Af öllum þeim listamönnum sem Silja Aðalsteinsdóttir hefur átt þátt í að ýta út á hina þyrnum stráðu braut listarinnar er einn sem er öðruvísi en flestir hinna. Það er Bubbi Morthens. Hvers vegna öðruvísi?
Af öllum þeim listamönnum sem Silja Aðalsteinsdóttir hefur átt þátt í að ýta út á hina þyrnum stráðu braut listarinnar er einn sem er öðruvísi en flestir hinna. Það er Bubbi Morthens.

Hvers vegna öðruvísi?

Hann er líklega þekktari og stærri listamaður í þjóðarvitundinni en flestir rithöfundar og ljóðskáld sem Silja hefur átt samskipti við. Ef bókmenntaheimurinn er á góðum degi virðulegt stofusamkvæmi þar sem menn súpa te og tala saman á dempuðum nótum um greindarlega hluti þá er Bubbi fimm hundruð punda górillan sem vill fá athygli í samræmi við stærð sína.

Rokkarinn, gúanóskáldið, poppstjarna Íslands, konungur trúbadúranna og síðast en ekki síst maðurinn sem breytti íslenskri textagerð í tónlist. Hvernig kynntist hann Silju?

"Ég hitti Silju í fyrsta sinn í rútu á leið til Grindavíkur ásamt hópi fólks sem barðist fyrir réttindum farandverkafólks. Hún tók fullan þátt í því og okkur líkaði strax vel hvoru við annað," segir Bubbi sem telur sig muna að þetta hafi verið árið 1979 og ég heyri að Tolli bróðir er látinn vitna í bakgrunni um að það sé rétt munað.

"Silja heyrði mig syngja á þessum fundum fyrir verkafólkið og hún hafði síðan samband við mig og fékk mig til þess að koma fram og syngja í útvarpsþætti sem hún stjórnaði. Það var stóra breikið mitt í þessum bransa því þetta var eina útvarpsstöðin og allir hlustuðu. Þetta var niðri á Skúlagötu í gamla útvarpshúsinu og hún og Hreinn Valdimarsson tæknimaður báru ábyrgð á þessu."

Í þessum útvarpsþætti fékk þjóðin öll að heyra í manninum sem hefur sungið fyrir hana síðan og þetta markaði í vissum skilningi upphafið að ferli Bubba Morthens sem tónlistarmanns.

"Silja á stóran þátt í mínum ferli. Einhvern tímann eftir þetta hitti ég hana á götu og hún sagði mér að koma með textana mína til sín og sýna sér þá. Það varð upphafið að því að til þessa dags læt ég aldrei neitt frá mér fara án þess að Silja sé búin að heyra það, lesa yfir og leggja blessun sína yfir það.

Hún virtist sjá í mér eitthvað sem aðrir sáu ekki eins vel og hún varð mér ómetanleg hvatning til að semja og gera betur og hafa trú á því sem ég var að gera. Stundum kom ég með þetta á blaði en oft með gítarinn og söng fyrir Silju."

Eruð þið alltaf sammála?

"Ég tek leiðsögn ágætlega. Það er einn mikilvægasti lykillinn að því að vera listamaður. Ég ber mikla virðingu fyrir þekkingu Silju og innsæi svo þetta gengur yfirleitt ágætlega."

Silja og Bubbi áttu síðan náið samstarf með nýju sniði árið 1988 þegar Silja skrifaði bók um Bubba, ævisögu og þroskasögu listamanns. Hvernig gekk það?

"Það var fyrst og fremst æðislega skemmtilegt. Silja ferðaðist með okkur um allt land og við tókum hana með okkur á sæþotur og kenndum henni að skjóta úr haglabyssu.

Silja er guðsgjöf og hún er eins náin mér og hún væri móðir mín eða stóra systir. Við tölum mikið saman og oft um bækur. Ég les mikið og það er ofboðslega skemmtilegt að tala við Silju um bækur því hún þekkir þær svo vel og upplifir þær af svo mikilli ástríðu.

Ég er óendanlega þakklátur Guði fyrir að hafa sent þennan happafeng inn í líf mitt og þakklátur fyrir þau áhrif sem hún hefur haft á mig."