Segolene Royal flytur ávarp fyrir Sósíalistaflokkinn á stjórnmálafundi í Vitrolle í Suður-Frakklandi. Hún er orðuð við forsetaframboð á næsta ári og þykir höfða til kjósenda bæði til vinstri og hægri.
Segolene Royal flytur ávarp fyrir Sósíalistaflokkinn á stjórnmálafundi í Vitrolle í Suður-Frakklandi. Hún er orðuð við forsetaframboð á næsta ári og þykir höfða til kjósenda bæði til vinstri og hægri. — Reuters
Nafn Segolene Royal heyrist æ oftar nefnt í sambandi við komandi forsetakosningar í Frakklandi.

Nafn Segolene Royal heyrist æ oftar nefnt í sambandi við komandi forsetakosningar í Frakklandi. Hún þykir eiga góða möguleika ákveði hún á annað borð að fara fram og sýndi áhuginn á henni sig í því að fyrir rúmri viku var hún á forsíðu fjögurra helstu tímarita Frakklands. Sara Kolka fjallar um Royal.

Segolene Royal er ein skærasta stjarna Frakklands á pólitíska sviðinu. Þrátt fyrir að hafa ekki gefið upp hver hennar helstu baráttumál kunna að vera og án þess að hafa gefið nokkur merki um að hún hyggi á að leita eftir tilnefningu Sósíalistaflokksins um að verða forsetaefni hans næsta vor er hún efst í öllum skoðanakönnunum. Frakkar virðast setja á hana allt sitt traust um að bæta efnahag landsins og efla atvinnulífið, einmitt þegar vinsældir efstu manna hægri flokksins UMP hafa hrunið vegna vinnulöggjafarklúðursins.

Fimmtudaginn 6. apríl birtist Royal á forsíðum fjögurra vikublaða, Paris Match , Nouvel Observateur , Le point og VSD ásamt því að veita TF1 sjónvarpsstöðinni einkaviðtal í átta-fréttatímanum.

Þar sem hún hafði haft fremur hægt um sig í þeirri miklu pólitísku kreppu sem hefur geisað í landinu vegna hinnar óvinsælu vinnulöggjafar Dominique de Villepin forsætisráðherra sem síðar var dregin til baka, áttu menn von á því að Royal myndi tilkynna opinberlega um áform sín um að taka þátt í forsetaslagnum. Eða að hún myndi að minnsta kosti vera harðorð í garð ríkisstjórnarinnar sem lengi vel hlustaði ekki á óánægjuraddirnar í þjóðfélaginu. Viðtalið olli nokkrum vonbrigðum þar sem ekkert kom fram um væntanlegt framboð Royal en hún þótti fremur óljós og jafnvel óörugg í svörum sínum. Þetta varð ekki til þess að fjölmiðlar misstu áhuga á henni og hafa vangaveltur um framboð hennar aukist ef eitthvað er.

Tími kvenna runninn upp

En hvað er það sem heillar Frakka við Segolene Royal? Fyrst og fremst staðreyndin að hún er kona, sem liggur í augum uppi og hún er ófeimin við að nýta sér það til að koma sér á framfæri. Þannig sagði hún í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali að tími kvenna væri runninn upp en það verður að teljast ansi takmarkað að ætla sér að komast áfram á kynferðinu einu. Hins vegar hafa fjölmiðlar leikið leikinn og þannig er Royal oft nefnd á nafn einungis með fornafni sínu, "Segolene" með næstum barnslegri væntumþykju þegar aðrir stjórnmálamenn eru nefndir ættarnöfnum sínum, samanber Villepin, Sarkozy og Chirac. Reyndar hefur borið á því að Sarkozy hafi verið kallaður "Nicolas" en þá er það jafnvel meint til þess að lítillækka viðkomandi.

"Hver á þá að sjá um börnin?"

Royal hefur starfað í pólitík í yfir 20 ár, verið ráðherra í ríkisstjórnum vinstri flokkanna og var einnig sérstakur ráðgjafi Francois Mitterrand, fyrrverandi forseta, í félagsmálum um árabil. Jafnframt því hefur henni tekist að ala upp fjögur börn og gefið fordæmi í jafnvægi milli fjölskyldu og frama til franskra kvenna, en það er algengt að franskar konur fari af vinnumarkaðnum í nokkur ár til að ala upp börn sín og sinna fjölskyldunni.

Sú almenna skoðun, sem okkur Íslendingum gæti fundist gamaldags, kom klárlega fram fyrir nokkrum mánuðum þegar flokksmaður Royal og fyrrverandi ráðherra, Laurent Fabius, spurði hver ætti að sjá um börnin ef hún byði sig fram til forsetaembættisins. Sú athugasemd hefði getað verið sett fram í ákveðnum tilgangi þar sem Fabius hyggur á mótframboð í kosningum Sósíalistaflokksins sem forsetaefni.

Staða Royal er einstök því að hún er gift formanni Sósíalistaflokksins, Francois Hollande, sem einnig hefur verið nefndur í sambandi við forsetaslaginn 2007. Fjölmiðlar gera sér mat úr því að fjölskyldulífið hljóti að vera erfitt með svo metnaðarfulla einstaklinga um borð. Þannig segir blaðið Le Point frá því þegar Mitterrand valdi Royal sem ráðherra í ríkisstjórn sinni en ekki Hollande, þar sem honum fannst ekki hægt að hafa hjón á sama tíma í ríkisstjórn. Einnig er sagt frá því að Hollande hafi ákveðið að styðja konu sínu til embættis ef hann telur að hún hafi mestu möguleikana á að vinna forsetakosningarnar fyrir vinstri flokkinn. En "sú ákvörðun verði tekin á faglegan hátt og muni ekki stjórnast af tilfinningasemi", á Hollande að hafa tilkynnt samkvæmt Le Point .

Ímyndin og fjölmiðlarnir

Le Monde segir frá því 9. apríl að Royal sé vinsæl hjá frönsku fjölmiðlunum en einnig hafi hún sést í auknum mæli í evrópskum dagblöðum. Þannig vöktu ummæli hennar í Financial Times, þar sem hún hældi Tony Blair og efnahagsstefnunni sem hann hefur leitt í Bretlandi, mikla athygli í Frakklandi og gætu hafa haft áhrif á ímyndina sem Royal virðist hafa meðal Frakka samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum.

Haft er eftir Royal í Le Monde að hún hafi engan sérstakan ráðgjafa til að vinna að ímynd sinni en heyrst hefur að fyrrverandi ímyndarráðgjafi Mitterrands forseta, Jacques Atali, hafi haft Royal í ströngum æfingabúðum síðustu vikur og gæti það útskýrt lítil afskipti hennar af vinnulöggjafarmálinu.

Hvað sem því líður er dagskrá Royal ókunn og enn óljóst hvaða málefni hún kann mögulega að setja á oddinn í forsetaslagnum, ef hún ákveður að bjóða sig fram. Sá leikur að svara sem minnstu hefur gagnast Royal vel og halda vinsældir hennar áfram að aukast jafnt og þétt. Þó eiga Frakkar erfitt með að aðgreina Segolene Royal frá hinum frambjóðendunum í forkosningum Sósíalistaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2007. Royal er eina konan á væntanlegum lista frambjóðenda enn sem komið er, hún virðist standa efsta manni hægri flokksins Nicolas Sarkozy á sporði, og hefur jafnvel eiginkona Jacques Chirac forseta, Bernadette Chirac sagt að það væri ánægjulegt ef Royal byði sig fram. Þannig höfðar Royal ekki einungis til vinstri vegna forsögu sinnar í félagsmálum og vilja til umbóta í skólakerfinu heldur er hún einnig vænlegur kostur til hægri. Hún þykir fremur íhaldssöm í fjölskyldumálum og jafnvel í útliti að mati Frakka, sem gæti því laðað að konur úr efri stéttum sem hingað til hafa kosið til hægri en eru orðnar leiðar á karlaveldinu.

Segolene Royal hefur verið lýst sem von Frakklands því hver og einn geti endurspeglað væntingar sínar í þessum eina frambjóðanda á tímum þar sem mikil óánægja ríkir með ákvarðanir og málflutning stjórnmálamanna. Royal virðist hafa með þögn sinni öðlast dygga stuðningsmenn sem bíða eftir að hún staðfesti vonir þeirra um betra og stöðugra Frakkland. Þær vonir geta lifað áfram þar til hún kýs að upplýsa þjóðina um raunveruleg áform sín.

sara@mbl.is