum orðrómi, þótt ekki yrði af viðskiptunum.

Nú velta menn því fyrir sér, hvort sá erlendi banki, sem hlut átti að máli hafi tekið til við aðgerðir til þess að lækka verðið á íslenzku bönkunum til þess að ódýrara verði að kaupa einhvern þeirra og eftirleikurinn verði almennt auðveldari. Það er ekki hægt að útiloka að þessi kenning sé rétt og að þetta hafi verið að gerast. Alla vega er ljóst að verðið á íslenzku bönkunum hefur lækkað verulega.

Á hinum opna markaði, sem við nú störfum á, er ekki hægt að útiloka að þetta gerist og að einn íslenzku bankanna eigi eftir að enda í eigu erlends banka. Með sama hætti og íslenzku bankarnir eru að kaupa banka í útlöndum má vel vera, að erlendir bankar sjái sér hag í því að kaupa íslenzkan banka. Í þessum efnum sem flestum öðrum ríkir gagnkvæmni á milli landa. Það er bara í íslenzkum sjávarútvegi, sem slík gagnkvæmni ríkir ekki.

Ef þetta gerðist er spurning hver viðbrögðin ættu að vera. Væri þá skynsamlegt t.d. að sameina þá tvo banka, sem eftir væru til þess að það væri þó einn öflugur banki í íslenzkri eigu?

Að bregðast við með auðmýkt

Í samtali við Morgunblaðið á skírdag segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, m.a.:

"Nú heyrast efasemdarraddir og það er ekkert óeðlilegt. Við eigum að bregðast við því með ákveðinni auðmýkt og athuga hvað við getum gert betur og hvað það er sem við þurfum að laga. Það hafa verið nefndir ákveðnir þættir í skýrslum greiningadeilda og lánshæfismatsfyrirtækja, sem við þurfum að taka tillit til. Hér má nefna þætti eins og gagnkvæmt eignarhald, það hversu fáir leikendur eru á fjármálasviðinu og að það sé jafnvel samspil milli lánveitinga til hluthafa, sem þykir óæskilegt. Auk þess hafa ýmis tæknileg atriði verið nefnd til sögunnar, svo sem aðferðir við uppgjör á hlutabréfum, sem eru aðrar hér en á öllum þróuðum mörkuðum. Það ber að taka fram, að þessir agnúar á íslenzka kerfinu þýða ekki endilega að okkar kerfi sé verra heldur að það er öðru vísi en önnur. En þegar horft er á hlutina í stærra samhengi er ljóst að meira gegnsæi í starfsemi fyrirtækjanna er nauðsynlegt og meiri og betri upplýsingagjöf almennt."

Sú grundvallar afstaða, sem fram kemur í þessum orðum Bjarna Ármannssonar er áreiðanlega rétt. Forráðamenn bankanna hér verða að bregðast við með auðmýkt en ekki hroka. Þeir verða að hlusta og sýna að þeir taki mark á þeim athugasemdum, sem fram hafa komið. Sama afstaða hefur komið fram hjá Halldóri J. Kristjánssyni, bankastjóra Landsbanka Íslands, sem hefur t.d. bent á að tímabært væri að endurskoða þá viðskiptahætti, sem hér hafa verið við lýði varðandi framvirka samninga. Þótt slíkir samningar séu vel þekktir í öðrum löndum er nokkuð ljóst að framkvæmd þeirra hefur verið með öðrum hætti hér.

Fróðir menn hér, sem þekkja vel til þessara markaða, telja mikilvægt að forráðamenn bankanna gangi sjálfir á fund þeirra viðskiptaaðila á erlendum vettvangi, sem geta ráðið úrslitum um möguleika bankanna á endurfjármögnun á viðunandi kjörum, geri þeim nákvæma grein fyrir stöðu bankanna, svari öllum spurningum, sem að þeim er beint og dragi ekkert undan.

Einn þeirra Íslendinga sem þekkja vel til þessara markaða er Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, seðlabankastjóri og bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans. Það gæti verið ástæða til fyrir stjórnvöld að nýta sér þekkingu hans og ráðgjöf til þess að beina bankakerfinu hér inn á réttar brautir.

Sterk efnahagsstjórn

En jafnvel þótt forráðamenn íslenzku bankanna sýni erlendum viðskiptaaðilum alla þá auðmýkt, sem þeir geta fundið í sínu tilfinningalífi og komi fram nauðsynlegum breytingum til þess að koma til móts við þær athugasemdir og ábendingar, sem fram hafa komið í skýrslum erlendu greiningadeildanna mun það ekki duga til nema þess sjáist skýr merki, að Íslendingar búi nú við sterka efnahagsstjórn og þar er augljóslega hætta á ferðum.

Verðbólguþróunin er að fara úr böndum. Það er auðvitað augljóst að gengislækkun íslenzku krónunnar mun færa margt til betri vegar. Staða útflutningsgreinanna verður sterkari, það hægir á neyzluæðinu og viðskiptahallinn batnar. En á móti koma afleiðingar gengislækkunarinnar í stórhækkun verðtryggðra skulda og órói á vinnumarkaði, sem mun gera kjarasamninga sem framundan eru erfiðari viðfangs.

Ríkisstjórnin þarf að sýna það með áberandi hætti að hún taki þennan vanda föstum tökum og í þeim efnum þýðir ekkert að reyna að fresta einhverjum óþægilegum aðgerðum fram yfir kosningarnar 2007. Það yrði einfaldlega of seint.

Það reynir því ekki bara á hina ungu forráðamanna íslenzku bankanna heldur ekki síður á ríkisstjórnina. Þar er saman kominn hópur manna, sem hefur mikla reynslu af öldugangi efnahagslífs okkar og atvinnulífs. Það á ekki sízt við um forsætisráðherrann sjálfan, sem hefur kynnzt mörgu á sínum ráðherraferli. Þess vegna verður að ætla að ríkisstjórnin taki fast á í nálægri framtíð.