— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Amma var rosalega mikil keppnismanneskja og ég hef keppnisskapið frá henni. Sif Pálsdóttir, Gróttu, varð fyrst íslenskra kvenna Norðurlandameistari í fimleikum og tileinkaði ömmu sinni, sem lést fyrir skömmu, sigurinn.
Amma var rosalega mikil keppnismanneskja og ég hef keppnisskapið frá henni.

Sif Pálsdóttir, Gróttu, varð fyrst íslenskra kvenna Norðurlandameistari í fimleikum og tileinkaði ömmu sinni, sem lést fyrir skömmu, sigurinn.

Til þess að miðla ástarsögunni var því einfaldast fyrir mig að vinna með persónum sem voru raunverulega ástfangnar.

Matthew Barney í New York Times um hlutverk þeirra Bjarkar sem elskendanna í kvikmyndinni Drawing Restraint 9, en frumsamin tónlist eftir Björk er uppistaðan í hljóðmynd verksins.

Það er auðvitað rangt sem hefur verið haldið fram að menn hafi verið að vísa hver á annan.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra um meint aðgerðarleysi ráðamanna og stjórnenda, vegna þess ófremdarástands, sem víða er að skapast á hjúkrunar- og dvalarheimilum aldraðra vegna óánægju starfsfólks með laun.

Þetta eru evrópsk úrslit og eins og ég hef sagt verða Evrópumálin í brennidepli stjórnar minnar.

Romano Prodi, fyrrverandi forsætisráðherra, eftir sigur vinstrabandalagsins í báðum þingdeildum, fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, í þingkosningunum á Ítalíu.

Þetta er ekkert flókið, það lifir enginn af þessum launum. Við vinnum ábyrgðarstörf og ég skammast mín næstum fyrir að beygja mig fyrir þessum krónum.

Fundarkona á fjölmennum baráttufundi sérhæfðs starfsfólks og félagsliða á nokkrum hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Það má segja að við séum komin að eins konar tímabundnum endimörkum góðu áranna. Þetta gengur yfir á einu eða tveimur árum. Svo byrjar ballið aftur.

Tryggvi Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, um verðbólguaukningu undanfarinna mánuða.

Ég hef alltaf farið mínar eigin leiðir frá því ég fór að þjálfa. Í fyrsta leiknum í Njarðvík prófaði ég ýmislegt sem virkaði ágætlega að mínu mati, en margir leikmenn liðsins voru einfaldlega of þreyttir eðaa "flatir" til þess að geta gert eitthvað af viti.

Valur Ingimundarson, þjálfari Skallagríms úr Borgarnesi, eftir 87:77 sigur liðsins gegn Njarðvík í öðrum leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla.

Það er alltaf verið að flytja inn erlent vinnuafl til að halda laununum niðri í þessum störfum. Af hverju geta þeir ekki flutt inn kínverska eða pólska bankastjóra og verðbréfasala? Þeir tækju ekki há laun og þá loksins færum við að spara og vextirnir okkar myndu jafnvel lækka.

Álfheiður Bjarnadóttir, forsvarskona baráttu ófaglærðs starfsfólks Hrafnistu fyrir bættum kjörum, um stöðu kjaramála umönnunarstarfsfólks.