Guðmundur Halldórsson og Elísabet Guðrúnardóttir ásamt börnum sínum, Guðrúnu Erlu og litlu hetjunni Hilmi Snæ sem fæddist tæpum fjórum mánuðum fyrir tímann í desember sl.
Guðmundur Halldórsson og Elísabet Guðrúnardóttir ásamt börnum sínum, Guðrúnu Erlu og litlu hetjunni Hilmi Snæ sem fæddist tæpum fjórum mánuðum fyrir tímann í desember sl. — Morgunblaðið/RAX
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is AÐ JAFNAÐI fæðast hér á landi innan við tíu börn á ári sem eru léttari en eitt kíló og aðeins tvö til þrjú börn árlega fæðast á 24.-25. viku meðgöngu.
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is

AÐ JAFNAÐI fæðast hér á landi innan við tíu börn á ári sem eru léttari en eitt kíló og aðeins tvö til þrjú börn árlega fæðast á 24.-25. viku meðgöngu. Aðeins eru um helmingslíkur á að börn sem fæðast svo ung lifi. Hilmir Snær Guðmundsson er sannkölluð hetja því hann er með minnstu fyrirburum hérlendis sem lifað hefur það af að fæðast tæpum fjórum mánuðum fyrir tímann, en hann var aðeins þrjár merkur, eða 775 g, þegar hann kom í heiminn hinn 7. desember sl.

"Hann er algjör nagli og hefur sífellt verið að koma okkur á óvart í framförum sínum," segir Guðmundur Halldórsson, faðir Hilmis Snæs, og Elísabet Guðrúnardóttir, móðir hans, bætir við: "Við erum bjartsýn á framtíðina. Hilmir Snær er ótrúlega heppinn því það er ekki hægt að bjarga öllum fyrirburum og það er því alls ekki sjálfgefið að koma með barn heim úr þessum aðstæðum."

Að sögn Drífu Freysdóttur, barna- og nýburalæknis á vökudeild Barnaspítala Hringsins, var Hilmir Snær mjög heppinn að fá engar alvarlegar sýkingar meðan á sjúkrahúsvist hans stóð." Aðspurð segir hún fyrstu tvær vikurnar krítískan tíma hjá svo ungum fyrirburum, því þau séu viðkvæm fyrir sýkingum vegna óþroskaðs ónæmiskerfis auk þess sem öll líffæri eigi eftir að taka út nokkurn þroska. Segir hún sýkingarhættuna raunar vera til staðar svo lengi sem börnin eru tengd við æðaleggi og öndunarvélar.

Aukin hætta á langvarandi vandamálum hjá fyrirburum

Aðspurð segir Drífa erfitt að segja með vissu hvað valdi fyrirburafæðingum. "Vitað er að aðgerðir á leghálsi geta aukið líkur á leghálsbilun, sem getur svo aftur leitt til fyrirburafæðinga, en það er engin bein fylgni þarna á milli. Þannig er það ekki svo að allar konur sem farið hafa í slíkar aðgerðir eignist börn fyrir tímann," segir Drífa og nefnir að sýkingar hjá móður eða barni, sem móðirin verði oft ekki vör við, sé algengasta ástæða þess að börn fæðist fyrir tímann.

Að sögn Drífu fékk Hilmir Snær litla heilablæðingu skömmu eftir fæðingu, en um fjórðungur fyrirbura sem fæðast jafn snemma og hann glíma við heilablæðingu og/eða blóðrásartruflanir í heila á fyrstu dögum eftir fæðingu. Segir Drífa það stafa af því hve æðarnar í heila fyrirbura eru þunnar og rifna auðveldlega. Aðspurð segir hún Hilmi Snæ hafa sloppið mjög vel frá heilablæðingunni og því séu horfur góðar.

"Það hefur sýnt sig að mjög smáar blæðingar í heila fyrirbura auka ekki hættuna á langvarandi vandamálum að neinu ráði umfram það sem er hjá börnum sem ekki sést nein blæðing hjá. Hins vegar er aukin hætta á langvarandi vandamálum s.s. hreyfihömlun, greindarskerðingu, sjónvandamálum, heyrnarskerðingu, námserfiðleikum og/eða einbeitingarvanda hjá öllum börnum sem eru fædd svona löngu fyrir tímann, hvort sem þau fá blæðingu eða ekki. Það er mjög erfitt að segja nokkuð fyrir um það hver framtíðin verður hjá Hilmi Snæ, það mun skýrast á næstu árum. Hins vegar eru horfur hans, út frá því hvernig hans sjúkrasaga var, góðar af því að hann lenti ekki í alvarlegum vandræðum," segir Drífa.