— Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Líklega hefur Carlton Cole Magee fleiri gramar sálir á samviskunni en margur annar. Árið 1932 fann hann upp fyrsta stöðumælinn sem leiddi af sér stöðumælasektir við takmarkaða hrifningu flestra þeirra sem þær hlutu.
Líklega hefur Carlton Cole Magee fleiri gramar sálir á samviskunni en margur annar. Árið 1932 fann hann upp fyrsta stöðumælinn sem leiddi af sér stöðumælasektir við takmarkaða hrifningu flestra þeirra sem þær hlutu. Þá þegar voru farin að skapast þrengsl á strætum og torgum víða í Bandaríkjunum vegna kyrrstæðra bifreiða.

Magee fékk einkaleyfi fyrir uppfinningu sinni 1935 og setti á laggirnar fyrirtækið Magee-Hale Park-O-Meter Company í því skyni að fjöldaframleiða stöðumæla og þeir fyrstu voru framleiddir í verksmiðjum hans Tulsa og í Oklahoma City. Síðarnefnda borgin fékk þann vafasama heiður árið 1935 að verða fyrst til að tefla fram þessum klinkþyrstu þjónum við fjölfarnar götur.

Það væri synd að segja að almenningur hefði tekið þessu uppátæki með fögnuði því oft á tíðum mættu þau andstöðu, jafnvel svo mikilli að sjálfskipaðar löggæslusveitir gerðu tilraunir til að útrýma öllum stöðumælum sem þær komust í tæri við. Sú barátta reyndist hins vegar vonlaus eins og sagan hefur kennt okkur síðar.

Eftir því sem fram liðu stundir breytti Magee nafni fyrirtækisins í POM Company þar sem skammstöfunin stóð fyrir bandarískt heiti stöðumælanna, Park-O-Meter. Árið 1992 hóf POM markaðssetningu og sölu á fyrstu rafrænu stöðumælunum sem buðu upp á nýjungar eins og peningaraufar sem ekki kröfðust þess að notandinn trekkti upp mælinn með handafli. Þá gátu kaupendur mælanna valið milli þess hvort þeir gengu fyrir sólarorku eða batteríum.