Ragna Sigurðardóttir rithöfundur, myndlistarmaður og myndlistargagnrýnandi var aðeins 24 ára þegar hún kynntist Silju Aðalsteinsdóttur.
Ragna Sigurðardóttir rithöfundur, myndlistarmaður og myndlistargagnrýnandi var aðeins 24 ára þegar hún kynntist Silju Aðalsteinsdóttur.

"Ég var í nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans og hafði á sama tíma komist í kynni við hóp súrrealista sem kölluðu sig Medúsuhópinn. Þetta fólk fékkst meðal annars við skriftir og mig langaði að reyna mig við það líka. Ég vann litla bók sem verkefni í nýlistadeildinni," segir Ragna, en þetta var árið 1986.

"Ég sendi einn af textunum í bókinni til Tímarits Máls og menningar þar sem Silja var ritstjóri. Þetta var djarfur texti sem ef til vill hefði hneykslað lesendur en var tilraun mín til þess að finna einhverja fegurð í ljótleikanum. Sennilega einhver áhrif frá David Lynch kvikmyndaleikstjóra.

Ég lá lengi yfir þessu og skrifaði aftur og aftur og kannski sá Silja það því hún tók mér afskaplega vel og sýndi þessari frumraun minni mikinn skilning. Ég man að ég hafði verið svo klaufsk þegar ég sendi henni þetta að endirinn á textanum var tvítekinn og Silja var alveg tilbúin til að leyfa mér að hafa þetta þannig sem sýnir vel hve hún var jákvæð og opin fyrir því nýja. Við björguðum því þó fyrir horn." segir Ragna.

"Þetta birtist síðan í Tímaritinu og var það fyrsta sem birtist eftir mig opinberlega. Þetta varð mér gríðarleg hvatning og þegar ég sá hvað Silja sýndi verkefninu mikla virðingu fór ég að bera meiri virðingu fyrir möguleikanum á sjálfri mér sem rithöfundi og ég hef aldrei getað gleymt því hvað hún tók mér vel og hef alltaf fylgst með því sem hún er að gera. Ég vissi auðvitað vel hver hún var þegar ég sendi bréfið til Tímarits Máls og menningar því ég hafði lesið þýðingar hennar og hlustað á útvarpsþætti."

Ragna segist alltaf hafa viljað sameina ritlistina og myndlistina og þessi reynsla hafi styrkt sig í þeim ásetningi. Ragna átti eftir að gefa út þrjár skáldsögur hjá Máli og menningu eftir frumraun sína á síðum Tímaritsins en þá átti hún samstarf við aðra. Hún vinnur að fjórðu skáldsögunni um þessar mundir ásamt því að skrifa um myndlist í Morgunblaðið.