ATVINNULEYSI mældist aðeins 1,5% í mars og lækkar um 0,1 prósentustig frá fyrra mánuði. Í mars voru að meðaltali 2.183 manns á atvinnuleysisskrá, sem er að meðaltali 155 færri en í febrúar síðastliðnum. Í mars í fyrra mældist atvinnuleysi 2,6%.
ATVINNULEYSI mældist aðeins 1,5% í mars og lækkar um 0,1 prósentustig frá fyrra mánuði. Í mars voru að meðaltali 2.183 manns á atvinnuleysisskrá, sem er að meðaltali 155 færri en í febrúar síðastliðnum. Í mars í fyrra mældist atvinnuleysi 2,6%.

Vinnumálastofnun segir að litlar breytingar séu yfirleitt frá mars til apríl. Atvinnuleysið var 2,3% í apríl í fyrra. Laus störf í lok mars 2006 voru 792 og fjölgaði um 64 milli mánaða. Fjöldi atvinnulausra var 7% minni í apríl 2005 en í mars 2005 og 1,8% fækkun í apríl frá því í mars á árinu 2004. Líklegt sé að atvinnuleysið í apríl muni minnka og verða á bilinu 1,2%-1,5%.

Atvinnuleysi nú í mars mældist 1,3% á höfuðborgarsvæðinu og 1,7% á landsbyggðinni. Mest var atvinnuleysi á Norðurlandi eystra, eða 2,7%, en minnst á Austurlandi, eða 0,7%.

Þá kemur fram í skýrslu stofnunarinnar, að langtímaatvinnuleysi, þ.e. þeir einstaklingar sem hafa verið atvinnulausir lengur en í 6 mánuði, hafi aukist lítillega í mars eftir að hafa farið minnkandi undanfarið. Í mars voru um 682 manns langtímaatvinnulausir samanborið við 1.464 á sama tíma í fyrra, sem er svipað og var á árinu 2002. Vinnumálastofnun segir að búast megi við nokkurri fjölgun þeirra næstu mánuði, en langtímaatvinnulausum hafi síðustu ár jafnan fjölgað nokkuð á vormánuðum og fram á sumar.