Systir Kathleen Maguire og faðir Tony Byrne eru ákaflega hrifin af starfsemi Regnbogabarna á Íslandi.
Systir Kathleen Maguire og faðir Tony Byrne eru ákaflega hrifin af starfsemi Regnbogabarna á Íslandi. — Morgunblaðið/Sverrir
Hann var númer fjögur á lista yfir eftirlýsta glæpamenn í Nígeríu vegna góðgerðarstarfa sinna. Hún fékk lifrarbólgu B við störf sín í Pakistan og þurfti að snúa heim til að jafna sig eftir veikindin.

Hann var númer fjögur á lista yfir eftirlýsta glæpamenn í Nígeríu vegna góðgerðarstarfa sinna. Hún fékk lifrarbólgu B við störf sín í Pakistan og þurfti að snúa heim til að jafna sig eftir veikindin. Hann er prestur og hún er nunna, bæði eru þau kaþólsk og bæði eru þau írsk. Sigrún Ásmundar hitti föður Tony Byrne og systur Kathleen Maguire sem voru stödd á Íslandi nýverið.

Fyrst tekur Maguire til máls og kliðmjúkur írskur framburðurinn fangar athyglina algjörlega.

"Ég er fædd á Austur-Írlandi. Ég gekk ung í klaustur og fór til Pakistans og Indlands sem trúboði og var þar í 26 ár," segir hún. "Ég var í 18 ár í Pakistan og afganginn af tímanum var ég í Indlandi og á þeim tíma starfaði ég að mestu að menntamálum. Ég kenndi og var skólastýra, við vorum með stóra skóla í Pakistan á þeim tíma. Þegar Pakistan fékk sjálfstæði 1947 var forgangsatriði að koma á fót skólum vegna þess að ólæsi var 80%. Pakistanska stjórnin vildi mennta börnin, sérstaklega stúlkurnar þar sem þær höfðu verið sniðgengnar gjörsamlega varðandi menntun fram að þessu. Ég tók líka þátt í því sem kalla mætti samfélagsmenntun, þ.e. að kenna fullorðnum að lesa, og að koma á fót félagsmiðstöð skammt frá afgönsku landamærunum," segir systir Maguire. Þetta var á sjöunda áratugnum, en Maguire dvaldist á þessum slóðum allt til ársins 1979.

"Allan tímann sem ég var þarna starfaði ég að menntamálum og síðustu fimm árin mín starfaði ég með ungu fólki. Ég þjálfaði t.d. pakistanskar stúlkur í að kenna."

Árið 1979 veiktist Maguire mjög alvarlega. "Ég hafði nokkrum sinnum fengið malaríu, en 1979 fékk ég mjög slæmt tilfelli af lifrarbólgu B. Það gerðist vegna þess að ég lenti á spítala þar sem læknir fyrirskipaði sprautumeðferð. Ég var hins vegar óheppin með lækninn sem sá um sprautumeðferðina og smitaðist af sprautunum." Systir Maguire var í sex daga í dái og þrjá mánuði á sjúkrahúsi. "Eftir það fór ég aftur heim til Írlands og læknar þar sögðu mér að ekki væri gott fyrir mig að fara til baka til Pakistans, ég mætti ekki fara þangað aftur fyrr en að fimm árum liðnum," segir Maguire. Að þeim fimm árum liðnum ákvað hún hins vegar að vera um um kyrrt í Írlandi. "Þar starfaði ég einnig að menntamálum, kenndi í framhaldsskólum og fleira. Einnig skipulagði ég ýmis samfélagsverkefni, það var mikil þörf á því svæði sem ég var þá að vinna á, í Miðlöndunum, fyrir umönnun þeirra sem höfðu misst einhvern. Svo að ég setti á fót stuðningshópa fyrir syrgjendur. Á þeim tíma var ástandið í Írlandi mjög dapurt. Sjálfsmorð voru algeng og einn hópurinn sem ég kom á fót var fyrir þá sem höfðu misst einhvern vegna sjálfsmorðs. Árið 2000 fannst mér svo tími til kominn fyrir mig að halda á nýjar slóðir, eða kannski frekar að útvíkka það sem ég hafði verið að gera. Löngun mín til að gera eitthvað meira kom upp á sama tíma og Tony vantaði samstarfsaðila við það sem hann var að gera á þeim tíma. Því gekk ég til samstarfs við hann og síðan höfum við starfað saman að ýmsum verkefnum." Byrne og Maguire hafa í sameiningu starfað að málefnum tengdum sjálfsmorðum, einelti og ýmsu fleira.

Að öllu þessu sögðu hallar Maguire sér aftur í sófann og gefur föður Tony Byrne orðið.

2.000 börn létust daglega

"Ég er fæddur og uppalinn í Dublin og er kaþólskur prestur," segir Byrne í upphafi. "Árið 1960 fór ég til Nígeríu þar sem ég tók m.a. mikinn þátt í að fræða fólk um mannréttindi. Þegar stríðið milli Biafra og Nígeríu braust út 1967 varð það ljóst að 2.000 manns létust á dag úr sjúkdómi sem tengdist próteinskorti." Byrne fann að á þeim tímapunkti þyrfti að fara út í róttækar aðgerðir. Þegar stríðið hafði brotist út kynntist Byrne Arngrími Jóhannssyni sem var einn af þeim sem komu að hjálparstörfum á meðan stríðið stóð yfir. Byrne þurfti flugvélar til að geta náð í vistir en Nígeríustjórn hafði sett Biafra í herkví. Hann hafði hins vegar engar flugvélar, en eftir krókaleiðum komst hann yfir þær og flugfélag var stofnað. Félagið hlaut nafnið Joint Church Aid, eða Flughjálp, og vegna upphafsstafanna í nafninu gekk flugfélagið líka undir nafninu Jesus Christ Airlines. Loftleiðir var eitt félaganna sem tóku þátt í verkefninu. "Við keyptum flugvélar, DC 7 og DC 6, ég fór til Þýskalands þar sem ég fékk peninga. Á þeim tíma kynntist ég Arngrími Jóhannssyni, sem var einn af hugrökkustu flugmönnunum sem við höfðum." Allt í allt höfðu Byrne og samstarfsmenn hans sextán flugvélar og Byrne stýrði aðgerðunum.

"Nígeríska stjórnin hafði sett 14 milljónir Biafra-búa í herkví, í lofti, á sjó og landi. Tilgangurinn var að svelta þjóðina til uppgjafar." Þetta segir Byrne að hafi valdið dauða 2.000 barna daglega. "Við flugum ólöglega, rufum herkvína og vegna þessa varð ég númer fjögur á listanum yfir eftirlýsta glæpamenn í Nígeríu. Allt um það, stríðinu lauk 1970 og ég starfaði í enskumælandi löndum Afríku, mjög mörgum þeirra, að því loknu. Ég starfaði líka í Indlandi, Vestur-Indíum og Pakistan. Ég vann að réttlæti og friði og þjálfaði heimamenn. Árið 1998 kom ég aftur til Írlands og þegar ég hóf störf þar gerði ég mér grein fyrir að á Írlandi var hæsta hlutfall sjálfsmorða meðal karla í Evrópu. Fimm hundruð manns féllu fyrir eigin hendi árið 1998."

Byrne og Maguire hefja samstarf

Byrne ákvað að gera eitthvað í málunum. "Við settum í gang verkefni sem við kölluðum "Að takast á við afleiðingar sjálfsmorðs" og systir Kathleen vann með mér að þessum málum. Nú orðið njótum við aðstoðar 14 sjálfboðaliða og með okkur starfar líka fagfólk í hlutastarfi." Byrne segir að við þessa vinnu sína hafi hann uppgötvað að 14-20% sjálfsmorða mátti rekja til þess að viðkomandi hefði í æsku verið fórnarlamb eineltis, hvort sem var á heimilinu, vinnustað eða í skóla.

Og þá erum við komin að ástæðu heimsóknar systur Maguire og föður Byrne til Íslands. Vinátta Byrne og Arngríms hefur haldist í gegnum árin og Arngrímur komst að því að Byrne og Maguire voru að fræða fólk um svipaða hluti og samtökin Regnbogabörn eru að fást við hérlendis. Vegna þessa var því ákveðið að fá þau Byrne og Maguire til Íslands.

"Eftir að ég kom til Írlands og við Kathleen vorum farin að vinna saman settum við m.a. í gang verkefni sem við kölluðum "Horfst í augu við einelti" og varð mjög vinsælt, stundum vorum við með allt að sex hundruð manns á námskeiðum. Á hverju ári sækja um 2.500 manns námskeiðin okkar. Þar fyrir utan höfum við verið með námskeið sem við köllum "Að takast á við afleiðingar sjálfsmorðs" og "Samhljómur fjölskyldunnar" sem snýst um heimilislífið. Einnig erum við með námskeið um áfengismisnotkun. Ótrúlega mörg sjálfsmorð tengjast misnotkun áfengis. Það er því alvarlegt vandamál í mörgum löndum."

Nú beinir Byrne talinu að samtökunum Regnbogabörnum á Íslandi. "Okkur var boðið hingað til lands til að halda námskeið á þeirra vegum. Við erum alveg heilluð af þessum samtökum. Þau eru dásamleg og okkur finnst í raun mjög leitt að á Írlandi séu ekki til sambærileg samtök," segir hann og talið berst að peningahliðinni. "Svona samtök þurfa stuðning. Það vekur undrun mína að þau skuli ekki fá nægjanlega fjárhagsaðstoð frá ríkisstjórninni og ekki úr einkageiranum heldur. Ég vil nota þetta tækifæri, ef ég má, og ákalla þjóðina í gegnum blaðið að styrkja þessi samtök betur. Stefán Karl Stefánsson stofnaði þau árið 2002 og mörg börn sem verða fyrir einelti hringja þangað á hverjum degi. Það stendur starfseminni þó fyrir þrifum að hafa ekki nægjanlegt fjárhagslegt bolmagn til að hafa nógu margt starfsfólk, þau þurfa fleira starfsfólk og meiri peninga til að hægt sé að reka þetta. Ég vona því að ekki verði daufheyrst við þessu ákalli mínu því að samtökin eru dásamlegt fyrirbæri og allir Íslendingar ættu að vera stoltir af þeim," ítrekar hann og bætir við, "besta leiðin til að vera stoltur er að styðja þau."

Margs konar námskeið

Byrne útskýrir á hvern hátt þau Maguire sinna störfum sínum: "Fyrst og fremst reynum við að gera fólk meðvitað um vandamálin," segir hann. "Á námskeiðin okkar kemur t.d. fólk sem hefur orðið fyrir einelti og aðstandendur þess. Við sýnum því hvernig hægt er að horfast í augu við gerendur eineltis. Við kennum hvernig best er að fást við vandamálið. Á námskeiðunum okkar um sjálfsmorð kennum við hvernig þekkja má einkennin, þ.e. hjá fólki sem sýnir merki um að vera líklegt til að fremja sjálfsmorð. Kathleen þekkir líka vel til þess hvernig hægt er að styðja aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi. Hún hjálpar því fólki sem syrgir að komast yfir sinn hræðilega missi. Á okkar vegum starfa líka sálfræðingar, geðlæknar og meðferðaraðilar. Við það sem tengist áfengismisnotkun starfar hjá okkur fólk sem þekkir til fíknar, m.a. geðlæknar, og stundum þarf fólk sem kemur til okkar sérstaka aðstoð og þá beinum við því til réttra sérfræðinga til meðferðar."

Um námskeiðið sem þau kalla "Samhljóm fjölskyldunnar" segir Maguire: "Við hjálpum fólki að bæta tengsl fjölskyldunnar innan veggja heimilisins. Þetta snýst ekki bara um foreldrahlutverkið eða hjónabandið heldur alla sem búa undir sama þaki og þurfa að fást við mismunandi aðstæður. Þetta snýr ekki bara að þeim sem eiga við vandamál að stríða heldur á þetta líka við um þá sem vilja annaðhvort bæta samskiptin eða eiga innilegra samband við þann sem þeir elska," segir hún. "Við kynnum þeim aðferð til að leysa ágreining innan heimilisins, það er sérstök aðferð sem við notum." Byrne segir að þetta sé ekki bara fyrir fólk sem fer í kirkju, kaþólikka eða mótmælendur, heldur fyrir alla. "Við fáum góðan stuðning frá ríkisstjórninni og úr einkageiranum, mörg samtök styrkja okkur fjárhagslega, vegna þess að þetta er mikils metið. Enn og aftur segi ég þess vegna að Regnbogabörnin íslensku ættu að fá meiri stuðning en þau fá," segir hann. "Þau þurfa virkilega á því að halda akkúrat núna. Samtökin geta ekki haldið áfram ef þau fá ekki meiri stuðning."

Maguire tekur undir það með Byrne að Regnbogabörn vinni gríðarlega mikilvægt starf. "Það sem er einna athyglisverðast við þau er að börn sem verða fyrir einelti hringja þangað til að fá hjálp. Við höfum ekkert í þessa veruna á Írlandi, en ég vildi óska að svo væri," segir Maguire.

Regnbogabörn í Kanada og Bandaríkjunum

"Stefán Karl Stefánsson hefur verið beðinn um að koma á fót svipuðum samtökum í Kanada og Bandaríkjunum," upplýsir Byrne óvænt. "Þannig að þú sérð að fólk utan Íslands kann að meta þetta þó að mér sýnist að Íslendingar meti þetta ekki að verðleikum," segir hann og hlær við. "Ísland er ekki fátækt land," bætir hann við og fórnar höndum. "Þess vegna ættu peningar ekki að vera vandamál."

Þau Maguire og Byrne hafa ákveðnar skoðanir á því hvernig koma má í veg fyrir einelti. "Við reynum að þjálfa kennarana, af því að kennararnir eru svo stór þáttur í skólalífinu. Ég las íslenska skýrslu um hvernig ætti að fást við ofbeldi í skólum og þar kom einnig fram að kennarar þyrftu meiri hjálp á þessu sviði. Þar stendur líka að meira þurfi að vera um forvarnir gegn einelti."

Byrne segir að einelti sé á engan hátt "ólæknandi sjúkdómur". "Það er hægt að leysa þetta," segir hann. "Hver skóli á að hafa mjög skýra stefnu gegn einelti. Sú stefna ætti að vera mótuð með því að mynda fjóra hópa. Númer eitt væru kennararnir, númer tvö annað starfsfólk, þ.e. hreingerningarfólk og hjálparliðar, síðan ættu að vera fulltrúar nemenda og foreldra. Í skýrslunni sem ég nefndi áðan kom fram að stefna gegn einelti ætti að vera hluti af námskránni. Þetta tel ég mjög mikilvægt og það ætti að kynna þessa stefnu í skólunum með plakötum á veggjunum, stefnan á að vera sýnileg." Byrne segir að þau Maguire ráðleggi foreldrum barna sem verða fyrir einelti að fara ekki í skólann til að tala um vandamálið. "Ef sést til foreldra barns sem verður fyrir einelti í skólanum getur það orðið til þess að barnið muni þjást meira. Betra er að hringja í skólastjórnendur." Byrne segir líka mikilvægt að foreldrar barna sem verða fyrir einelti skrái niður hvenær ofbeldi er framið, hvernig það gerðist, hverjir voru viðstaddir og hvaða áhrif það hafði á barnið. "Síðan verður skólinn að grípa inn í, ég held að í skólum á Íslandi sé það algengt að vísa gerendum úr skóla í viku. Það tel ég ekki vera nóg, það er ekki tekið alvarlega. Það verður að vera í lengri tíma," segir hann.

Sökin liggur hjá gerandanum

Fræðslunni er líka beint til foreldranna. "Við reynum að hjálpa foreldrum að þekkja einkenni eineltis. Það getur t.d. verið einkenni ef barnið fer að væta rúmið, það gerist í sumum tilfellum, ef barnið dregur sig í hlé, er hrætt við að fara í skólann, sýnir merki um streitu eða biður stöðugt um peninga. Stundum gerist það nefnilega að gerendur eineltis kúga peninga út úr fórnarlömbum sínum. Við bendum foreldrum á að fylgjast með því hvort barnið er með marbletti, hvort bækurnar séu rifnar eða hvort stolið sé frá því. Það er líka mjög mikilvægt að foreldrar láti barnið finna að það hafi fullan stuðning heima fyrir og að barnið geti leitað til þeirra í vandræðum sínum," segir Byrne og bætir við að mikilvægi þess að hrósa barninu sé aldrei ofmetið. "Sjálfsmynd barns sem verður fyrir einelti er eyðilögð. Jafnframt er nauðsynlegt að útskýra fyrir barninu að sökin liggi ekki hjá því heldur gerandanum," segir Byrne með þungri áherslu.

"Ef foreldrarnir vilja hjálpa barni sem leggur annan í einelti eða barni sem verður fyrir einelti er mjög mikilvægt að viðurkenna tilvist þess á heimilinu," skýtur Maguire inn í. "Ég held að það sem snýr að heimilinu hafi nefnilega verið vanrækt.

Öll erum við stolt af heimilinu okkar, það er okkar heilagi reitur," heldur hún áfram. "Þar á okkur að finnast við vera frjáls, líða vel og það er staðurinn þar sem okkur á að finnast við vera einhvers metin og finnum til öryggis og friðar. Því miður eru til rannsóknir sem sýna að eitt af hverjum fjórum heimilum getur lent í því að einhver á heimilinu verði fyrir einelti um ævina, sem er mjög dapurleg staðreynd," segir Maguire og ennfremur að engin algild skýring sé á því af hverju einn leggur annan í einelti.

Einelti er lærð hegðun

"Þó eru til kenningar um það af hverju sumir verða gerendur í einelti. Það er enginn fæddur með þessa tilhneigingu. Það er lærð hegðun. Sumar kenningar segja til um það að ef barni finnst það ekki vera nægilega elskað heima fyrir, muni það verða árásargjarnt. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir alla að sýna börnunum sínum ástúð. Ef barn sér einhver merki um eineltishegðun á heimilinu, hvort sem það er af hendi foreldris eða annarra fullorðinna, fer það að halda að slíkt sé eðlileg hegðun hins fullorðna. Þannig verða gerendur eineltis til," bætir Maguire við.

Sjálfur varð Byrne fyrir einelti af hendi eins sjálfboðaliðanna sem hann starfaði með árið 1998. "Ég varð fyrir mjög slæmu einelti og vil leggja áherslu á að bæði þeir sem eru veikir fyrir og sterkir einstaklingar geta orðið fyrir þessu. Þetta olli mér djúpum andlegum kvölum og ég hef þess vegna mikla ástríðu fyrir þessu starfi. Margir hafa reynt að rannsaka huga þeirra sem eru gerendur í einelti. Geðlæknar hafa lýst því sem svo að þeir álíta ekki að gerendur í einelti séu með persónuleikaröskun heldur sýna þeir einkenni slíks. Gerendurnir álíta að allt snúist um þá sjálfa og eiga erfitt með að sýna öðrum væntumþykju. Þeir hafa valkvætt minni og muna bara það sem þeir vilja muna og kenna jafnvel fórnarlambinu um eineltið. Hugur gerenda í eineltismálum er mikill leyndardómur og mundi taka langan tíma að fjalla um það," segir Byrne og dæsir. "Þetta hefur alltaf átt sér stað, Jesús var lagður í einelti," bætir hann við og breiðir út lófana.

Systir Kathleen Maguire og faðir Tony Byrne komu hingað til lands á vegum Arngríms Jóhannssonar og Regnbogabarna, eins og komið hefur fram. Þau dvöldust stutt á Íslandi í þetta sinn og dagskráin hjá þeim var þéttskipuð, en í henni fólst meðal annars að hitta forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson.

"Þegar við komum heim til Írlands heldur vinnan heima við áfram," segja þau og stefna ótrauð á áframhaldandi störf á þessum vettvangi, þótt bæði séu komin á áttræðisaldur, en hann er 75 ára og hún 70 ára gömul.