"Ef ég fer að hugsa um það hvað ég á að hafa í matinn í miðju ljóði þá er það sennilega ekki verulega gott," svarar Silja Aðalsteinsdóttir m.a. þegar Páll Ásgeir Ásgeirsson spurði hana hvernig maður meti ljóð eftir óþekkt skáld.
"Ef ég fer að hugsa um það hvað ég á að hafa í matinn í miðju ljóði þá er það sennilega ekki verulega gott," svarar Silja Aðalsteinsdóttir m.a. þegar Páll Ásgeir Ásgeirsson spurði hana hvernig maður meti ljóð eftir óþekkt skáld. Trúlega hafa margir lent í áþekku hugarflökti þegar þeir þræla sér í gegnum bókmenntaverk, sem þeim finnst hvorki skemmtilegt né áhugavert, jafnvel þótt verkið sé margrómað og víðfrægt. Með svarinu hittir Silja því naglann á höfuðið rétt eins og hún virðist svo oft hafa gert þegar hún á níunda áratugnum var ritstjóri Tímarits Máls og menningar og birti frumraunir ungskálda og hvatti þau til dáða. Mörg eru nú landsþekkt, viðurkennd og verðlaunuð eins og þau fjögur, sem mæra Silju í þessu Tímariti. Einn segir hana hvorki meira né minna en guðsgjöf og hin eru henni óendanlega þakklát fyrir brautargengið. Eftir sautján ára hlé settist hún aftur í ritstjórastólinn 2004 og lætur eflaust hjartað ennþá ráða för því, eins og hún segir "ef það hrærist við lesturinn þá á ég að lesa aftur". Við lestur getur manni líka orðið kátt í sinni, til dæmis er ólíklegt að maður fari að hugsa um mat í miðri frásögn bræðranna Einars og Sigmars Vilhjálmssona af ýmsum spaugilegum atvikum, sem þeir rifja upp í spjalli við Orra Pál Ormarsson um uppvaxtarár sín. Eins og þegar Einar lýsir því þegar hann tók upp á myndband viðtal við bróður sinn þrettán ára. Sigmar, sem ku hafa verið nokkuð pattaralegur á þeim tíma, sat í rólegheitum í hengirólu heima á Egilsstöðum og talaði um alla heima og geima. Þegar Einar spurði hvað hann myndi segja við sjálfan sig ef hann kæmi til með að horfa á myndbandið í framtíðinni, svaraði Sigmar án þess að blikna: "Mikið svakalega hefur þú verið feitur." Nema auðvitað að maður sé við það að belgja sig út af páskaeggjum og fari að hugsa um að af þeim verði maður bara feitur. Svoleiðis hugarflökt er náttúrlega alveg út í bláinn, páskarnir eru bara einu sinni á ári. Gleðilega páska! | vjon@mbl.is