Sænski karlakammerkórinn Svanholm Singers. Stjórnandi: Sofia Söderberg Eberhard. Laugardaginn 8. apríl kl. 17.
SÍAUKIN bábilja yngri Skandínavíubúa - að Íslendingar séu jafnfákunnandi í norrænum tungum og hinir þykjast sleipir í ensku - birtist eina ferðina enn á fremur fásóttum tónleikum Svanhólmssöngvaranna í Salnum á laugardag. Setti það álíka hvimleitt firringarbragð á frændþjóðafundinn og við fyrri slík tækifæri; síðast hvað karlakóra varðar þegar hinn finnski YL kom fram í Hallgrímskirkju sl. október. Studdi vel fyrrnefnda fullyrðingu um sjálfofmetna enskufærni Skandínava að heimaprjónuð lofrolla um afrek kórsins í annars upplýsingasnauðri tónleikaskrá Svanhólmssöngvaranna var svo viðvaningslega orðuð að maður hlaut að krumpa á sér tærnar við lesturinn. Þó má til sanns vegar færa að einn fjögurra kynna, er mælti með bandarískum hreimi, reyndist öðrum hagvanari í því ofurdáða hnattvæðingarmáli.

Að galli þurrausnu var sönn ánægja að söng hins 19 manna kammerkórs, þrátt fyrir aðeins átta ára feril og lágan meðalaldur eftir því. Tvennt vakti þó kannski mesta athygli í fyrstu. Annars vegar óvenjudreifð uppstilling með nærri mannsrúm á milli hvers einstaklings, og hins vegar að stjórnandinn var ekki aðeins kona og það í yngri kanti, heldur einnig að hún hóf upp raust sína með kórnum í tveim lögum af þremur í eigin útsetningu áður en lauk.

Sangerhilsen Griegs afhjúpaði strax í upphafi þróttsprækan og tæran hljóm kórsins, er í ofanálag hélzt ávallt afburða samtaka og smellandi rytmískur þótt hefði (líkt og hinn jafnungi YL) ekki sömu fyllingu til að bera neðst í 2. bassa og eldri karlakórar. Tenórhæðin var aftur á móti undraþjál og laus sem loft væri.

Síðan komu sjö finnsk lög. Fimm fyrstu voru eftir Veljo Tormis; framan af í hressilegum dreifbýlisanda heyanna, trúlofunarfarar og hlöðuballs með tilheyrandi léttum aukaeffektum. Síðasta og viðamesta verk Tormisar var Incantio Maris Aestuosi (einnig á dagskrá YL-verja) til minningar um Estonia-ferjuslysið 1994 við latneskaðan Kalevalatexta, er líkt og í fyrra skiptið lék jafnt á strengi sorgar og óhugnaðar. Undirstrikuðu m.a. langteygð draugablístur eftirminnilega Eystrasalt særokið og nákaldan hramm Ægis.

Þrjú lög við enska Shakespearetexta fylgdu í kjölfar harmleiksins; Come Away , Death og Lullaby eftir Finnann Jaakko Mäntyjärvi (úr Þrettaándakvöldi og Jónsmessunæturdraumi) og Madrigal eftir Ulf Långbacka (við sonnettu). Þokkaleg lög, en ekki meira, og hið síðasta m.a.s. heldur dauft. Allt annað hljóð kom í strokkinn í þrem sænsku þjóðlagaútsetningum kórstjórans, Rövarsånger (hefði fallið bráðvel að Ronju ræningjadóttur!), Kristallen den fina og Kulldansen , þar sem sitthvorumegin við innilegt guðsmóðurlagið var teflt fram askvaðandi stigamannasöng af skörulegustu sort og eldhressri smalamennsku í tónum með tilheyrandi gjallandi sauðaköllum kórstjórans. Hér fór hikstalaust seiðmagnaðasti hápunktur tónleikanna þar sem flytjendur léku á als oddi, ekki aðeins með svellandi söngtilþrifum heldur líka líflegri sviðsframkomu.

Eftir tvö snotur rómantísk lög eftir kórfélagana Stefan Engström og Henrik Möller í tilefni Íslandsheimsóknarinnar lauk SS vel heppnuðum tónleikum sínum með dúnmjúkri túlkun á ókynntu aukalagi við sænskan texta er minnti sterklega á 13. aldar ljúflingsdillu Adams de la Halle úr Le jeu de Robin et Marion , og loks nýlegu japönsku popplagi með sveifluðum fingrasmellum á "off beat" uppslögum.

Ríkarður Ö. Pálsson