Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon skrifar um áherslur F-listans: "Málstaður eldri borgara mun hljóma sem aldrei fyrr þegar Guðrún Ásmundsdóttir kveður sér hljóðs í borgarstjórn Reykjavíkur."
Í BYRJUN marsmánaðar kynnti F-listi, Frjálslyndra og óháðra, helstu áherslur sínar í komandi borgarstjórnarkosningum, fyrstur framboða í Reykjavík. Undir yfirskriftinni "velferð, umhverfi, nýsköpun" lagði F-listinn áherslu á velferðar-, umhverfis- og atvinnumál í stefnumótun sinni. Bætt þjónusta við aldraða yrði helsta forgangsmálið á næsta kjörtímabili með sérstakri áherslu á fjölgun hjúkrunarrýma og eflingu heimaþjónustu.

Ríkisstjórnarflokkarnir ekki trúverðugir

Það er athyglisvert að aðrir flokkar hafa komið í kjölfar F-listans og sagst vilja bæta aðstæður og kjör aldraðra í Reykjavík á næsta kjörtímabili. En finnst fólki það trúverðugt, þegar Sjálfstæðisflokkurinn, sem í ríkisstjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn, hefur látið höggin dynja á öldruðum og öryrkjum, segist nú vilja allt gera til að bæta stöðu þessara hópa í borginni? Svar mitt við þeirri spurningu er nei og er nærtækast í því sambandi að minna á öfuga Hróa hattar pólitík ríkisstjórnarflokkanna í skattamálum þar sem áhersla er lögð á að bæta kjör hinna ríku og sterku á kostnað þeirra sem minna mega sín. Ekki má heldur gleyma málaferlunum sem þessir hópar hafa staðið í vegna vanefnda ríkisvaldsins ásamt óréttlátum tekjutengingum og skerðingum bóta.

Spurning kjósenda hlýtur að vera sú, hvernig orð og efndir stjórnmálafla haldast í hendur og hverjir séu líklegir til að láta verkin tala í takt við orðin en ekki þvert á þau eins og hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Réttlæti fyrir aldraða

Fyrsta verk F-listans á þessu kjörtímabili var að flytja tillögu um það í borgarstjórn að skora á ríkisstjórn og Alþingi að hækka skattleysismörk í það horf sem þau voru þegar staðgreiðslukerfi skatta var komið á árið 1988. Slík breyting myndi koma þeim sem mest þyrftu á því að halda til góða. Frjálslyndir á Alþingi hafa barist fyrir þessu eins og svo mörgum málum er varða bætt kjör aldraðra og öryrkja og aukið réttlæti þeim til handa, enda er það áherslan á velferðamálin sem markar skörpustu skilin á milli Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra.

F-listinn hefur barist gegn tillögum R-listans um skerðingu á félagsstarfi aldraðra og hækkun þjónustugjalda. Lægri þjónustugjöld aldraðra og öryrkja hafa verið sérstakt baráttumál F-listans en tillögur þar að lútandi hafa undantekningarlítið verið felldar af meirihluta R-listans. Til að bæta megi þjónustu við aldraða þarf að bæta kjör umönnunarstétta og útrýma þeirri láglaunastefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa haldið uppi gegn þessum stéttum. F-listinn hefur af heilum hug stutt leiðréttingu á kjörum umönnunarstétta. Það er holur hljómur í málflutningi þeirra, sem segjast vilja bæta þjónustu við aldraða en draga síðan lappirnar þegar kemur að löngu tímabærum kjarabótum þeirra sem sjá um þjónustuna.

Fulltrúi eldri borgara í borgarstjórn

F-listinn hefur sannarlega látið verkin tala í borgarstjórn Reykjavíkur á þessu kjörtímabili. En sérstaða F-listans í öldrunarmálum er þó skýrust þegar litið er á þá lista sem nú bjóða fram til borgarstjórnar. Aðeins F-listinn er með eldri borgara í einu af efstu sætunum og er þar um að ræða hina þjóðþekktu leikkonu, Guðrúnu Ásmundsdóttur, sem nú stendur á sjötugu. Þessi hæfileikaríka atorkukona hefur sýnt það í verki að hún er með hjartað á réttum stað. Ég er þess fullviss að málstaður eldri borgara mun hljóma sem aldrei fyrr þegar Guðrún Ásmundsdóttir kveður sér hljóðs í borgarstjórn Reykjavíkur á næsta kjörtímabili. Þá munu verkin verða látin tala í takt við þá réttlætiskennd sem er samnefnari frambjóðenda F-listans.

Höfundur er læknir og oddviti F-listans í borgarstjórn.