ÁÆTLAÐ er að fyrri vélin af tveimur í nýju orkuveri Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi verði gangsett um eða fyrir 1. maí nk. og sú síðari um eða upp úr 1. maí, segir Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS.
ÁÆTLAÐ er að fyrri vélin af tveimur í nýju orkuveri Hitaveitu Suðurnesja á Reykjanesi verði gangsett um eða fyrir 1. maí nk. og sú síðari um eða upp úr 1. maí, segir Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri HS. Virkjunin er stærsta verkefni sem HS hefur ráðist í.

Reykjanesvirkjun kemur til með að framleiða 100 megawött af rafmagni með því að nýta jarðgufu úr jarðgeymi þar sem hitastig er frá 290°C til 320°C, en ekki hefur áður verið reynt að nýta svo heita gufu til slíks verkefnis. Albert segir að af þeim 100 megawöttum sem virkjunin mun framleiða fari nær öll orkan, eða um 97%, til Norðuráls.

Hann segir að unnið sé af krafti á framkvæmdasvæðinu um þessar mundir en um páskana er haldið úti lágmarks mannskap við vinnu, í kringum tíu manns.

"Í augnablikinu erum við að skola gufulagnir sem hefur verið tímafrekara en við bjuggumst við," segir Albert en bætir við að þrátt fyrir það sé verkefnið engu að síður á áætlun.

Heildarkostnaður við verkefnið er á bilinu 9 til 10 milljarðar og segir Albert framkvæmdir hafa haldist nokkuð vel á þeirri áætlun. HS kemur til með að fjármagna 25% af kostnaði virkjunarinnar með eigin fé en 75% verða fjármögnuð með lántöku.