Sigurður Guðmundsson
Sigurður Guðmundsson
SKORTUR á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum verður enn meira vandamál í náinni framtíð ef ekkert verður að gert, að því er fram kemur í greinargerð Sigurðar Guðmundssonar landlæknis á heimasíðu embættisins.
SKORTUR á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum verður enn meira vandamál í náinni framtíð ef ekkert verður að gert, að því er fram kemur í greinargerð Sigurðar Guðmundssonar landlæknis á heimasíðu embættisins. Þessi niðurstaða er samkvæmt mannaflaspá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið er að vinna.

Í greinargerð landlæknis kemur fram að "um 500 íslenskir hjúkrunarfræðingar eru ekki í starfi sem slíkir og er eftir miklu að slægjast að reyna að fá einhverja þeirra til starfa. Sókn í nám í hjúkrunarfræði hér er mun meira en Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri útskrifa. Miðað við núverandi fjöldatakmarkanir er unnt að útskrifa tæplega 120 hjúkrunarfræðinga árlega, en fyrir 6-7 árum var þörf áætluð um 130-140, og allt bendir til að þörfin sé meiri nú."

Landlæknir skrifar að skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum hafi verið langvinnur og landlægur hér á landi og í ýmsum öðrum löndum. "Á Íslandi eru færri hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar starfandi en á öðrum Norðurlöndum og er munurinn tvö- til þrefaldur þar sem mestu munar. Mönnunin er best í Noregi og Svíþjóð en í Danmörku, Finnlandi og Íslandi er hún mun minni og áþekk."

Þessi mál hafa talsvert verið rædd undanfarið, m.a. á fundi hjúkrunarráðs Landspítalans (LSH) og á fundi heilbrigðisráðuneytisins í tilefni Alþjóðaheilbrigðisdagsins. "Þar kom fram að mælt vinnuálag á LSH hefur aukist, starfsfólk sinnir veikari sjúklingum en áður og þekkt eru dæmi um að starfsmenn á einni deild hafi þurft að bæta við sig og deila með sér um 50 aukavöktum á mánuði," segir í greinargerðinni. Þá er tekið fram að þrátt fyrir þetta hafi starfsmannavelta verið fremur lítil. Það kann að hafa áhrif á starfsmannaveltuna að LSH er stærsta heilbrigðisstofnun landsins og eina háskólasjúkrahúsið.

Lengur í öndunarvélum en efni stóðu til

"Á ofangreindum fundum lýstu þeir sem til máls tóku áhyggjum af þessu og var áberandi hve hjúkrunarstjórnendur og almennir hjúkrunarfræðingar LSH töluðu þar einu máli. Í fjölmiðlum hefur sérstaklega verið rætt um, umfram annað, að dæmi séu um að sjúklingar hafi verið lengur í öndunarvélum en efni stóðu til vegna manneklu. Þetta er rétt, en ekki hefur munað þar nema fáeinum klukkutímum."

Landlæknir endar greinargerð sína á því að mikilvægt sé að horfast í augu við skort á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. "Hann getur haft áhrif á gæði heilbrigðisþjónustu og dregið úr öryggi sjúklinga. Engin efni eru til annars en að hérlendis sé vilji og tækifæri til að takast á við þennan vanda." | 37