Stúlka af Hamar-þjóðernishópnum í suðurhluta Eþíópíu. Páskadagur í Eþíópíu er ekki fyrr en um næstu helgi, 23. apríl. Þar er auk þess núna árið 1998.
Stúlka af Hamar-þjóðernishópnum í suðurhluta Eþíópíu. Páskadagur í Eþíópíu er ekki fyrr en um næstu helgi, 23. apríl. Þar er auk þess núna árið 1998. — Morgunblaðið/Sigríður Víðis
Páskunum í fyrra eyddi ég í Eþíópíu. Ég fann ekkert súkkulaðipáskaegg en snæddi hins vegar eggjahræru á páskadag og ákvað samstundis að það væri páskaeggjahræra.
Páskunum í fyrra eyddi ég í Eþíópíu. Ég fann ekkert súkkulaðipáskaegg en snæddi hins vegar eggjahræru á páskadag og ákvað samstundis að það væri páskaeggjahræra.

Það var móðir mín sem minnti mig á það með tölvupósti að páskahátíðin væri þessa helgi en ekki einhverja aðra. Ég kom af fjöllum. Ha, voru páskar? Ég var orðin rugluð í öllu saman, enda páskar rétttrúnaðarkirkjunnar í Eþíópíu seinna en páskarnir á Íslandi. Samkvæmt tímatali landsins var auk þess árið 1997 en ekki árið 2005 og í ofanálag var klukkan önnur. Í hverjum sólarhring í Eþíópíu eru nefnilega tveir 12 tíma hringir í stað eins 24 klukkustunda hrings og klukkan núllstillist sex á morgnana. Þá kemur sólin upp og dagurinn hefst.

Sturlungaöld og ný Jerúsalem

Eftir því sem ég var lengur í Eþíópíu fannst mér tímatalningin sniðugri. Ef flestir vöknuðu við sólarupprás klukkan sex var miklu rökréttara að klukkan væri eitt þegar hún var sjö að okkar tíma, því þá var klukkustund liðin af deginum.

Helmingur Eþíópíubúa er kristinn og flestir þeirra eru í eþíópísku rétttrúnaðarkirkjunni. Heimafólk í borginni Bahir Dar í Eþíópíu segir að María mey og Jesú hafi komið alla leið þangað og dvalið þar, þegar þau voru gerð útlæg.

Þar sem ég virti fyrir mér fallegar veggmyndir í mörg hundruð ára gömlum klaustrum í Bahir Dar, hljómaði skyndilega í eyrum mér það sem staðhæft var við mig fyrir nokkrum árum, nefnilega að það væri engin almennileg saga í "þessum Afríkulöndum, sérstaklega þarna sunnan Sahara - veistu, þetta vantar bara allar söguslóðir..."

Ég leit á klausturmyndirnar og fussaði. Þegar við vorum enn að nema land á Íslandi og hrófla upp moldarkofum með grasi á þakinu, hafði konungdæmið mikla í Aksum í Eþíópíu teygt sig langt út fyrir landsteinana. Mynt hafði verið slegin, kastalar reistir og kristni gerð að ríkistrú. Eþíópía var annað landið í heiminum til að gera svo. Og nokkrum áratugum fyrir Sturlungaöld réðst eþíópíski konungurinn Lalibela í það þrekvirki að höggva risavaxnar steinkirkjur út úr klettunum í konungdæmi sínu - eða raunar upp úr klettunum, því gengið er niður í bergið til að skoða kirkjurnar. Lalibela hugðist búa til nýja Jerúsalem. Þá þyrfti fólk í Eþíópíu ekki að fara í pílagrímsferð alla leið til landsins helga og ganga yfir múslímsk svæði í Súdan og Egyptalandi. Með hamar og meitil að vopni unnu þúsundir verkamanna ár eftir ár við smíði kirknanna, sem eru einar mikilvægustu minjarnar í kirkjusögu heimsins. Rúmlega átta hundruð árum síðar standa þær enn, skornar í heilu lagi úr hamrabeltinu.

Það var innan um þessar kirkjur sem ég dvaldi á páskunum í fyrra og velti fyrir mér hvernig hægt var að skapa svona nokkuð. Lengi vel töldu menn að einhverjir aðrir en Eþíópíubúar hlytu að eiga heiðurinn af þessu því "svona nokkuð gat ekki verið afrískt"...

Pakkamatur og þráavörn

Fólk á Íslandi hefur oft þungar áhyggjur af því að ég veikist illa í maga á ferðalögum mínum. Ég verð að viðurkenna að maginn á mér er þvert á móti í miklu betra ástandi á ferðalögum um aukaefnalaus þróunarlönd en í pakkamatar-velmeguninni heima. Á Íslandi skófla ég í mig rotvarnarefnum og skyndibita og skola öllu niður með þráavarnarefnum, auk þess að borða reglulega yfir mig. Í Eþíópíu var raunar sérlega góð tilbreyting frá rotvarnarefnabrjálæðinu að snæða mat sem var búinn til samstundis, úr hráefni af staðnum, og laus við nokkur aukaefni.

Íslensk matargerð best í maga? Humm. Páskaeggjahræran fór tvímælalaust betur í magann en súkkulaðipáskaegg.

sigridurv@mbl.is