Gæs kurraði í kuldagarra og leitaði skjóls undir vegg; veikluleg að sjá. "Hvað getum við gert til að hjálpa henni?" andvarpaði mamma svo djúpt að móðurhjartað virtist vera við það að bresta.
Gæs kurraði í kuldagarra og leitaði skjóls undir vegg; veikluleg að sjá. "Hvað getum við gert til að hjálpa henni?" andvarpaði mamma svo djúpt að móðurhjartað virtist vera við það að bresta.

"Kannski getum við hringt í dýrahjálparlínu," sagði ég. "Í Kaupmannahöfn er hægt" að hringja í fólk sem kemur og hlúir að dýrinu eða aflífar það.

"Í Reykjavík er engin dýrahjálparlína," fussaði mamma. "Bara stórir jeppar og dýrar tískubúðir. Það hefur enginn hugmyndaflug til að opna dýrahjálparlínu."

"Ertu viss um það?" hnerraði ég þarna úti í kuldanum.

"Tja! Ég hef að minnsta kosti aldrei heyrt um dýrahjálparlínu," staðhæfði mamma og horfði á gæsina líkt og hún væri ungbarn með sótthita. Við stóðum ráðvilltar við Tjörnina þangað til mömmu hugkvæmdist að við fengjum okkur súpu á Kaffibrennslunni og nöppuðum brauði handa gæsinni. Mér leist vel á það og við börðumst við vindinn þar til við ultum þangað inn.

Á Kaffibrennslunni fengum við rjómalagaða aspassúpu og vel úti látna brauðkörfu. Þegar nokkrir ljúfir súpusopar höfðu ratað ofan í maga leit mamma samsærislega á mig og hófst handa við að pakka brauðinu inn í servíettu og troða því ofan í kvenveskið. Á unglingsárum hefði ég skorið mig á háls við að horfa upp á þessar aðfarir á almannafæri - en nýorðin þrjátíu og þriggja ára horfði ég angurvær á þær. Mikið fannst mér skemmtilegt að vera með þessari fjögurra barna móður á sextugsaldri og sjá hvernig hún hikaði ekki við að vera hallærisleg á kaffihúsi til að bjarga aumri gæs, í það minnsta lina þjáningar hennar. Til að verða ekki of angurvær rétti ég úr mér og spurði mömmu hvað við ættum að gera ef gæsin næði ekki í vatnssopa.

"Nú! Þá er hún dauðans matur - og ekkert við því að gera," svaraði mamma, skemmtilega jarðbundin miðað við manneskju sem hafði rétt í þessu tæmt heila brauðkörfu ofan í veskið sitt.

"Auðvitað," tautaði ég álíka aulalega og daginn sem hún útskýrði fyrir mér að fötin mín þvæðu sig ekki sjálf. Svo hnepptum við kápunum upp í háls og leyfðum vindinum að feykja okkur að Tjörninni þar sem gæsin húkti. Á leiðinni óskaði ég þess að það væri dýrahjálparlína í Reykjavík, enda lærði ég á barnsaldri að það bæri að líkna þjáðum dýrum - en því miður er ég alltof mikil gunga á fullorðinsárum til að snúa gæs úr hálsliðnum. Get í mesta lagið hugsað mér að kasta brauðmolum til gæsargreysins og forðast að hugsa um bíómyndina The Birds meðan tíu aðrar gæsir umkringja mig og horfa gráðugum augum á bústna kálfa mína.

"Þær gera þér ekkert," sagði mamma og ég þóttist vita það en gat þó ekki stillt mig um að segja henni frá svaninum sem urraði á mig í fyrra. Mamma lét sér ekki bregða við duttlungana, enda hefur hún vanist mér á þessum þrjátíu og þremur árum sem við höfum þekkst. Hún greip bara í arm minn, óð inn í miðjan gæsahópinn með mig í eftirdragi og kastaði afganginum af brauðmolunum til veiku gæsarinnar.

Daginn eftir hringdi mamma og spurði hvort við ættum að tékka aftur á gæsinni en ég var upptekin. Núna sé ég eftir því. Kannski það hefði skilið milli lífs og dauða ef við hefðum heimsótt gæsina aftur. En kannski nægði ein heimsókn til að bjarga henni. Og kannski var ekkert sem við gátum gert til að hjálpa henni. Hver veit? | audur@jonsdottir.com

Leiðrétting 19. apríl - Neyðaraðstoðarsími fyrir fuglana

Í pistli sínum í Tímariti Morgunblaðsins, síðastliðinn sunnudag, gaf Auður Jónsdóttir í skyn að strembið væri að finna hjálp fyrir veika fugla við Tjörnina vegna skorts á Dýrahjálparlínu í Reykjavík. Höfundur biðst velvirðingar á því, enda var honum í kjölfarið bent á að starfræktur er neyðaraðstoðarsími fyrir fuglana á Tjörninni: 693 9621 og 563 2799 og að jafnframt megi hafa samband við Dýraverndarsamband Íslands (dyravernd.is).