Víkverji gerði þá merku uppgötvun fyrir skemmstu að varla er að finna einn einasta hægrimann á Íslandi sem hefur látið sér vaxa skegg.
Víkverji gerði þá merku uppgötvun fyrir skemmstu að varla er að finna einn einasta hægrimann á Íslandi sem hefur látið sér vaxa skegg.

Víkverji bar þetta undir einn góðvin sinn, mikinn sjálfstæðismann úr Keflavík, sem gat aðeins munað eftir einum skeggjuðum sjálfstæðismanni: Alberti Eymundssyni, bæjarstjóra á Hornafirði.

Víkverja þykir furðu sæta að menn á hægri væng stjórnmálanna skuli vera svona vandlega rakaðir, á meðan svo margir á vinstri kantinum leyfa skegginu að vaxa.

Eftir örstutta heimsókn á Alþingisvefinn og ákaflega óvísindalega athugun kom í ljós að allmargir þingmenn eru með skegg, en allir eru þeir á miðju eða til vinstri. Má fyrsta nefna Guðjón A. Kristjánsson (Frjálsl.), Hjálmar Árnason (Framsfl.), Jóhann Ársælsson (Samf.) og Jón Bjarnason (Vinstri-gr.). Víkverja minnir líka sterklega að hann hafi séð bæði Lúðvík Bergvinsson (Samf.) og Magnús Stefánsson (Framsfl.) með nokkurra-daga-gamalt. Þá er enn ótalið skegg Steingríms J. Sigfússonar (Vinstri-gr.), skegg Ögmundar Jónassonar (Vinstri-gr.) og Össurar Skarphéðinssonar (Samf.).

Alls eru því níu af 42 alþingis-karlmönnum með skegg, eða rúmlega 21%, og enginn þeirra hægrimaður.

Enn athyglisverðara er að af þeim 23 karlmönnum sem sitja á þingi fyrir hægri- og miðjuflokka eru heil 43% skeggjuð!

Víkverji hefur enga kenningu um hvað veldur að hartnær helmingur þingmanna á miðju og til vinstri lætur sér vaxa skegg, á meðan enginn einasti gerir það á gervöllum hægrivæng stjórnmálanna, - nema auðvitað hann Albert á Hornafirði.

Á Íslandi hefur heldur ekki verið skeggjaður forsætisráðherra síðan í tíð Jóns Þorlákssonar, 1927. Þess er hins vegar gaman að geta að af fyrstu sjö forsætisráðherrum voru allir fagurskeggjaðir utan Sigurður Eggerz.

Svona getur verið gaman að skeggræða um pólitík.