— Ljósmynd: Árni Sæberg
Þ rír Frakkar við Baldursgötu er um margt ólíkur öðrum veitingastöðum í miðborginni. Þótt hann sé í hjarta 101 er hann inni í miðju íbúðahverfi, í rólegu umhverfi fjarri skarkala miðbæjarins. Þetta endurspeglast líka inni á staðnum.
Þ rír Frakkar við Baldursgötu er um margt ólíkur öðrum veitingastöðum í miðborginni. Þótt hann sé í hjarta 101 er hann inni í miðju íbúðahverfi, í rólegu umhverfi fjarri skarkala miðbæjarins. Þetta endurspeglast líka inni á staðnum. Hann er eins langt frá hinum hönnuðu hátískustöðum og hægt er að komast, jafnt í andrúmslofti sem matargerð.

Þegar Þrír Frakkar var opnaður fyrst á níunda áratugnum var þetta franskur bistro-staður í franskri eigu og frönskum stíl þar sem hægt var að fá sígilda lauksúpu og piparsteik. Eftir að Úlfar Eysteinsson hóf rekstur í sama húsnæði og undir sama nafni árið 1989 breytti hann um stefnu og úr varð íslenskur fiskréttastaður - einn af örfáum hreinræktuðum sjávarréttastöðum sem þessi mikla sjávarútvegsþjóð á.

Nánd á milli gesta | Andrúmsloftið er enn mjög í anda hinna upprunalegu frönsku þriggja Frakka, heimilislegt og hlýtt. Fatahengið er slá við dyrnar, það er setið þröngt við lítil borð í litlum herbergjum og nándin er mikil á milli gesta. Á veggjum myndir, speglar, uppstoppaðir fuglar og aðrir munir, borðbúnaður einfaldur og heimilislegur.

Matseðillinn er tvískiptur, annars vegar fastur seðill með sígildum réttum - hinu fræga hvalkjöti, fiskigratíni og plokkfiski. Síðastnefndi rétturinn er eflaust ástæða þess að margir sækja staðinn heim, jafnt í hádeginu sem á kvöldin. Plokkfiskurinn hans Úlfars kemst nálægt því að vera besti plokkfiskur í heim. Hins vegar eru réttir dagsins, sem taka breytingum eftir því hvert framboði er á sjávarfangi en heldur samt nokkurn veginn sama grunni.

Við byrjuðum á steiktum kóngakrabba í forrétt og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Krabbabitarnir steiktir í miklum hvítlauk með steinselju og rauðlauk. Hvítlaukurinn ráðandi án þess þó að verða yfirþyrmandi, krabbinn sjálfur mildur, hæfilega steiktur og ekki of mjúkur. Með þessu kartöflur og gulrætur sem eru gegnumgangandi meðlæti en einnig stökk, þunn polenta og stökkt salat.

Steiktur þorskurinn var stór biti úr flaki með stökku roði, ferskur og vel eldaður, syndandi í sætri sinneps-smjörsósu. Eldhúsið á Þremur Frökkum er ekkert að spara sósurnar - né rjómann í þeim og smjörið - sem margir kunna vel að meta. Þessi gamla og góða franska eldamennska fellur augljóslega vel í kramið hjá gestum, sem sést best á því hversu þéttsetinn staðurinn er allajafna.

Saltfiskur upp á íslenska mátann | Við fengum okkur einnig saltfisk og voru tvö stór stykki á diskinum - skammtarnir hér eru ekki skornir við nögl - og undir stykkjunum væn hrúga af steiktum furuhnetum og sérrílegnum rúsínum. Saltfiskurinn var nokkuð saltur - ekki útvatnaður að hætti Spánverja heldur matreiddur upp á íslenska mátann.

Eftirréttirnir hreinasta snilld. Mild skyrterta með góðum hjúp og botni og heit frönsk súkkulaðiterta. Heitar súkkulaðitertur hafa verið algengar á matseðlum undanfarin ár og vissulega hafa þær verið misgóðar, oft þurrar og leiðinlegar. Þessi hins vegar mjúk og alveg réttu hlutföllin á milli súkkulaðis, eggja og hveitis.

Vínseðillinn er þokkalegur - mætti þó vera aðeins meira í hann lagt. Þarna er þó hægt að fá ágætt Chablis en fá hvítvín eiga betur við með góðum sjávarréttum en Chardonnay-vínin frá þessu þorpi í norðurhluta Bourgogne. Vínin eru einnig í dýrari kantinum ólíkt matnum en verð á flestum réttum er vel viðunandi.

Það mætti einnig huga betur að uppfærslu á heimasíðu veitingahússins.

sts@mbl.is