Stefán Kristjánsson náði SM-áfanga í Búdapest.
Stefán Kristjánsson náði SM-áfanga í Búdapest.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Apríl 2006
FYRIR utan íslenska stórmeistara náði enginn íslenskur skákmaður áfanga að stórmeistaratitli um langt árabil fyrr en alþjóðlegi meistarinn Stefán Kristjánsson (2.480) braut ísinn í ársbyrjun 2005 á alþjóðlegu móti í Drammen í Noregi. Síðan þá hefur stigatala hans hækkað hægt og sígandi og stundum hefur hann verið nálægt því að bæta öðrum áfanga í safnið. Á fyrsta laugardagsmótinu sem lauk í vikunni í Búdapest rann stóra stundin upp þegar hann tryggði sér efsta sætið á mótinu ásamt serbneska stórmeistaranum Zlatko Ilincic (2.536) og landaði sínum öðrum stórmeistaraáfanga. Þessi glæsilegi árangur Stefáns sýnir svo ekki verður um villst að hann er kominn í fremstu röð íslenskra skákmanna og að ef að líkum lætur mun hann verða stórmeistari í skák áður en langt um líður.

Stefán hafði sjö vinninga af tíu mögulegum fyrir lokaumferðina en í henni hafði hann svart gegn tyrkneska alþjóðlega meistaranum Adnan Sendur (2.411) og varð Íslendingurinn knái að vinna skákina til að ná settu marki.

Hvítt: Adnan Sendur (2.411)

Svart: Stefán Kristjánsson (2.480)

1. d4 Rf6 2. Bg5 e6 3. e4 h6 4. Bxf6 Dxf6 5. c3 d6 6. Bd3 Dg5 7. Kf1

Óvenjulegur leikur. 7. g3 virðist nærtækari.

7....Rc6 8. h4 Df6 9. Ra3 Bd7 10. Rb5 Dd8 11. Dc2 e5!

Lipurlega teflt þar sem svartur getur með þessu tryggt sér betri fótfestu á miðborðinu og náð sterkum tökum á svörtu reitunum í ljósi þess að hvítur hefur ekki svartreita biskup.

12. d5 Rb8 13. f3?! Be7 14. h5?! 0-0 15. c4 Ra6! 16. a3 Rc5 17. Re2

Svartur hefur teflt vandað á meðan hvítur hefur veikt stöðu sína með vafasömum peðsleikjum á borð við f2-f3 og h4-h5. Næsti leikur svarts tryggir honum rými á kóngsvæng og það gerir stöðu hvíts varhugaverða.

17....f5! 18. Rbc3 f4 19. Hb1?!

19. b4 hefði haldið frumkvæði hvíts í skefjum.

19....Be8! 20. b4 Rd7 21. Rc1?!

21. Dd1 var ill nauðsyn þar eð nú fellur peð hvíts á h-línunni og eftir það nær svartur sókn á kóngsvæng sem erfitt var að stöðva.

21....Rf6 22. Rb3 Rxh5 23. Re2 Bh4 24. c5 g5 25. b5 g4 26. Hc1 gxf3 27. gxf3 Hf7 28. Hh3 Bd7! 29. Hh2 Hg7 30. Ra5 Dg5

Hvítur gafst upp enda yrði hann mát eftir t.d. 31. Rxb7 Bh3+ 32. Hxh3 Dg2#. Þessi lokastaða mun án efa vera Stefáni lengi í minnum höfð enda sýnir hún fram á algjört varnarleysi andstæðingsins, með henni tryggði hann sér sigur á móti og náði áfanga að stórmeistaratitli!

Frammistaða Dags Arngrímssonar (2.267) í AM-flokknum var einnig til fyrirmyndar en hann varð einn efstur í flokknum með 9½ vinning af 13 mögulegum. Eins og áður hefur fram komið náði hann áfanga að alþjóðlegum meistaratitli í níundu umferð mótsins svo að þeir félagar komu, sáu og sigruðu.

KB-mótið í fullum gangi

Þegar fimm umferðum af níu var lokið á KB-móti Taflfélagsins Hellis voru íslensku skákmennirnir Björn Þorfinnsson (2.331) og Sigurður Daði Sigfússon (2.309) jafnir og efstir með 4 vinninga en á eftir þeim koma alþjóðlegu meistararnir John Shaw (2.439) frá Skotlandi og Graeme Buckley (2.398) frá Englandi með 3½ vinning. Shaw vann fyrstu þrjár skákir sínar og voru lukkudísirnar þá á hans bandi. Sem dæmi um þetta má nefna skák hans við Sigurbjörn Björnsson (2.335) en þegar Skotinn hafði leikið sínum fertugasta leik með hvítu kom neðangreind staða upp:

Svartur stendur vel að vígi eftir 40....De3 en í stað þess lék Sigurbjörn 40....axb5?? 41. Hd1! og svartur gafst upp þar sem hvítur hótar drottningunni og ef hún víkur verður svartur mát.

Sigurður Daði náði fram hefndum fyrir félaga sinn þegar hann bar sigurorð af Skotanum seiga í fimmtu umferð. Taflmennska Sigurðar Daða og Björns hefur verið vönduð á mótinu hingað til svo að með sama áframhaldi ættu þeir að eiga góða möguleika á að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli en til þess þurfa þeir að fá 6½ vinning. Meðalstig mótsins eru 2.295 og verður spennandi að fylgjast með íslensku keppendunum á endasprettinum en mótinu lýkur annan í páskum. Nánari upplýsingar mótið er m.a. að finna á heimasíðu Hellis, www.hellir.com.

HELGI ÁSS GRÉTARSSON (daggi@internet.is)